
Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði Norður-Kóreumönnum enn á ný föstudaginn 11. ágúst þegar hann sagði hernaðarlegar lausnir gagnvart þeim „læstar og hlaðnar“. Ráðamenn í Pjongjang, höfuðborg N-Kóreu, saka forsetann um að ýta Kóreuskaga á barm kjarnorkuátaka. Leiðtogar annarra landa lýsa áhyggjum vegna ástandsins.
Í frétt Reuters-fréttastofunnar föstudaginn 11. ágúst segir að Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn standi við áætlun sína um sameiginlegar heræfingar eftir 10 daga. Telur Reuters að þetta verði enn til að espa N-Kóreumenn. Ráðamenn Rússa, Kínverja og Þjóðverja láta í ljós vanþóknun sína á harðnandi orðaskiptum milli manna í Pjongjang og Washington.
Trump dvelst nú í golfklúbbi sínum í Bedminster í New Jersey-ríki á meðan unnið er að viðhaldi á íbúð hans í Hvíta húsinu í Washington. Er forsetinn sagður í „vinnu-sumarleyfi“. Harðorðar yfirlýsingar hans í garð Norður-Kóreumanna gefur hann í golfklúbbhúsinu.
Trump skrifaði á Twitter 11. ágúst: „Hernaðarlegar lausnir hafa nú verið fullmótaðar, læstar og hlaðnar, grípi Norður-Kóreumenn til óviturlegra aðgerða. Vonandi finnur Kim jong-un aðra leið!“
Með orðunum „læstar og hlaðnar (e. locked and loaded) vísar Trump til kvikmyndar með John Wayne frá 1949 Sands of Iwo Jima, þau lýsa því sem gert er áður en hleypt er af byssu.
Orðin notaði Trump á Twitter skömmu eftir að ríkisfréttastofa N-Kóreu, KCNA, sakaði hann um að ýta undir spennu. „Trump er að ýta ástandinu á Kóreuskaga að barmi kjarnorkustríðs með upphrópunum eins og ‘Bandaríkjamenn útiloka ekki stríð gegn DPRK (N-Kóreu)’,“ sagði KCNA.
Í Moskvu hvatti Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ráðamenn í Pjongjang og Washington til að fallast á sameiginlega áætlun Rússa og Kínverja, sem ekki hefur verið sagt frá áður, um að N-Kóreumenn frysti kjarnorkuvopnaáætlun sína og tilraunir og Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn falli frá áformum um víðtækar heræfingar. Hvorki Bandaríkjamenn né N-Kóreumenn hafa fallist á áætlunina.
Lavrov sagði hættuna á hernaðarátökum vegna kjarnorkuáætlunar Norður-Kóreumanna mjög mikla og í Moskvu hefðu menn miklar áhyggjur af hótunum frá Washington og Pjongjang.
Norður-Kóreumenn gerðu tvær tilraunir með kjarnorkusprengjur í fyrra og í ár hafa þeir gert tvær tilraunir með langdrægar eldflaugar sem ná til borga í Bandaríkjunum. Trump segir að hann leyfi ekki að N-Kóreustjórn þrói kjarnorkuvopn sem nota megi til árása á Bandaríkin.
KCNA sagði fimmtudaginn 10. ágúst að her Norður-Kóreu mundi um miðjan ágúst hafa lokið gerð áætlana um að skjóta fjórum meðaldrægum eldflaugum yfir Japan með það fyrir augum að þær lentu í hafinu 30 til 40 km frá eyjunni Guam. Kyrrahafseyjan Guam lýtur stjórn Bandaríkjamanna sem reka þar herflugstöð, flotastöð, aðstöðu fyrir strandgæslu sína og halda úti um 6.000 manna herliði.
Orðin sem Trump lét falla föstudaginn 11. ágúst ber að skoða í framhaldi af því sem hann sagði þriðjudaginn 8. ágúst um að Bandaríkjamenn mundu láta „eldi og brennisteini“ rigna yfir Pjongjang ef N-Kóreumenn hótuðu Bandaríkjamönnum og í ljósi ummæla hans fimmtudaginn 10. ágúst um alvarlegar afleiðingar þess ef N-Kóreumenn framkvæmdu áætlanir sínar gagnvart Guam.
Reuters segir að Suður-Kóreumenn kaupi nú meira af tilbúnum matarréttum en áður til að eiga í neyðartilvikum. Mikil almannavarnaæfing er fyrirhuguð í S-Kóreu 23. ágúst.
Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði föstudaginn 11. ágúst í Berlín að ekki væri unnt að leysa deilu Bandaríkjamanna og N-Kóreumanna með vopnum og ekki væri skynsamlegt að halda áfram sífellt harðari orðaskiptum. Vildi hún að unnið yrði að lausn málsins á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og með náinni samvinnu ríkja sem málið varðaði beint, einkum Bandaríkjamanna og Kínverja.
Fréttastofan Associated Press sagði frá því að þrátt fyrir hörð orðaskipti á opinberum vettvangi hefði fulltrúi ríkisstjórnar Trumps um nokkurra mánaða skeið átt í leynilegum viðræðum við fulltrúa N-Kóreustjórnar. Þær hefðu meðal annars snúist um örlög Bandaríkjamanna sem væru fangar N-Kóreumanna og um vaxandi spennu á Kóreuskaga.
Segir fréttastofan að Joseph Yun, sendimaður Bandaríkjastjórnar gagnvart N-Kóreu, og Pak song-il, háttsettur embættismaður N-Kóreu gagnvart Sameinuðu þjóðunum, leiði viðræðurnar.