Home / Fréttir / Trump: Samskiptin við Rússa verri nú en í kalda stríðinu

Trump: Samskiptin við Rússa verri nú en í kalda stríðinu

Vladimír Pútín og Donald Trump í Víetnam í nóvember 2017.
Vladimír Pútín og Donald Trump í Vítenam í nóvember 2017.

Samskipti Bandaríkjamanna og Rússa hafa aldrei verið verri og er þá einnig litið til kalda stríðsins. Þetta segir Donald Trump Bandaríkjaforseti á Twitter miðvikudaginn 11. apríl. Í færslu sinni hvetur hann til úrbóta:

„Það er engin ástæða fyrir þessu. Rússar þurfa á hjálp okkar að halda í efnahagsmálum sem auðvelt væri að veita og við verðum að hvetja til samvinnu allra þjóða. Stöðvum vígbúnaðarkapphlaupið?“ segir forsetinn.

Þessi orð féllu rúmum hálftíma eftir að forsetinn sendi frá sér aðra athyglisverða færslu þar sem hann varaði við eldflaugaárás Bandaríkjamanna á Sýrland.

„Rússar hóta að skjóta niður hverja einustu eldflaug sem skotið verður á Sýrland. Gerið ykkur klára, Rússar, því að þær munu koma, góðar, nýjar og „snjallar“! Þið ættuð ekki að starfa með skepnu sem drepur eigin þjóð með gasi og nýtur þess!“

Þessi stórorðahríð forsetans á Twitter hófst eftir að rússneski sendiherrann í Líbanon sagði í samtali að kvöldi þriðjudags 10. apríl að Rússar myndu skjóta niður bandarískar eldflaugar yrðu þær sendar gegn stjórn Assads Sýrlandsforseta. Þá mundu Rússar einnig ráðast á skotpallana undir árárásarflaugunum.

Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, var meðal fyrstu rússneskra diplómata til að bregðast við síðustu færslum Trumps. Hún segir á Facebook „snjallar flaugar á að senda gegn hryðjuverkamönnum – ekki gegn lögmætri ríkisstjórn sem barist hefur gegn alþjóðlegum hryðjuverkamönnum á landi sínu í nokkur ár.“

Dmitríj Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, sagði fyrr miðvikudaginn 11. apríl að hann vonaði að allar þjóðir forðuðust aðgerðir sem væru „annars vegar algjörlega óréttmætar og hins vegar spilltu fyrir ástandi sem væri þegar mjög slæmt“.

Allt fór á verri veg í Sýrlandi um helgina eftir að loftárárásir voru gerðar á bæinn Douma skammt frá Damaskus og í það minnsta 60 manns féllu. Bærinn laut stjórn hryðjuverkamanna.

Stjórnvöld Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands segja að um efnavopnaárás hafi verið að ræða. Rússar segjast hafa farið á svæðið og ekki séð nein merki um efnavopn. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO telur líklegt að um 500 manns hafi orðið fyrir heilsutjóni vegna eiturefna.

Donald Trump hefur ásamt Theresu May, forsætisráðherra Breta, og Emmanuel Macron, forseta Frakklands, tekið af skarið um að stöðva verði beitingu efnavopna. Þess vegna ræða forystumennirnir „öflug viðbrögð“ við árásinni um helgina en Rússar vilja að málið sé rannsakað.

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …