Home / Fréttir / Trump reitir Kínverja til reiði með yfirlýsingu um stefnubreytingu

Trump reitir Kínverja til reiði með yfirlýsingu um stefnubreytingu

Kínverskir fjölmiðlar taka Trump á beinið.
Kínverskir fjölmiðlar taka Trump á beinið.

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, telur nauðsynlegt að taka upp nýja stefnu gagnvart Kína. Ekki sé unnt að sætta sig við tollastefnu Kína, útþenslu Kínverja á Suður-Kínahafi eða stuðning Kínverja við Norður-Kóreustjórn. Hann dregur í efa réttmæti þess að Bandaríkjastjórn fylgi stefnu frá áttunda áratugnum sem kennd er við „eitt Kína“ en undir hana fellur afstaðan til Tævans.

Trump lét þessi ummæli um endurskoðun afstöðunnar til Kína falla í þættinum Fox News Sunday 11. desember. Þar var hann spurður álits á gagnrýni kínverskra stjórnvalda á hann fyrir að hafa svarað heillaóska-símtali frá forseta Tævans eftir sigur sinn í forsetakosningunum.

„Ég átta mig til fulls á stefnunni sem kennd er við „eitt Kína“ en ég skil ekki hvers vegna við þurfum að fylgja þeirri stefnu án þess að semja við Kínverja um annað, þar á meðal viðskipti,“ sagði Trump í sjónvarpsþættinum.

Símtal Trumps og Tsai Ing-wen Tævanforseta voru fyrstu tengsl verðandi Bandaríkjaforseta við Tævan síðan Jimmy Carter forseti breytti stjórnmálasambandi Bandaríkjamanna við Kínverja á þann veg árið 1979 að framvegis viðurkenndu þeir stjórnina í Peking en ekki í Taipei á Tævan – litið yrði að Tævan sem hluta „eins Kína“.

Ráðamenn í Peking líta á eyjuna Tævan sem hluta af Kína í höndum uppreisnarmanna.

Geng Shuang, talsmaður Kínastjórnar, sagði mánudaginn 12. desember að öllu samstarfi við Bandaríkjastjórn lyki nema hún viðurkenndi hagsmuni Kína varðandi Tævan:

„Ég vil gjarnan árétta að Tævan-málið snertir fullveldi Kína og óskert landsyfirráð og er hluti af miðlægum hagsmunum Kína. Virðing fyrir stefnunni sem kennd er við eitt Kína er grundvöllurinn fyrir þróun tengsla Kína og Bandaríkjanna. Sé hróflað við þessum grundvelli eða unnið tjón á honum er einnig stuðlað að eyðileggingu tengslanna milli Bandaríkjanna og Kína og hvers konar tvíhliða samstarf á mikilvægum sviðum er úr sögunni.“

Yang Jiechi, háttsettur kínverskur stjórnarerindreki, sem er talinn hærra settur en sjálfur utanríkisráðherra Kína, er sagður hafa hitt ráðgjafa Trump á fundi. Óljóst er hvort fundurinn var haldinn áður eða eftir að upphlaupið varð vegna Tævanmálsins.

Eftir að Tævanmálið komst í hámæli hefur Geng Suang lagt áherslu á hve mikilvægt það sé að Bandaríkjastjórn viðurkenni afstöðu Kínastjórnar til Tævans. Hann hefur sagt:

„Afstaðan milli Bandaríkjanna og Kína hefur hnattrænt og strategískt gildi. Hér er ekki aðeins um mál að ræða sem snertir velferð þjóða okkar það snertir einnig frið, stöðugleika, þróun og vöxt í Asíu og á Kyrrahafssvæðinu og raunar í allri veröldinni.“

Eftir að Trump ræddi við Tævanforseta í síma sendi Omaba-stjórnin frá sér tilkynningu um að háttsettir embættismenn Obama hefðu fullvissað kínverska embættismenn um að engin breyting hefði orðið á stefnu Bandaríkjastjórnar um „eitt Kína“.

Af hálfu bandarískra stjórnvalda var einnig varað við að grafa undan góðum samskiptum Bandaríkjanna og Kína með því að „blása upp“ Tævanmálið.

Í samtalinu á Fox-sjónvarpsstöðinni sunnudaginn 11. desember gagnrýndi Trump stefnu Kínverja í gengismálum, umsvif þeirra á Suður-Kínahafi og afstöðu þeirra til Norður-Kóreu. Hann sagði einnig að ráðamenn í Peking ættu ekki að ákveða hvort hann svaraði símtali frá forseta Tævans.

„Ég kæri mig ekki um að Kínverjar segi mér fyrir verkum og hér var um að ræða að ég svaraði símhringingu til mín,“ sagði Trump. „Þetta var ágætt símtal. Stutt. Hvers vegna ætti einhver önnur þjóð að geta sagt að ég megi ekki svara þessu símtali? Sannast sagna finnst mér að í því hefði falist mikil óvirðing hefði ég ekki svarað.“

Chris Wallace hjá Fox News fékk einkaviðtal við Trump laugardaginn 10. desember sem sýnt var í þætti hans sunnudaginn 11. desember og vakti strax heimsathygli vegna þess að Trump hafnaði algjörlega fullyrðingum bandarísku leyniþjónustunnar CIA um að Rússar hefðu gert tölvuárás á demókrata í kosningabaráttunni. Sagði hann setja sitt fólk í æðstu stöður innan CIA og gaf til kynna að eftir það treysti hann betur því sem þaðan kæmi.

Ummælin um Kína féllu í skuggann fyrir því sem Trump sagði um Rússa en athygli beinist nú að þeim. Trump endurtók beint og óbeint ýmislegt sem hann hafði sagt um Kínverja í kosningabaráttunni:

„Við höfum skaðast mikið af gengislækkun Kínverja, af skattheimtu þeirra við eigin landamæri þegar við leggjum engan skatt á þá, af því að þeir koma sér upp miklu virki í miðju Suður-Kínahafi, sem þeir ættu ekki að gera, og hreint út sagt af því að þeir leggja okkur ekki neitt lið gagnvart Norður-Kóreu,“ sagði Trump.

„Sjáðu Norður-Kóreu,“ sagði Trump. „Þar eru kjarnorkuvopn og Kínverjar gætu leyst það vandamál og þeir aðstoða okkur alls ekki á neinn hátt.“

Í The Global Times, málgagni Kínastjórnar, sagði að styddi Trump opinberlega sjálfstæði Tævans eða yki vopnasölu til eyjarinnar gætu Kínverjar svarað með því að aðstoða „öfl óvinveitt Bandaríkjunum“.

Heimidl: dw.de

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …