Home / Fréttir / Trump segist ætla flytja úr Hvíta húsinu

Trump segist ætla flytja úr Hvíta húsinu

Donald Trump á blaðamannafundi 26. nóvember 2020.
Donald Trump á blaðamannafundi 26. nóvember 2020.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði fimmtudaginn 26. nóvember að hann myndi fara úr Hvíta húsinu ef kjörmannafundur styddi Joe Biden. Steig Trump þar með enn nýtt skref í þá átt að viðurkenna ósigur í forsetakosningunum 3. nóvember. Hann áréttaði jafnframt að kosningarnar einkenndust af víðtæku svindli.

Trump hitti blaðamenn í tilefni þakkargjörðardagsins og sagðist fara úr Hvíta húsinu yrði það niðurstaðan á fundi kjörmanna að styðja Biden en hann tekur við embætti forseta 20. janúar 2021. Trump svaraði engu um hvort hann yrði við embættistöku Bidens. Kjörmannafundurinn verður 14. desember.

„Kosningarnar voru svik,“ fullyrti Trump án þess að skýra frá nokkrum gögnum máli sínu til stuðnings.

Biden dvelst um helgina í Rehoboth, litlum sjávarbæ í heimaríki hans Delaware. Hann sagði á myndskeiði á Twitter með konu sinni að þau héldu þakkargjörðina venjulega á Nantucket-eyju undan strönd Massachusetts-ríkis en að þessu sinni yrðu þau í Delaware með fámenni vegna farsóttarinnar.

Trump er vanur að vera þessa helgi í Mar-a-Largo í Flórída þar sem hann rekur golfvöll með glæsilegri aðstöðu til gistingar og veitingasölu. Að þessu sinni var hann fimmtudaginn í Washington og fór fyrir hádegi í Trump National Golf Club, golfklúbb sinn í Virginiu-ríki og lék þar einn hring.

Í fyrra notaði Trump hins vegar þakkargjörðarhelgina til að fara í skyndiferð til Afganistan þar sem hann gaf bandarískum hermönnum kalkún áður en hann settist til borðs með þeim. Að þessu sinni ávarapaði hann bandaríska hermenn á myndskeiði.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …