Home / Fréttir / Trump segir skilið við Íranssamninginn – aðrir vilja virða samninginn

Trump segir skilið við Íranssamninginn – aðrir vilja virða samninginn

Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnir ákvörðun sína um Íranssamninginn.
Donald Trump Bandaríkjaforseti kynnir ákvörðun sína um Íranssamninginn.

 

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti þriðjudaginn 8. maí að Bandaríkin ættu ekki lengur aðild að kjarnorkusamningi vegna Írans. Auk Bandaríkjanna og Írans eiga Þýskaland, Frakkland, Bretland, ESB, Rússland og Kína aðild að samningnum.

Leiðtogar annarra ríkja en Bandaríkjanna segjast ætla að halda samningnum í gildi. Þeir óttast að ákvörðun Trumps kunni að skapa vandræði í pólitískum samskiptum og viðskiptum við Írana.

Samningurinn heitir á ensku Joint Comprehensive Plan of Action (JCPOA). Hann var gerður árið 2015 eftir margra ára viðræður.

Utanríkisráðherra Frakka tilkynnti miðvikudaginn 9. maí að fulltrúar Frakklands, Þýskalands og Bretlands mundu hitta fulltrúa Íransstjórnar mánudaginn 14. maí.

Evrópa

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði Þjóðverja, Frakka og Breta tala einni röddu um Íransamninginn. „Samningurinn virkar. Við viljum ekki afnema reglurnar um eftirlit og gagnsæi,“ sagði ráðherrann og lýsti ákvörðun Trumps sem „óskiljanlegri“, hún hefði vegið að stöðugleika í Mið-Austurlöndum. Fylgst yrði náið með hugsanlegum áhrifum ákvörðunarinnar á þýsk fyrirtæki. Stjórnendur þeirra óttast áhrif þess á viðskipti sín við Íran ef Bandaríkjastjórn tekur upp viðskiptaþvinganir að nýju.

Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, sagði á þingfundi miðvikudaginn 9. maí að bresk stjórnvöld hefðu lagt sig fram um að koma í veg fyrir að Trump segði skilið við samninginn. Bretar mundu standa að samningnum svo lengi sem Íranar stæðu við ákvæði hans. Bretar mundu hins vegar aldrei sætta sig við kjarnorkuvopn í höndum Íransstjórnar.

Rússar lýstu „djúpum vonbrigðum“ vegna ákvörðunar Trumps.

Íranskir þingmenn brenna bandaríska fánann.
Íranskir þingmenn brenna bandaríska fánann.

Íran

Ayatollah Ali Khamenei, æðsti stjórnandi Írans, gagnrýndi ákvörðun Trumps. „Maður er algjörlega ráðalaus!“ sagði hann þegar hann hitti kennara í Teheran miðvikudaginn 9. maí. Á opinberri vefsíðu sinni lýsti Khamenei, æðsti maður Írana í trúmálum og stjórnmálum, tilkynningu Trumps sem „heimskulegri og yfirborðslegri“.

Hassan Rouhani, forseti Írans, sagði Írana ætla að halda sig við samninginn en hann fann að Trump fyrir ákvörðun hans. „Með því að segja skilið við samninginn hafa Bandaríkjamenn opinberlega vegið að eigin skuldbindingu vegna alþjóðasamnings,“ sagði Íransforseti. Hann sagðist vilja ræða við fulltrúa ríkjanna fimm sem ættu enn aðild að samningnum en tók jafnframt fram að Íranar mundu taka til við að auðga úran af meiri krafti en áður hvenær sem þeir teldu þess þörf.

Ali Larijani, forseti íranska þingsins, sagði að Bandaríkjaforseti hefði ekki vitsmuni til að takast á við vandamál. Á þingfundi miðvikudaginn 9. maí kveiktu íranskir þingmenn í bandaríska fánanum og hrópuðu: „Drepum Bandaríkin“.

Mið-Austurlönd

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði að Donald Trump hefði stigið „sögulegt skref“. Forsætisráðherrann sagði Íranssamninginn ekki annað en forskrift að hörmungum fyrir Ísrael og fyrir frið í heiminum.

Fulltrúar Sádi-Arabíu og Sameinuðu furstasdæmanna, bandamenn Bandaríkjanna, fögnuðu tilkynningu Trumps.

„Eftir að refsiaðgerðum gegn Írönum var hætt nýttu þeir sér hagræðið af því til að auka enn á óstöðugleika á svæðinu, einkum með því að þróa langdrægar flaugar og styðja hryðjuverkasamtök,“ sagði í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Sádi-Arabíu.

Bandaríkin

Barack Obama, forveri Trumps á forsetastóli, lætur almennt hjá líða að segja álit sitt á málefnum líðandi stundar. Hann rauf hins vegar þögn sína á Facebook og sagði ákvörðun Trumps „misráðna“. Obamba skrifaði undir Íranssamninginn árið 2015 og sagði nú:

„Veruleikinn er skýr. JCPOA virkar – það er samdóma álit evrópskra bandamanna okkar, sjálfstæðra sérfræðinga og núv. varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. JCPOA tekur mið af bandarískum hagsmunum – það hefur verið umtalsvert snúið ofan af kjarnorkuáætlun Írans.

Stefnur og forgangsmál breytast alltaf frá einni ríkisstjórn til annarrar í lýðræðislöndum. Markvisst brotthlaup frá samningum sem gerðir hafa verið í nafni lands okkar ýtir hins vegar undir hættu á að grafið sé undan trúverðugleika Bandaríkjanna og skapar okkur sérstöðu meðal helstu ríkja heims.“

Leiðtogar flokkanna á Bandaríkjaþingi lýstu gjörólíkri afstöðu til ákvörðunar Trumps.

Repúblíkaninn Mitch McConnell, forystumaður meirihlutans í öldungadeildinni, sagði að Íranssamningurinn hefði verið „illilega gallaður“ og hann væri sammála Trump um að Íranir ættu „aldrei að geta eignast eða þróað kjarnorkuvopn“.

Demókratinn Chuck Schumer, leiðtogi minnihlutans í öldungadeildinni, sagði hins vegar að svo virtist með Trump-stjórnin hefði enga hugmynd um næstu skref.

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …