Home / Fréttir / Trump sagður gantast með að hann og Tillerson fari í gáfnapróf

Trump sagður gantast með að hann og Tillerson fari í gáfnapróf

 

Rex Tillerson og Donald Trump.
Rex Tillerson og Donald Trump.

Donald Trump Bandaríkjaforseti lagði til að hann og Rex Tillerson, utanríkisráðherra hans, tækju „gáfnapróf“ eftir að fréttir bárust um að ráðherrann hefði kallað forsetann „hálfvita“ og gert lítið úr þekkingu hans á utanríkismálum.

Í samtali sem birtist við Trump í Forbes-tímaritinu þriðjudaginn 10. október skaut forsetinn á Tillerson vegna ummælanna um „hálfvitann“. Frá þeim var fyrst sagt í NBC News og síðan voru þau staðfest af öðrum fjölmiðlum, þar á meðal The Washington Post (WP).

„Ég tel að þetta sé falsfrétt,“ sagði Trump, „en hafi hann gert þetta held ég að við verðum að taka gáfnapróf. Og ég skal segja þér hvor vinnur.“

Trump snæddi hádegisverð þriðjudaginn 10. október með Tillerson og Jim Mattis varnarmálaráðherra í einka-borðstofu forsetans í Hvíta húsinu. Skömmu áður en þeir hittust spurði blaðamaður Trump hvort hann hefði veist að Tillerson með orðum sínum í Forbes.

„Nei, ég veittist ekki að neinum. Ég legg ekki í vana mig að veitast að fólki,“ sagði Trump á fundi með blaðmönnum í skrifstofu sinni þar sem hann sat við hliðina á Henry Kissinger, fyrrv. utanríkisráðherra, sem kom til fundar við forsetann til að ræða utanríkismál.

Þegar Trump var spurður hvort hann bæri traust til Tillersons sem utanríkisráðherra svaraði hann „Já.“

Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi forsetans, sagði síðar að líta bæri á orð Trumps um „gáfnaprófið“ í Forbes sem „gamanyrði og ekkert meira en það“.

„Forsetinn gaf auðvitað aldrei til kynna að utanríkisráðherrann væri ekki ótrúlega gáfaður,“ sagði Sanders síðdegis þriðjudaginn 10. október á daglegum blaðamannafundi sínum. Hún bætti við að Trump bæri „100% traust“ til Tillersons og lýsti hádegisverði þeirra sem „mjög góðum“ og varaði blaðamennina við að taka orð forsetans of alvarlega. „Þið ættuð kannski, strákar, að rækta með ykkur skopskyn og nota það stöku sinnum,“ sagði Sanders.

Fréttaskýrendur telja ummælin um „gáfnaprófið“ nýjasta dæmið um það sem starfsmenn í Hvíta húsinu hafa lýst sem trúnaðarbresti milli forsetans og utanríkisráðherrans.

Um síðustu helgi spurðu blaðamenn Trump um samband hans við Tillerson. Forsetinn sagði laugardaginn 7. október: „Samskipti okkar eru mjög góð. Við erum ósammála um nokkur mál. Stundum þykir mér að hann mætti sýna aðeins meiri hörku. Að öðru leyti eru samskipti okkar mjög góð.“

Heimild: WP

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …