
Franska forsetaskrifstofan segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi rangtúlkað hugmyndir Emmanuels Macrons Frakklandsforseta um ESB-her. Trump sagði hugmyndirnar móðgandi föstudaginn 9. nóvember.
Forsetar Bandaríkjanna og Frakklands hittust á fundi laugardaginn 10. nóvember í París. Trump er þar til að minnast þess að 11. nóvember eru 100 ár liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Fyrir fundinn hafði komið til ágreinings vegna túlkunar Trumps á orðum Macrons um að ríki Evrópu ættu gera ráðstafanir sér til verndar gegn Bandaríkjamönnum.
Á fundinum í París jöfnuðu forsetarnir ágreining sinn og Trump fullvissaði Macron um að Bandaríkjastjórn mundi leggja Evrópuþjóðum lið við varnir þeirra.
Trump áréttaði hins vegar enn einu sinni að ESB-ríkin yrðu að leggja sanngjarnan hlut af mörkum til NATO og útgjalda vegna samstarfsins þar.
Macron sagði í útvarpsviðtali fyrr í vikunni að ESB yrði að geta varið sig gegn „Kína, Rússlandi og jafnvel Bandaríkjunum“.
Frakklandsforseti sagði við útvarpsstöðina Europe 1:
„Andspænis Rússum sem eru við landamæri okkar og hafa sýnt hótanir í verki þarf Evrópa að vera betur í stakk búin til að verja sig sjálf og í krafti fullveldis, án þess að treysta alfarið á Bandaríkin.“
Vegna þessara orða Macron lét Trump Frakklandsforseta sérstaklega og öll Evrópuríki heyra það.
„Macron, forseti Frakklands, lagði rétt í þessu til að Evrópa eignaðist eigin her sér til varnar gegn Bandaríkjamönnum, Kínverjum og Rússum,“ sagði Trump á Twitter og bætti við: „Mjög móðgandi, en kannski ætti Evrópa fyrst að borga sinn hlut í NATO sem nýtur mikils fjárstuðnings Bandaríkjanna.“
Franska forsetaembættið sendi frá sér tilkynningu laugardaginn 10. nóvember um að orð forsetans hefðu verið mistúlkuð.
„Hann sagði aldrei að við þyrftum evrópskan her gegn Bandaríkjunum.“ sagði í tilkynningunni.