Home / Fréttir / Trump óttast ekki niðurstöðu sérstaks saksóknara – segir tafir við rannsóknina spilla orðspori Bandaríkjanna

Trump óttast ekki niðurstöðu sérstaks saksóknara – segir tafir við rannsóknina spilla orðspori Bandaríkjanna

Donald Trump kveður blaðamenn áður en hann leggur af stað til Palm Beach, Flórída.
Donald Trump kveður blaðamenn áður en hann leggur af stað til Palm Beach, Flórída.

Donald Trump Bandaríkjaforseti er sannfærður um að hann muni njóta sanngirni af hálfu Roberts Muellers, sérstaks saksóknara á hugsanlegri íhlutun Rússa í bandarísku kosningabaráttuna árið 2016. Forsetinn segir þetta í óundirbúnu viðtali blaðamanns The New York Times (NYT) sem tekið var í matsal golfklúbbs forsetans á West Palm Beach í Flórída fimmtudaginn 28. desember.

„Ég held að hann verði réttsýnn,“ segir forsetinn um Mueller. Sjálfur hafi hann engu að leyna og ekkert að óttast. Hann hafi ekki gert neitt ólöglegt. Hann harmar hins vegar hve langan tíma rannsóknin hefur tekið og hve mjög hún spilli fyrir Bandaríkjunum út á við. „Hún spillir orðspori landsins, hún spillir mjög orðspori landsins og skapar landinu erfiða stöðu,“ segir Trump við Micahel S. Schmidt blaðamann sem spurði hvort hann mætti taka upp samtal þeirra. Forsetinn veitti heimild til þess en bað um að sér yrði sýnd sanngirni við birtingu textans. Forsetinn hafði borðað hádegisverð í salnum áður en blaðamaðurinn hitti hann, sátu þeir tveir einir að spjalli.

NYT birti kafla úr samtalinu föstudaginn 29. desember. Sum orð forsetans eru ekki greinanleg vegna hávaða í matsalnum.

Forsetinn ítrekar hvað eftir annað að ekkert leynimakk hafi verið milli kosningastjórnar sinnar og Rússa. „Þetta vita allir. Og veistu hverjir vita þetta betur en allir aðrir? Demókratar. Þeir blikka hver annan þegar þeir hittast,“ segir Trump og sakar demókrata um að hafa unnið með Rússum.

Til marks um að ekki séu allir demókratar andstæðingar sínir í Rússamálunum segist forsetinn nýlega hafa horft á Alan Dershowitz lagaprófessor í sjónvarpi. Hann hafi sagt málatilbúnaðinn á hendur sér „út í hött“. Þá segir blaðamaðurinn: „Hann hefur verið mjög góður við þig“ og forsetinn heldur áfram:

„Hann er magnaður. Og hann er einnig vinstrisinnaður demókrati. Ég þekki hann ekki. Hann er vinstrisinnaður demókrati. Ég sá Alan Dershowitz um daginn. Hann sagði nr. 1 það er ekkert leynimakk, nr. 2 leynimakk er ekki afbrot en þó það væri afbrot þá var ekkert leynimakk. Og hann kvað mjög fast að orði. Hann sagði að það væri ekkert leynimakk. Og hann hefur kannað þetta mjög nákvæmlega. Ég hef séð hann nokkrum sinnum. Það er ekkert leynimakk og þótt það væri er það ekki afbrot. En það er ekkert leynimakk. Ég segi jafnvel ekki [heyrist ekki]. Ég geng ekki einu sinni svona langt.“

Þá lýsir forsetinn miklum vonbrigðum yfir framgöngu demókrata á Bandaríkjaþingi. Þeir skorist jafnan undan samstarfi flokkanna þar og sér þyki það miður. Þótt þeir hagi sér þannig láti þeir samt eins og þeir vilji samstarf, að minnsta kosti segi sumir öldungadeildarþingmenn þeirra það en svo heyrist ekkert meira frá þeim. Hann segist samt vona að á næsta ári verði unnt að fá demókrata til samstarfs í heilbrigðismálum, um eflingu innviða og við töku ákvarðana um réttarstöðu barna ólöglegra innflytjenda.

Þegar Trump er spurður um utanríkismál segist hann lengi hafa komið mildilega fram við Kínverja af því að hann þarfnist aðstoðar þeirra gegn Norður-Kóreumönnum. Þrátt fyrir þetta ítrekar hann í samtalinu ásakanir í garð Kínverja fyrir að selja olíu til Norður-Kóreu sem á að lúta hörðustu efnahagsþvingunum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa nokkru sinni beitt. Hann vék að þessu á Twitter síðdegis fimmtudaginn 28. desember og sagði að yrði olíusölunni ekki hætt mundi hann fylgja harðari viðskiptastefnu gegn Kínverjum. „Olía til Norður-Kóreu. Um það hefur aldrei verið samið. Ef þið aðstoðið okkur ekki vegna Norður-Kóreu gríp ég til þess sem ég hef alltaf sagst ætla að gera,“ hótaði forsetinn.

Trump segir í viðtalinu að hann horfi björtum augum til þess að ná endurkjöri árið 2020. Hann fái brautargengi vegna þess að allt sé að nýju á réttri leið í landinu. Þá sé önnur ástæða sem leiði til sigurs hans og endurkjörs til fjögurra ára: „blöð, sjónvarp og önnur fjölmiðlastarfsemi fer á hausinn verði ég ekki til staðar vegna þess að án mín hefur enginn áhuga á að fylgjast með þeim“.

Hann gladdi viðmælanda sinn með þessum orðum: „Án mín væri The New York Times ekki fallandi New York Times heldur fallið New York Times.“

Trump sagði að lokum: „Þeir [fjölmiðlarnir] verða í raun að láta mig vinna. Og fyrr en síðar, líklega svona sex mánuðum fyrir kjördag, munu þeir láta vel að mér og þess vegna segja: Góði, góði Donald Trump ekki tapa. – OK.“

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …