Home / Fréttir / Trump segir Þjóðverja of háða gasi frá Rússlandi

Trump segir Þjóðverja of háða gasi frá Rússlandi

 

Jens Stoltenberg og Donald Trump við bandaríska sendiráðið í Brussel.
Jens Stoltenberg og Donald Trump við bandaríska sendiráðið í Brussel.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sparaði ekki stóru orðin í garð Þýskalands á morgunverðarfundi í bandaríska sendiráðinu í Brussel miðvikudaginn 11. júlí. Sagði hann að vegna kaupa á gasi frá Rússlandi væru Þjóðverjar „algjörlega háðir Rússum“.

Orðin féllu í samtali við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, þegar þeir hittust í sendiherrabústaðnum fyrir ríkisoddvitafund NATO sem hófst miðvikudaginn 11. júlí í nýjum höfuðstöðvum NATO.

Morgunverðarfundur Stoltenbergs og Trumps.
Morgunverðarfundur Stoltenbergs og Trumps.

Angela Merkel Þýsklandskanslari hafnaði orðum Trumps og sagði að hún fylgdi sjálfstæðri stefnu og tæki ákvarðanir án íhlutunar annarra.

Skömmu eftir hádegi að ísl. tíma er gert ráð fyrir að Merkel og Trump hittist á einkafundi. Þá ætlar Trump einnig að hitta Emmanuel Macron Frakklandsforseta á einkafundi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trump lýsir óánægju sinni yfir að þýska ríkisstjórnin vilji kaupa meira gas af Rússum um væntanlega Nord Stream II leiðslu á botni Eystrasalts frá Rússlandi til Þýskalands. Honum þykir nóg um að Bandaríkjamenn verji Þýskaland á sama tíma og samið sé um aukinn innflutning á gasi frá Rússlandi til Þýskalands sem verði þá „fangi“ Rússa. Ríkisstjórn sín sætti sig ekki við það. Mikið jarðgas er framleitt í Bandaríkjunum og vilja bandarísk fyrirtæki ná fótfestu í Evrópu.

Merkel sagði að hún hefði sjálf kynnst því í æsku hvernig hefði verið að alast upp í þeim hluta Þýskalands sem laut stjórn Sovétríkjanna og frelsið sem Þjóðverjar nytu nú væri gleðiefni miðað því stjórnarhætti þess tíma í Austur-Þýskalandi.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …