Home / Fréttir / Trump og Pútín ræddu kosningaafskipti og vopnahlé í Sýrlandi á löngum fundi í Hamborg

Trump og Pútín ræddu kosningaafskipti og vopnahlé í Sýrlandi á löngum fundi í Hamborg

Vladimír Pútin og Donald Trump ræðast við í Hamborg 7. júlí 2017.
Vladimír Pútin og Donald Trump ræðast við í Hamborg 7. júlí 2017.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimir Pútín Rússlandsforseti ræddu saman í tvær klukkustundir og sextán mínútur í Hamborg, Þýskalandi, föstudaginn 7. júlí til hliðar við leiðtogafund G20-ríkjanna sem haldinn er um helgina í borginni. Forsetarnir höfðu áður rætt saman í síma en þetta var í fyrsta sinn sem þeir hittust augliti til auglitis.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gerði fréttamönnum ítarlega grein fyrir viðræðum forsetanna sem stóðu mun lengur en fjölmiðlamenn töldu líklegt, þeir reiknuðu með 30 mínútna fundi. Þegar blaðamenn voru í fundarherberginu áður en því var lokað vegna viðræðnanna sagði Trump við Pútín: „Það er heiður að vera með þér.“ Pútín svaraði: „Það gleður mig að hitta þig.“

Sex menn voru á fundi forsetanna Rex Tillerson var með Trump og Sergej Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, með Pútin. Að auki voru tveir túlkar á fundinum. Utanríkisráðherrarnir höfðu haldið klukkustundar undirbúningsfund fyrir fund forsetanna.

Tillerson sagði að Trump hefði gengið á Pútín vegna „íhlutunar Rússa í kosningarnar 2016“. Tillerson sagði að Trump hefði hafið samtalið á því að ræða um kosningamálið. Pútín neitaði að Rússar hefðu blandað sér í kosningarnar. Tillerson sagði að bandarískir embættismenn mundu halda áfram að ræða „umgjörð“ sem Rússar viðurkenndu til að koma í veg fyrir að  atvik af þessu tagi endurtækju sig. Tillerson taldi ólíklegt að Rússar myndu nokkru sinni viðurkenna að þeir hefðu blandað sér á laumulegan hátt í bandarísku kosningarnar.

Bandaríkjamenn og Rússar hafa komið sér saman um vopnahlé á takmörkuðu svæði í suðvestur Sýrlandi frá og með sunnudeginum 9. júlí. Tillerson lét í ljós efasemdir um að vopnahléið yrði langvinnt. Hann sagði einnig að Bandaríkjamenn væntu þess að breytingar yrðu á stjórn Sýrlands með því að Bashar al-Assad forseti hyrfi úr embætti. Þetta væri þó allt óljóst.

Þegar fundurinn dróst á langinn leit Melania Trump forsetafrú inn í herbergið og spurði hvort maðurinn sinn væri að koma, svo var ekki og sátu þeir Pútin lengi enn á rökstólum.

Sergeij Lavrov utanríkisráðherra sagði blaðamönnum að rússneskir ráðamenn væru ánægðir með niðurstöðu fundarins. Hann sagðist þeirrar skoðunar að forsetarnir vildu láta hagsmuni þjóða sinna ráða ferðinni og í því fælist að þeir vildu komast að samkomulagi sem þjónaði hagsmunum beggja en ekki reyna að stofna til vandræða út af engu.

Pútin sagði við fréttamenn: „Ég ræddi mjög lengi við forseta Bandaríkjanna. Mörg mál bar á góma þar á meðal Úkraína, Sýrland og önnur vandamál, nokkur tvíhliða mál. Við ræddum á ný um baráttu gegn hryðjuverkum og tölvuöryggismál.“

Fyrir fundinn höfðu Rússar sagt að þeir vildu að Bandaríkjastjórn skilaði rússneska sendiráðinu í Bandaríkjunum til baka tvö sveitasetur sem Obama-stjórnin gerði upptæk í desember 2016 í refsingarskyni vegna afskipta Rússa af bandarísku kosningabaráttunni.

Trump-stjórnin hefur þegar gefið til kynna að ef til vill skili hún mannvirkjunum aftur en Obama-stjórnin sagði að þaðan væru stundaðar njósnir. Heimafyrir á Trump í vanda vegna þessa þar sem þingmenn beggja flokka vilja ekki létta neinum refsingum af Rússum. Þrír þingmenn í utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, einn demókrati og tveir repúblíkanar, sendu Trump bréf fimmtudaginn 7. júlí þar sem sagði að það mundi verða Pútín til framdráttar og hvetja Kremlverja til að auka enn aðgerðir sínar við að grafa undan lýðræðisskipan um heima allan ef þeir fengju þessi tvö sveitasetur aftur í sínar hendur án þess að gera grein fyrir íhlutun sinni í bandarísk málefni.

Nýlega var samþykkt með 97 atkvæðum gegn 2 í bandarísku öldungadeildinni að herða refsiaðgerðir gegn Rússum.

 

 

 

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …