
Í frétt í The Washington Post (WP) mánudaginn 15. maí er vitnað í núverandi og fyrrverandi bandaríska embættismenn sem segja að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi látið Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Sergeij Kisljak, sendiherra Rússa í Bandaríkjunum, í té leynilegar upplýsingar þegar hann hitti þá á fundi í Hvíta húsinu miðvikudaginn 10. maí.
Að morgni þriðjudags 16. maí varði Trump ákvörðun sína um að miðla viðkvæmum upplýsingum til Rússanna. Hann birti tvo texta á Twitter og sagðist hafa „ótvíræðan rétt“ til að gera það vegna baráttunnar við hryðjuverkamenn.
Um er að ræða upplýsingar sem bandarísk yfirvöld fengu frá Ísraelum sagði NYT síðdegis þriðjudaginn 15. maí um Daesh (Ríki íslams) hryðjuverkasamtökin. Sagt er að Ísraelar hafi ekki gefið Bandaríkjastjórn heimild til að láta Rússum þessar upplýsingar í té.
Í samtölum sínum við Rússana á Trump að hafa farið út fyrir talpunkta frá embættismönnum sínum og skýrt frá atriðum varðandi áform Daesh sem tengjast fartölvum um borð í flugvélum segir WP. Ónafngreindir embættismenn segja að með því að skýra frá þessu hafi Trump stofnað mjög mikilvægu trúnaðarsambandi á milli njósnastofnana í hættu, sambandi sem hafi veitt Bandaríkjastjórn aðgang að upplýsingum um innri starfsemi Daesh.
WP hefur eftir heimildarmanni sínum að forsetinn hafi miðlað meiri upplýsingum til Rússa en Bandaríkjastjórn hafi gert til bandamanna sinna. Þá hafi upplýsingarnar verið of viðkvæmar til að þeim væri miðlað innan bandaríska stjórnkerfisins nema til fárra útvaldra.
Bandaríkjastjórn bannaði á dögunum að fartölvur yrðu í farþegarýmum flugvéla frá Mið-Austurlöndum til Bandaríkjanna og nú er rætt um að bannið nái einnig til véla á leið þangað frá Evrópu.
Eftir að fréttin birtist í WP báru embættismenn forsetans hana til baka, þar á meðal H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, sem sat fund forsetans með Rússunum. Hann sagði í stuttu sjónvarpsviðtali mánudagskvöldið 15. maí að forsetinn og utanríkisráðherra Rússa hefðu rætt um sameiginlegar ógnir frá hryðjuverkasamtökum þar á meðal að flugvélum. Alls ekki hefði verið minnst á leynilega heimildarmenn eða aðferðir og ekki hefði verið rætt um aðrar hernaðaraðgerðir en sagt hefði verið frá opinberlega.
McMaster sagði að WP segði frá einhverju sem ekki hefði gerst. WP bendir á að í frásögn blaðsins hafi ekki verið minnst á aðferðir við að afla leynilegra upplýsinga. McMaster hafi ekki minnst á þann kjarna fréttar blaðsins, að forsetinn hafi miðlað upplýsingum sem aflað hefði verið frá viðkvæmum heimildarmanni.
H.R. McMaster svaraði spurningum fjölmiðlamanna í Hvíta húsinu þriðjudaginn 16. maí og tók hvað eftir upp hanskann fyrir forsetann þegar hann ræddi fundinn með Rússunum. Hann sagði forsetann ekki hafa vitað frá hvaða landi trúnaðarupplýsingarnar komu og gerði lítið úr áhyggjum þeirra sem telja að forsetinn hafi spillt samstarfi bandarískra njósnastofnana við sambærilegar stofnanir í öðrum löndum.
McMaster sagði „fyllilega við hæfi“ að forsetinn upplýsti rússneska viðmælendur sína á þann hátt sem hann gerði. Þjóðaröryggisráðgjafinn færðist undan að svara þegar hann var spurður hvort um trúnaðarmál hafi verið að ræða. Hann lagði hins vegar áherslu á að Trump hefði „ekki á nokkurn hátt spillt neinum samskiptum við heimildarmenn eða aðferðum í samtalinu,“ hann sagði: „Forsetinn vissi ekki einu sinni hvaðan upplýsingarnar komu.“
NYT segir að Twitter-færslur Trumps virðist grafa undan varlega orðuðum yfirlýsingum ráðgjafa hans mánudaginn 15. maí þegar þeir reyndu að rengja frétt WP án þess að nefna einstök atriði í henni.
Viðmælendur fjölmiðla telja að ekki séu öll kurl komin til grafar í þessu máli. Einkennilegt sé til dæmis að starfsmenn forsetans hafi talið nauðsynlegt eftir fundinn með Rússunum að hafa samband við CIA, bandarísku leyniþjónustuna, og NSA, Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna til að upplýsa menn þar um að forsetinn hefði ekki talað af sér við Rússana eða spillt trúnaðarsamstarfi við önnur ríki.
Í BBC sagði sérfræðingur breska ríkisútvarpsins þriðjudaginn 16. maí að Rússar hefðu greinilega mikla ánægju af þeim vandræðum sem fundurinn með utanríkisráðherra þeirra og sendiherra hefðu valdið í Washington.
Rússneska utanríkisráðuneytið sagði rangt að Trump hefði látið rússnesku embættismönnunum í té trúnaðarupplýsingar. Maria V. Zakharova, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, var á Spáni og sagði að um „falsfrétt“ væri að ræða. Hún sagði í færslu á Facebook:
„Strákar, eru þið aftur teknir til við að ræða bandarísk dagblöð? Þið ættuð ekki að lesa þau. Það má nota þau á ýmsan hátt en það er alls ekki nauðsynlegt að lesa þau – upp á síðkastið er það ekki aðeins skaðlegt heldur hættulegt.“
Zakharova sagðist hafa spáð því fimmtudaginn 11. maí, daginn eftir fundinn með Rússunum, að bandarískir fjölmiðlar mundu undirbúa „stórfrétt“ um fundinn. Áform fréttamiðlanna væri meðal annar að birta leynilegar myndir „til að færa síðustu falsfréttirnar í trúverðugan og lögmætan búning“. Hún sagði: „Við eyðilögðum þennan hluta upplýsingaherferðarinnar með því að birta myndir í samræmi við lög og almennar starfsreglur.“