Home / Fréttir / Trump segist hafa rætt um Biden við forseta Úkraínu

Trump segist hafa rætt um Biden við forseta Úkraínu

 

 

Joe Biden og sonur hans Hunter - myndin tekin 2009.
Joe Biden og sonur hans Hunter – myndin tekin 2009.

Donald Trump Bandaríkjaforseti staðfesti sunnudaginn 22. september að hann hefði rætt um Joe Biden, fyrrv. varaforseta Bandaríkjanna, við Volodímír Zelenskíj, forseta Úkraínu, í síma í júlí 2019. Andstæðingar Trumps líta á símtalið sem pólitískt hneyksli sem geti spillt samskiptum ríkjanna.

Trump segir að hann hafi sagt við Zelenskíj þegar þeir töluðu saman 25. júlí 2019 „við viljum ekki að fólk héðan eins Biden varaforseti og sonur hans“ auki á spillinguna sem þegar er fyrir hendi í Úkraínu.

Biden keppir að því að verða forsetaframbjóðandi demókrata gegn Trump í kosningunum í nóvember 2020.

Í The Wall Street Journal sagði föstudaginn 20. september að Trump hefði átta sinnum í símtalinu beðið Zelenskíj að láta kanna umsvif Bidens í Úkraínu. Meðal demókrata er því haldið fram að líta megi á þessa aðgangshörku sem einskonar nauðung.

Demókratinn Adam Schiff, formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði að sýndi athugun að Trump hefði beitt starfsbróður sinn í Úkraínu þrýstingi til að hann léti rannsaka Biden ættu þingmenn ekki annað úrræði en sækja Trump til saka með kröfu um afsögn hans.

„Sé málum í raun þannig háttað að forsetinn stöðvar framgang hernaðaraðstoðar í sömu andrá og hann reynir að hræða leiðtoga erlends ríkis til að gera eitthvað ólöglegt við öflun óhróðurs um andstæðing forsetans í kosningabaráttu kann það að vera eina úrræðið sem hæfir illivirkinu sem felst í þessari framkomu,“ sagði Schiff í CNN-þættinum State of the Union sunnudaginn 22. september 2019.

Um er að ræða atvik sem má rekja til ársins 2014 þegar Hunter sonur Joes Bidens settist í stjórn úkraínska gas-fyrirtækisins Burisma Holding sem sætt hafði rannsókn.

Joe Biden hafði málefni Úkraínu á sinni könnu á þessum tíma innan Bandaríkjastjórnar. Biden krafðist að ríkisstjórnin í Kænugarði ræki Viktor Shokin ríkissaksóknara þar sem hann tækist ekki á við spillingu í landinu.

Rudy Giuliani, einka-lögfræðingur Trumps, sakar nú Biden um að reka Shokin til að stöðva Burisma-rannsóknina´

Í fjölmiðlum í Úkraínu segir að Shokin hafi ekki staðið að neinni rannsókn á Burisma á þessum tíma.

Laugardaginn 21. september krafðist Joe Biden þess að Trump birti „tafarlaust“ útskrift af símtalinu. Bandaríska þjóðin ætti sjálf að fá að dæma í málinu. Trump sagði 22. september að hann íhugaði birtingu en símtalið hefði „mest megnis“ snúist um heillaóskir til nýkjörins forseta Úkraínu.

Nefndir fulltrúadeildar þingsins fara nú yfir fréttir þar sem fullyrt er að Trump hafi hótað að losa ekki um 250 milljón dollara hernaðaraðstoð til Úkraínu nema stjórn Zelenskíjs kannaði athafnir Bidens og sonar hans.

Lagt var bann við fyrirgreiðslunni nokkrum vikum fyrir símtalið en í fyrri viku skýrðu embættismenn í Hvíta húsinu frá því að um það hefði verið afnumið.

Vadím Prístaiko, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði laugardaginn 21. september af og frá að Trump hefði beitt Zelenskíj þrýstingi í símtalinu.

„Ég veit um efni samtalsins og tel að ekki hafi verið um neinn þrýsting að ræða,“ sagði Prístaiko í samtali við fjölmiðilinn Hromadske. „Þetta var langt, vinsamlegt samtal þar sem drepið var á mörg mál sem sum kröfðust alvarlegra svara.“

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …