Home / Fréttir / Trump sakaður um að svipta menn öryggisvottun í pólítískum tilgangi

Trump sakaður um að svipta menn öryggisvottun í pólítískum tilgangi

Donald Trump ræðir við fráttamenn við Hvíta húsið föstudaginn 17. ágúst.
Donald Trump ræðir við fráttamenn við Hvíta húsið föstudaginn 17. ágúst.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði föstudaginn 17. ágúst að hann ætli „mjög fljótlega“ að svipta Bruce Ohr, embættismann dómsmálaráðuneytisims, öryggisvottun hans. Trump segir að Ohr sé „til skammar“ en hann tengist rannsókn Roberts Muellers, sérstaks saksóknara, á afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum árið 2016.

Trump hefur oftar en einu sinni beint spjótum sínum að Ohr og sagt hann heimildarmann Muellers og rannsakenda hans. Ohr tengist málinu á þann hátt að hann var á fyrstu stigum árið 2016 í sambandi við Christopher Steele, fyrrverandi starfsmann bresku leyniþjónustunnar, sem rannsakaði tengsl Trumps við Rússa.

„Ég tel að Bruce Ohr og kona hans Nellie séu til skammar,“ sagði Trump við fréttamenn fyrir utan Hvíta húsið. „Að hann sé í dómsmálaráðuneytinu og hafi gert það sem hann gerði er til skammar. Það veikir stöðu Muellers. Og Mueller á einnig víða í útistöðum.“

Ohr er fastráðinn starfsmaður dómsmálaráðuneytisins og hefur unnið að því að uppræta fíkniefni og glæpahópa. Vegna ásakana þeirra sem telja að samsæri hafi verið gert gegn Trump í dómsmálaráðuneytinu hefur forsetinn beint spjótum sínum að Ohr og konu hans sem starfaði einu sinni sem verktaki hjá Fusion GPS sem átti aðild að gagnasöfnun um Trump í kosningabaráttunni árið 2016.

Trump hefur gert samsæriskenninguna að sinni og lýst Ohr og konu hans Nellie sem höfuðpaurunum í „sviksamlegum nornaveiðum“ og sakað þau um óbeint samband við Rússa. Á leið sinni til þyrlu við Hvíta húsið 17. ágúst sagði Trump. „Þeir ættu að kanna Bruce Ohr og konu hans Nellie fyrir að hafa samband, óbeint, við Rússa.“

Rod J. Rosenstein, vara-dómsmálaráðherra, vill ekki segja nákvæmlega hvert starf Ohr er um þessar mundir en hann segir að Ohr sé á engan hátt tengdur rannsókn Muellers sem hófst árið 2017. Rosenstein fól Mueller á sínum tíma að hefja rannsóknina.

Forsetinn situr undir vaxandi gagnrýni fyrir að nýta sér öryggisvottanir í pólitískum tilgangi.

Fyrr í vikunni svipti Trump einn úr hópi gagnrýnenda sinna, John Brennan, fyrrverandi forstjóra CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, öryggisvottun hans. Á annan tug fyrrverandi yfirmanna bandarískra leyniþjónustustofnana birtu fimmtudaginn 16. ágúst harðort bréf þar sem þeir segja aðförina að Brennan ófyrirleitna tilraun til að „hefta málfrelsi“ og í henni felist „ósæmileg og einstaklega dapurleg“ skilaboð til annarra opinberra starfsmanna. Undir bréfið rita embættismenn sem störfuðu bæði í tíð demókrata og repúblíkana og segja þeir að ákvörðun Trumps sé „illa ígrunduð“.

„Við erum allir sammála um að ákvörðun forsetans varðandi John Brennan og hótanir um frekari ákvarðanir af þessu tagi gegn fyrrverandi embættismönnum snúist ekkert um hver eigi að hafa öryggisvottun eða ekki – þær snúast alfarið um að reyna að hefta málfrelsið,“ segir í bréfinu. Undir það rita meðal annars fyrrverandi forstjórar CIA í tíð Ronalds Reagans, George W. Bush og Bills Clintons.

Robert M. Gates, sem var varnarmálaráðherra í forsetatíð George W. Bush og Baracks Obama og forstjóri CIA í forsetatíð George H.W. Bush skrifar einnig undir bréfið.

Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Trumps, tilkynnti miðvikudaginn 15. ágúst að öryggisvottun Brennans hefði verið afturkölluð. Hún las yfirlýsingu frá Trump þar sem hann sakaði Brennan um að „hafa sett fram ýmsar órökstuddar og forkastanlegar ásakanir – farið óðslega i netheimum og í sjónvarpi – gegn ríkisstjórninni“.

Brennan var forstjóri CIA lengst af síðara kjörtímabili Obama. Hann er harðasti gagnrýnandi Trumps og sagði að líkja mætti framgöngu hans á fundinum með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í júlí við „landráð“. Þriðjudaginn 14. ágúst fór Brennan hörðum orðum um skapgerð Trumps eftir að hann talaði niður til fyrrverandi aðstoðarkonu sinnar í Hvíta húsinu, Omarosu Manigault Newman, og líkti henni við „hund“.

Föstudaginn 17. ágúst sagðist Trump hafa fengið „stórkostleg viðbrögð“ vegna ákvörðunar sinnar gegn Brennan. „Raunar má segja að ég geri honum fært að láta heyra betur til sín,“ sagði Trump. „Margir vita ekki einu sinni hver hann er … ég hef aldrei borið virðingu fyrir honum.“

Í samtölum við ráðgjafa sína hefur Trump sagt að honum sé kappsmál að svipta fleiri öryggisvottun til að herða sókn sína gegn þeim sem hafa gagnrýnt hann eða komið við sögu rannsóknarinnar á afskiptum Rússa af forsetakosningabaráttunni 2016.

 

Heimild: Washington Post, New York Time

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …