Home / Fréttir / Trump segist ætla að efla herstyrk Bandaríkjanna á við það sem mest hefur áður orðið

Trump segist ætla að efla herstyrk Bandaríkjanna á við það sem mest hefur áður orðið

trump_1920x1076-1024x574

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist ætla að efla Bandaríkjaher á við það sem mest hefur verið áður gert í sögu Bandaríkjanna. Þetta verði gert á þann hátt að í framtíðinni muni enginn nokkru sinni leggja til atlögu við Bandaríkjamenn.

„Enginn mun framvegis dirfast að efast um hernaðarmátt okkar,“ sagði Trump í ræðu föstudaginn 24. febrúar á Conservative Political Action Conference (CPAC), barátturáðstefnu íhaldamanna í National Harbor, Maryland, skammt fyrir utan Washington. „Við trúum á frið í krafti styrks og við munum njóta hans.“

Ræða forsetans var flutt í sama stíl og ræður hans í kosningabaráttunni. Fundarmenn fögnuðu henni innilega og hrópuðu oft „USA,USA“ og einnig „Lokið hana inni“ þegar forsetinn nefndi demókratann Hillary Clinton sem keppti við hann um forsetaembættið á árinu 2016.

Trump sagði að hann mundi fara fram á „stóraukna fjárveitingu“ til að efla Bandaríkjaher og hann mundi gefa fyrirmæli um að herinn herti baráttu sína gegn Daesh (Ríki íslams).

„Enginn mun abbast upp á okkur. Þetta verður ein mesta styrking hersins í sögu Bandaríkjanna,“ sagði hann. Þetta væri „hluti heitstrengingar minnar um að endurstyrkja öryggi bandarísku þjóðarinnar“ og hann hefði gefið bandarískum öryggisstofnunum fyrirmæli um að „má með öllu Ríki íslams af yfirborði jarðar“.

Hann sagði að með því að þrengja leiðir manna til að koma til Bandaríkjanna yrði erfiðara fyrir hryðjuverkamenn að laumast til landsins:

„Hvað sem tautar og raular munum við halda öfgafullum íslamiskum hryðjuverkamönnum frá landi okkar. Erlendir hryðjuverkamenn geta ekki gert árás í Bandaríkjunum ef þeir komast ekki inn í land okkar.“

Hann gaf til kynn að brátt kæmi til „nýrra aðgerða“ í samræmi aðra útgáfu á fyrirmælum sínum um að takmarka komu fólks frá nokkrum ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta. Alríkisdómstóll ógilti fyrri útgáfu fyrirmælanna.

Trump ítrekaði að hann mundi reisa „stóran, stóran“ múr á landamærum Mexíkó og „brátt“ hæfust framkvæmdir við hann. „Við munum brátt reisa múrinn, fyrr en ætlað var. Langtum, langtum, langtum fyrr en ætlað var.“

Í upphafi ræðu sinnar notaði Trump nokkrar mínútur til að fara enn á ný hörðum orðum um bandaríska fjölmiðla og endurtók að blaðamenn væru „óheiðarlegir“ og „óvinir fólksins“. Hann skýrði þessi orð sín frekar á þann veg að með þeim vísaði hann til „fjölmiðla falsfrétta“ en ekki til allra fjölmiðla. Hann sagði:

„Engum er fyrsti viðaukinn [trúar- og málfrelsisákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar] jafn kær og mér. Hann veitir mér rétt til að gagnrýna falsfréttir.“

Trump tíundaði CBS, ABC, NBC og CNN sem hann kallaði Clinton News Network þegar hann gerði atlögu að fjölmiðlum.

Heimild: RFE/Rl

 

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …