Home / Fréttir / Trump og Pútín hittast í Helsinki 16. júlí

Trump og Pútín hittast í Helsinki 16. júlí

 

Donald Trump og Vladimír Pútín.
Donald Trump og Vladimír Pútín.

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti hittast á fyrsta opinbera toppfundi sínum í Helskinki 16. júlí. Þetta var tilkynnt samtímis í Kreml og Hvíta húsinu fimmtudaginn 28. júní.

Fréttaskýrendur segja að það eitt að fundurinn verði gefi Trump og Pútin tilefni til að slá sér upp vegna hans. Pútín vilji sanna að hann sé ekki í einskonar pólitískri sóttkví og Trump býður þeim byrginn sem saka hann um undirmál með Rússum í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016.

Áður en sagt var opinberlega frá fyrirhuguðum fundi setti Trump enn einu sinni á Twitter efasemdir um niðurstöður bandarískra leyniþjónustustofnana á þann veg að Rússar hefðu brotist inn í tölvukerfi kosningastjórnar demókrata í kosningabaráttunni árið 2016.

Hvorgur aðili hefur gefið til kynna að stefnt sé að einhverri einni eða ákveðinni niðurstöðu á fundinum. Talið er að afvopnunar- og öryggismál verði þar á dagskrá eins og jafnan á fundum bandarískra og rússneskra ráðamanna.

John R. Bolton, öryggisráðgjafi Trumps, var í Moskvu miðvikudaginn 27. júní og eftir fund hans með Pútín var staðfest að til toppfundarins kæmi. Bolton snerist þá strax til varnar gegn þeim sem gagnrýndu að Trump ætlaði að hitta Pútín og sagði að þeir sem það gerðu vildu aðeins skapa „pólitískan hávaða“. Hann sagði að Trump héldi til fundarins „hvað sem liði pólitískri gagnrýni“.

Stirt hefur verið milli Rússa og Bandaríkjamanna vegna ýmissa mála undanfarið og má þar nefna átökin í Sýrlandi og Úkraínu, kjarnorkuvopnasamninga, stefnu NATO og öryggi í netheimum. Almennt er talið að samskipti ríkjanna hafi ekki verið verri en nú frá lyktum kalda stríðsins.

Miðvikudaginn 27. júní sagði Pútín við Bolton að þrátt fyrir vond samskipti ríkjanna hefði heimsókn hans til Moskvu „gefið okkur von um að við getum stigið fyrstu skrefin til að blása nýju lífi í full samskipti stjórna okkar“.

Trump og Pútín hafa hist tvisvar áður. Fyrst á G7-fundi í Hamborg árið 2017, þar sátu þeir aðeins tveir með rússneskum túlki í lok kvöldverðar. Trump sagði að þeir hefðu rætt ættleiðingarstefnu. Þeir sögðust einnig vilja koma á fót sameiginlegri netöryggissveit og stuðla að vopnahléi í suð-vestur Sýrlandi. Í Bandaríkjunum var hugmyndin um netöryggissveit sögð hlægileg í ljósi þess að Rússar beittu sér helst fyrir löglausum aðgerðum í netheimum. Vopnahlé í Sýrlandi hefur reynst markleysa.

Forsetarnir skiptust á kveðjum í tengslum við toppfund í Víetnam í nóvember 2017.

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …