Home / Fréttir / Trump segir að Pútín harðneiti að hafa blandað sér í bandaríska kosningabaráttu

Trump segir að Pútín harðneiti að hafa blandað sér í bandaríska kosningabaráttu

Doanld Trump og Vladimir Pútin á leiðtogafundi APEC-ríkjanna í Víetnam.
Doanld Trump og Vladimir Pútin á leiðtogafundi APEC-ríkjanna í Víetnam.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði laugardaginn 11. nóvember að sér þætti Vladimír Pútín Rússlandsforseti einlægur þegar hann neitaði hvað eftir annað að hafa skipt sér af bandarísku forsetakosningunum árið 2016. Þá sagði hann að rannsóknir á afskiptum stjórnvalda í Moskvu af kosningunum væru dæmi um pólitíska aðför sem hindraði samvinnu við Rússa um mál sem snertu líf eða dauða.

Forsetinn sagði þetta eftir einkafund sinn með Pútín til hliðar við leiðtogafund APEC-ríkjanna, aðildarríkja Samstarfsvettvangs Asíu- og Kyrrahafsríkja um efnahagsmál í Danang í Víetnam. Trump sagði að stöðugar fullyrðingar um afskipti Rússa af kosningabaráttunni væru móðgandi fyrir Pútín. Tímabært væri að kasta þessu aftur fyrir sig til að Bandaríkjamenn og Rússar gætu sameinast í aðgerðum gegn kjarnorkuógninni frá Norður-Kóreumönnum, bundið enda á borgarastríðið í Sýrlandi og unnið saman að lausn mála í Úkraínu.

„Hann sagðist ekki hafa blandað sér í málið – ég spurði hann aftur,“ sagði Trump við blaðamenn sem flugu með honum í forsetavélinni, Air Force One. „Það er ekki unnt að spyrja endalaust. Ég spurði hann samt enn á ný. Hann sagðist alls ekki hafa blandað sér í kosningar okkar. Hann vissi ekki hvað þeir segðu hann hafa gert.

Í hvert sinn sem ég hitti hann segir hann: „Ég gerði þetta ekki“ og ég trúi því alveg að hann meini þetta þegar hann segir mér það. Hann segir: „Ég gerði þetta ekki“. Ég held að hann sé mjög móðgaður vegna þessa sem er ekki gott fyrir land okkar.“

Í frásögn The New York Times (NYT) segir að Trump hafi ekki svarað beinni spurningu um hvort hann tryði neitunum Pútíns sem stangast á því mat bandarískra njósnastofnana þess efnis að Rússlandsforseti hafi stjórnað flókinni aðgerð til afskipta af kosningunum.

Trump sagði hins vegar að sífelldar spurningar um hvort starfsmenn kosningaskrifstofu hans hefðu starfað með mönnum á vegum Rússa til að hafa áhrif á kosningaúrslitin spilltu samskiptum Bandaríkjastjórnar við Rússa á sviði margra mikilvægra öryggismála.

„Það er mikils virði að vera í góðum samskiptum við Rússa,“ sagði Trump. „Þessi gervi-aðför demókrata truflar þau, það er synd því fólk mun týna lífi.“

Fundi APEC-leiðtoganna var lokið þegar Trump lýsti samtali sínu við Pútín. Það var óformlegt því að þeir efndu ekki til neins formlegs samtals sín á milli í tengslum við þennan fund.

NYT segir að fámennur hópur fréttamanna sem ferðist með Trump hafi ekki fengið að vita hvað hann gerði laugardaginn 11. nóvember og þess vegna var þeim ekki ljóst að Trump og Pútín hefðu átt orðaskipti.

Fréttin um samtal forsetanna kom frá Kreml í Moskvu og þar sagði að þeir hefðu hist og náð samkomulagi um Sýrland. Síðar sagði Trump að hann hefði átt tvö stutt samtöl við Pútín, einkum um Sýrland.

Síðar sendu stjórnir Bandaríkjanna og Rússlands frá sér sameiginlega yfirlýsingu um Sýrland þar sem áréttuð er fyrri afstaða um að vinna beri sigur á Daesh (Ríki íslams) og komast hjá árekstrum milli herja landanna á vígvellinum í Sýrlandi.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …