Donald Trump hefur sagt vinum sínum að hann hafi áhuga á að koma á fót stafrænu fjölmiðlafyrirtæki til að lemja á Fox News og grafa undan sjónvarpsfyrirtækinu sem hallar sér til hægri. Þetta er haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum á vefsíðunni Axios fimmtudaginn 12. nóvember.
Sumir ráðgjafar Trumps telja að Fox News hafi orðið á í messunni með því að ríða á vaðið í Arizona og segja Trump tapa þar fyrir Joe Biden, AP-fréttastofan tók síðan undir þá skoðun. Þetta skapraunaði Trump og veitti honum átyllu til árása á sjónvarpsstöðina.
„Hann ætlar að gera út af við Fox, engin spurning,“ sagði heimildarmaður með nákvæmar upplýsingar um áform Trumps. Þau eru þessi:
Lengi hefur verið talað um að Trump ætli opna kapal-sjónvarp. Það er hins vegar tímafrekt og kostnaðarsamt.
Í þess stað kannar Trump nú kosti þess að koma á stafrænni rás þar sem notað yrði streymi, það kostaði minna og yrði auðveldara í framkvæmd.
Líklega yrði boðin áskrift á efni streymisveitunnar gegn mánaðargjaldi. Gagnagrunnur Trumps með netföngum og farsímaúmerum yrði notaður til að ná til væntanlegra áskrifenda. Litið er á þessa lista sem eina verðmætustu pólitísku eignina í Bandaríkjunum. Einkum símanúmerin til að senda sms-skilaboð.
Axios segir að hugsanlega noti Trump fundi sem hann boðar í því skyni að krefjast endurtalningar til að vega að Fox. Heimildarmaðurinn sagði: „Hann ætlar að verja miklum tíma til að úthúða Fox.“
Trump kvartar undan því æ oftar sé rætt við demókrata á Fox News. Hann gerir lítið úr stöðinni með því að mæla með öðrum hægri miðlum eins og One America News og Newsmax.
„Fox hefur breyst mikið,“ sagði Trump í eina viðtalinu sem hann hefur veitt nýlega en það var í þætti Fox&Friends á kjördag. „Einhver spurði: Hver er mesti munurinn milli kosninganna núna og fyrir fjórum árum? Svar mitt er Fox,“ sagði Trump og bætti við: „Ég kvarta ekki – segi fólki bara frá þessu. Það er einna mesta breytingin núna frá því síðast.“
Heimild: Axios.