Home / Fréttir / Trump segir Bandaríkin ekki sparibauk fyrir þjófa – hann átti sig á Kim á fimm sekúndum

Trump segir Bandaríkin ekki sparibauk fyrir þjófa – hann átti sig á Kim á fimm sekúndum

 

Donald Trump ræðir við frettamenn á leið af G7-fundinum.
Donald Trump ræðir við frettamenn á leið af G7-fundinum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði laugardaginn 9. júní að hann hefði nefnt þá djörfu hugmynd við nánustu bandamenn Bandaríkjanna að afnema með öllu tolla á vörur og þjónustu. Í sömu andrá hótaði hann að hætta öllum viðskiptum við þá ef þeir hættu ekki að stunda það sem hann taldi ósanngjarna viðskiptahætti.

Forsetinn lét þessi orð falla í sama mund og hann yfirgaf G7-fundinn sem haldinn var rétt fyrir utan Quebec-borg í Kanada. Litið er á G7-ríkin sem helstu iðnríki heims (þau eru Bretland, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan, Kanada og Bandaríkin). Þau hafa efnt til funda síðan árið 1997.

Trump sagði að það væri „lokamálið“ að fjarlægja allar viðskiptahindranir. Hann gagnrýndi hins vegar harðlega það sem hann sagði að væru „fáránleg og óviðundandi“ gjöld á bandarískan varning og hét því að útrýma þeim.

„Þessu verður að ljúka. Eða við hættum viðskiptum við þá. Og það er mjög arðbært svar ef við verðum að gera það,“ sagði Trump og bætti við: „Við erum eins og sparibaukur og allir stela úr honum og þessu lýkur.“

Trump hélt blaðamannafundinn á leið til flugvélar sinnar sem flytur hann til Singapúr þar sem hann hittir Kim Jong-un einræðisherra í Norður-Kóreu þriðjudaginn 12. júní. Trump sagði að hann mundi átta sig á því á fyrstu mínútunni sem hann hitti Kim hvort hann ætlaði í alvöru að kjarnorkuafvopnast og leggja sig fram um frið í heiminum.

„Aðeins næmi mitt, tilfinning mín. Það dugar mér,“ sagði Trump. „Maður áttar sig á því eftir hvernig þeir tala hvort manni líkar við einhvern, á fyrstu fimm sekúndunum. Hafið þið ekki heyrt þetta? Jú, ég held að mjög fljótt átti ég mig á því hvort eitthvað gott eigi eftir að gerast.“

Í tengslum við G7-fundinn hitti Trump leiðtoga einstakra landa á einkafundum föstudaginn 8. júní og segja fréttamenn að þar hafi ekki verið talað neitt rósamál. Á blaðamannafundinum laugardaginn 9. júní fullyrti Trump hvað eftir annað að einkafundir sínir hefðu verið jákvæðir. Hann sagðist líta þannig á að tengsl sín við leiðtogana væru góð, ef hann notaði kvarða frá núll til 10 teldi hann að þau mældust öll 10.

Á leið sinni til fundarins í Kanada sagði Trump að sér þætti skynsamlegt að bjóða Rússum aftur í G-hópinn. Þeir voru reknir á dyr fyrir fjórum árum eftir að þeir innlimuðu Krímskaga í trássi við alþjóðalög.

Frá var skýrt að Giuseppe Conte, nýbakaður forsætisráðherra Ítalíu, hefði gefið til kynna að hann styddi þessa hugmynd Trumps en síðan snúist gegn henni eins og önnur ríki í hópnum fyrir utan Trump. Angela Merkel Þýskalandskanslari er sögð eindregið á móti því að Rússum sé boðið í hópinn að nýju.

Trump skammaði forvera sinn Barack Obama fyrir að láta Rússa komast upp með að taka Krímskaga.

„Krímskagi var látinn af hendi í stjórnartíð Obama, og Obama má segja allt sem hann vill en hann leyfði Rússum að taka Krím,“ sagði Trump. „Afstaða mín hefði ef til vill verið önnur en þið verðið þess vegna spyrja Obama um þetta. Hvers vegna gerði hann þetta?“

Það var Obama sem beitti sér fyrir því árið 2014 að Rússar voru reknir úr G-hópnum. Var það gert með svonefndri Haag-yfirlýsingu.

Á blaðamannafundinum skeytti Trump skapi sínu á fjölmiðlum. Þegar fréttamaður CNN-sjónvarpsstöðvarinnar spurði forsetann um samband hans við erlendu leiðtogana, lét forsetinn hjá líða að svara.

„Gat svo sem verið. Falsfréttir CNN. Verstir allra,“ sagði Trump. „Samband mitt hefur verið fínt. Þú getur þá sagt fals-vinum þínum á CNN það.“

 

Heimild: The New York Times.

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …