Home / Fréttir / Trump olli uppnámi en lýsti aðdáun á May og Bretum

Trump olli uppnámi en lýsti aðdáun á May og Bretum

Trump-hjónin með Elísabetu II. í Windsor-kastala.
Trump-hjónin með Elísabetu II. í Windsor-kastala.

 

Donald Trump Bandaríkjaforseti kom til Bretlands síðdegis fimmtudaginn 12. júlí og föstudaginn 13. júlí sat hann fund með Thereseu May, forsætisráðherra Bretlands, í sveitasetri ráðherrans að Chequers, fyrir utan London, og drakk síðan síðdegiste í boði Elísabetar 2. Bretadrottningar í Windsor-kastala, fyrir utan London. Um klukkan 17.30 að íslenskum tíma héldu Trump og Melania, kona hans, frá London til Glasgow en þau verða um helgina í golf-hóteli forsetans í Turnberry í Skotlandi áður en hann heldur til Helsinki til fundar við Vladimir Pútín, forseta Rússlands, mánudaginn 16. júlí.

Theresa May bauð Donald Trump og rúmlega 100 öðrum gestum til kvöldverðar í Blenheim-höll í Oxfordshire, fæðingarstað Winstons Churchills, að kvöldi fimmtudags 12. júlí.

Forsetahjónin bjuggu í bandaríska sendiráðsbústaðnum í Regent Park í London. Þangað flugu þau með þyrlu frá Stanstead-flugvelli og til þeirra staða sem þau heimsóttu. Þeim var aldrei ekið um götur London þar sem tugir þúsunda mótmæltu komu Trumps.

Eftir fund sinn efndu May og Trump til blaðamannafundar á grasflöt skammt frá bústaðnum í Chequers. Eins og jafnan áður þegar Trump á í hlut var nokkur spenna fyrir fundinn. Að þessu sinni vegna forsíðuviðtals við Trump í The Sun, mest lesna blaði Bretlands. Þar gagnrýndi hann Brexit-stefnu May, hún gæti hindrað tvíhliða viðskiptasamning Breta og Bandaríkjamanna, og sagði að Boris Johnson, fyrrv. utanríkisráðherra, yrði góður forsætisráðherra. Var talið að hann hefði komið í bakið á Theresu May á sama tíma og hún sýndi honum mikla gestrisni.

Theresa May og Donald Trump á leið til blaðamannafundarins við Chequers.
Theresa May og Donald Trump á leið til blaðamannafundarins við Chequers.

Á blaðamannafundinum gaf Trump til kynna að viðtalið í The Sun væri falsfrétt því að blaðið hefði ekki birt lofsyrði hans um May. Hún væri framúrskarandi forsætisráðherra og með þeim hefðu tekist mjög góð kynni í þessari heimsókn hans. Trump sagði að ætti hann að skilgreina „sérstaka sambandið“ milli Bandaríkjanna og Bretlands væri það eins náið sérstakt samband milli ríkja og unnt væri að hugsa sér.

Forsetinn og forsætisráðherrann lýstu eindregnum vilja til aukinna viðskipta milli þjóða sinna með tvíhliða samninga eftir úrsögn Breta úr ESB í lok mars 2019.

Á blaðamannafundinum var boðskapur Trumps annar en í The Sun. Á flötinni við Chequers sagði Trump að Bandaríkjamönnum væri sama hvað Bretar gerðu gagnvart ESB „við viljum aðeins eiga viðskipti,“ sagði forsetinn Hann styddi ákvörðun bresku þjóðarinnar um að „öðlast fulla sjálfsstjórn“ öflugt Bretland væri „sannarlega blessun fyrir heiminn“.

May sagði á blaðamannafundinum að Brexit-samningstilboðið sem hún hefði kynnt væri í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2016 og það hindraði ekki viðskiptasamninga við önnur ríki. May ítrekaði að Bretar myndu ganga úr ESB.

Mótmæli gegn Trump í London.
Mótmæli gegn Trump í London.

Fréttaskýrendur segja að með orðum sínum í The Sun hefði Trump brotið diplómatískar reglur með því að blanda sér í innri málefni þess ríkis sem hann heimsækir, slíkt gerðu forsetar ekki. Aðrir bentu á að ekki ætti að gagnrýna Trump harðar en Barack Obama, forvera hans, sem hefði beinlínis blandað sér í baráttuna um aðildina að ESB með því að leggja andstæðingum úrsagnar lið.

Þegar blaðamenn spurðu Trump um viðtalið í The Sun hafnaði Trump fullyrðingum um að hann hefði gagnrýnt May, sleppt væri hluta af því sem hann hefði sagt og hann hefði beðið May afsökunar. Hann sagði að May hefði sagt sér að hafa engar áhyggjur þetta væru „bara blöðin“.

May lét Trump svara öllum  spurningum varðandi viðtalið í The Sun. Fréttaskýrendur velta fyrir sér hvort eigi að trúa Trump á blaðamannafundinum eða því sem hann sagði við The Sun. Þetta sé hins vegar orðið mynstur hjá Trump ­– hann lýsi andstæðum skoðunum og sé svo ónákvæmur í lýsingum sínum á staðreyndum að erfitt sé að taka mark á honum.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …