Home / Fréttir / Trump segir að leysa verði Palestínu-deiluna til að mynda bandalag gegn Írönum

Trump segir að leysa verði Palestínu-deiluna til að mynda bandalag gegn Írönum

 

Donald Trump flytur ávarp á Ben Gurion-flugvelli
Donald Trump flytur ávarp á Ben Gurion-flugvelli

 

Donald Trump Bandaríkjaforseti kom í tveggja daga heimsókn til Írsaels mánudaginn 22. Hann lagði við komuna spilin skýrt á borðið fyrir Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels: Vilji Ísraelar í raun frið við nágranna sína í arabaríkjunum verða þeir að binda enda á áratuga langa deilu sína við Palestínumenn.

Í The New York Times (NYT) segir að Netanyahu hafi árum saman reynt að stilla saman strengi með súnni-aröbum til að safna liði gegn shjítum undir forystu Írana. Jafnframt hafi hann litið á Palestínu-deiluna sem hliðarmál. Trump kom frá Sádi-Arabíu til Jerúsalem, beint af fundi með arabaleiðtogum sem telja réttilega að mati Trumps að samkomulag um Palestínu sé liður í nýrri samstöðu ríkja á svæðinu.

„Um þetta er mikil samstaða meðal þjóða heims – þar á meðal margra í múslimalöndum,“ sagði Trump eftir fund með Reuven Rivlin, forseta Ísraels. „Það varð mér mikil hvatning að ræða við leiðtoga múslima-landa í Sádi-Arabíu, þar á meðal Salman konung í löngum samtölum. Salman konungur ber þetta mjög fyrir brjósti og ég get sagt ykkur að honum yrði kært að sjá frið milli Ísraela og Palestínumanna.“

NYT segir að Trump hafi bætt þessari setningu við textann sem hafði verið saminn fyrir hann en með henni hafi hann í raun tengt saman samstöðu ríkja gegn Íran og Palestínu-deiluna þótt Netanyahu hafi lengi reynt að skilja á milli þessara viðfangsefna.

„Nágrannar ykkar í arabaríkjunum átta sig sífellt betur á því að þeir eiga samleið

með ykkur vegna ógnarinnar miklu sem stafar af Írönum, enginn deilir um að þessi ógn sé raunverulega fyrir hendi,“ sagði Trump.

NYT segir að boðskapur Trumps veki meiri athygli en ella fyrir þá sök að ríkisstjórn Netanyahus er ekkert um meiriháttar breytingar í samskiptunum við Palestínumenn, einkum ef um verði að ræða tvö ríki, eitt fyrir Ísraela og annað fyrir Palestínumenn.

Isaac Herzog, formaður Verkamannaflokksins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sem ræddi við Trump þegar hann heilsaði honum í móttökuröðinni á flugvellinum sagði að hann hefði fundið hve ofarlega Palestínu-málið væri í huga forsetans og hann tengdi það við Sáda og aðra nágranna Ísraela.

„Það gefast nú þroskuð tækifæri á svæðinu,“ sagði Herzog í samtali við NYT. „Sem leiðtogi stjórnarandstöðunna og friðarhreyfinguna í Ísrael gladdist ég mjög. Það gleður okkur sannarlega að forsetinn sýndi að hann reynir að ryðja brautina.“

Donald Trump við Grátmúrinn.
Donald Trump við Grátmúrinn.

Eftir fundinn með Rivlin fór Trump í Grafarkirkjuna og síðan að Grátmúrnum þar sem Trump setti á sig kollhúfu að hætti gyðinga og skildi eftir miða með bæn í rifu hans. Enginn sitjandi Bandaríkjaforseti hefur áður farið að Grátmúrnum.

Kvöldverð snæddi hann í boði forsætisráðherra Ísraels. Þriðjudaginn 23. maí fer Trump til Betlehem á yfirráðasvæði Palestínumanna og hittir þar Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna. Við svo búið heldur Trump að nýju til Jerúsalem. Hann leggur blómsveig við Yad Vashem, minningarreit um þá sem týndu lífi í útrýmingarbúðum nazista, og flytur ræðu Ísrael-safninu.

Talið er flugvélin sem flutti Trump frá Sádi-Arabíu til Ísraels hafi verið fyrsta vélin í sögunni sem fór þessa leið. Ekki er stjórnmálasamband milli ríkjanna.

Trump flutti ræðu við móttökuathöfnina á Ben-Gurion alþjóðaflugvellinum utan við Tel Aviv og sagði að nú gæfist sjaldgæft tækifæri til að færa öryggi, stöðugleika og frið til íbúa á svæðinu, sigrast á hryðjuverkamönnum og skapa frið og velmegun. Það yrði aðeins gert með samvinnu, annað skilaði ekki árangri.

Á blaðamannafundi við hliðina á Netanyahu var Trump spurður um fund sinn með Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, þar sem sagt er að hann hafi lekið trúnaðarupplýsingum frá Ísraelum. Trump sagðist aldrei hafa nefnt Ísrael eða Ísraela á fundinum.

Hann ávítaði síðan fjölmiðla fyrir að hafa gefið annað til kynna enda þótt ekki liggi fyrir að nokkur fjölmiðill hafi haldið þessu fram. Eftir að frásagnir birtust um það sem gerðist á Rússa-fundinum í Hvíta húsinu sögðu ónafngreindir embættismenn að trúnaðarupplýsingarnar sem forsetinn nefndi á fundinum hefðu komið frá Ísraelum.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …