Home / Fréttir / Trump og Merkel afhjúpa minnismerki í nýjum höfuðstöðvum NATO

Trump og Merkel afhjúpa minnismerki í nýjum höfuðstöðvum NATO

Donald Trump, Jens Stoltenberg og Angela Merkel í nýjum höfuðstöðvum NATO.
Donald Trump, Jens Stoltenberg og Angela Merkel í nýjum höfuðstöðvum NATO.
Frá athöfninni í nýjum höfuðstöðvum NATO. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra efst í hægra horni myndarinnar.
Frá athöfninni í nýjum höfuðstöðvum NATO. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra efst í hægra horni myndarinnar.
Nýjar höfuðstöðvar NATO
Nýjar höfuðstöðvar NATO.

Donald Trump Bandaríkjaforseti áréttaði enn á ríkisoddvitafundi NATO í Brussel fimmtudaginn 25. maí að aðildarríki bandalagsins legðu að minnsta kosti 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála. Fyrr sama dag hitti Trump forystumenn ESB og virtust þeir sannfærðir um að Trump hefði horfið frá einhverri af gagnrýni sinni í garð sambandsins.

Þetta var fyrsti ríkisoddvitafundur NATO sem Trump sækir og taldi hann að vinna yrði upp „glötuðu árin“ þegar útgjöld til varnarmála drógust saman innan NATO. Hann sagði að 23 af 28 NATO-ríkjum skulduðu „háar fjárhæðir“ og það væri „ekki sanngjarnt gagnvart almenningi og skattgreiðendum í Bandaríkjunum“.

Hann hvatti einnig bandamenn sína í NATO til að berjast gegn hryðjuverkamönnum og til að setja útlendingamál í forgang til að hafa stjórn á straumi innflytjenda.

„Þúsundir og aftur þúsundir manna streyma inn í ýmis lönd og dreifa sér síðan víða og í mörgum tilvikum höfum við ekki minnstu hugmynd um hvaða fólk þetta er,“ sagði hann.

Í kosningabaráttu sinni nefndi Trump oft stjórnlausa komu útlendinga sem helstu undirrót glæpa og hryðjuverka. Eftir að hann settist í embætti hefur hann gert tilraunir til að ná stjórn á þessum málum.

Fyrir ríkisoddvitafundinn sendi Trump frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði að leki í Bandaríkjunum á viðkvæmum rannsóknargögnum lögreglu vegna hryðjuverksins í Manchester mánudaginn 22. maí væri „mikið áhyggjuefni“. Sagðist hann ætla að fela dómsmálaráðuneytinu og öðrum stofnunum að hefja „tæmandi rannsókn rannsókn á málinu“.

Lögreglan í Manchester hefur ákveðið að hætta að miðla upplýsingum til bandarískra yfirvalda við rannsókn málsins.

Trump afhjúpaði minningarskjöld um árásina 11. september 2001 á New York og Washington í nýju höfuðstöðvum NATO.

„Í  NATO framtíðarinnar verður mikilli athygli að verða beint að hryðjuverkum og innflytjendum samhliða ógn frá Rússum og austur og suður landamærum NATO,“ sagði hann við afhjúpunina.

Angela Merkel Þýskalandskanslari og Jena Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, afhjúpuðu einnig minnisvarða með brotum úr Berlínarmúrnum og tákna þau endalok skiptingar Evrópu.

„Þjóðverjar gleyma ekki framlagi NATO til að endursameina land okkar. Einmitt af þessari ástæðu munum við leggja okkar til öryggis og stöðugleika í bandalagi okkar,“ sagði Merkel.

Í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins um fundinn segir:

„Þróun öryggismála, efling sameiginlegra varna og baráttan gegn hryðjuverkum voru meðal umræðuefna á fundi leiðtoga Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag.
„Atlantshafsbandalagið er meginstoðin í samvinnu Evrópu og Norður-Ameríku en breyttar öryggishorfur kalla á virkari þátttöku og framlög allra bandalagsríkja. Ísland hefur verið að auka framlög til öryggis- og varnarmála m.a. með því að bæta gistiríkjastuðning í Keflavík og auka þátttöku í störfum bandalagsins. Voðaverkin í Manchester voru eðlilega ofarlega í hugum allra og settu mark sitt á umræðuna“, sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra sem sótti fundinn.
Leiðtogarnir áréttuðu fyrri skuldbindingar um að auka framlög til öryggis- og varnarmála á næstu árum til að mæta nýjum áskorunum og jafna byrðarnar af sameiginlegum vörnum bandalagsins. Aðgerðir til að stemma stigu við hryðjuverkum og auka stöðugleika í veikburða ríkjum voru einnig til umræðu. Leiðtogarnir samþykktu að bandalagið tæki virkari þátt í baráttunni gegn hryðjuverkum í nánu samstarfi við aðrar alþjóðastofnanir og samstarfsríki. Samhliða því verður stuðningur við umbætur í öryggis- og varnarmálum í samstarfsríkjum aukinn til að gera þeim betur kleift að standa vörð um eigið öryggi.
Í tengslum við fund leiðtoganna afhentu belgísk stjórnvöld Atlantshafsbandalaginu nýjar höfuðstöðvar.“

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …