Home / Fréttir / Trump og Kim skilja án samkomulags í Hanoi

Trump og Kim skilja án samkomulags í Hanoi

Frá fundinum í Hanoi.
Frá fundinum í Hanoi.

Öðrum fundi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Kims Jong-uns, einræðisherra Norður-Kóreu, lauk án árangurs í Hanoi fimmtudaginn 28. febrúar. Báðir aðilar segjast þurfa lengri tíma til að ná „góðu samkomulagi“. Ágreiningur ríkjanna snýst um „upprætingu kjarnorkuvopna“ á Kóreuskaga og afnám viðskiptaþvingana gegn  kommúnistastjórninni.

„Ég hefði kosið að geta gengið lengra,“ sagði Trump á blaðamannafundi en „stundum verða menn að ganga frá borðinu“. Forsetinn sagði að Norður-Kóreumenn væru áfram „tilbúnir til að fækka kjarnorkuvopnum“ en Bandaríkjamenn gætu „ekki fallið frá öllum þvingunum“ að kröfu Norður-Kóreumanna.

Donald Trump hvarf því frá Víetnam án þess að efnt yrði til „opinberrar athafnar við undirritun sameiginlegrar yfirlýsingar“ eins og boðað var í dagskrá fundarins.

Kim Jong-un gaf einnig til kynna að hann hefði viljað vinna að upprætingu kjarnorkuvopna á Kóreuskaga. „Væri ég ekki fús til þess væri ég ekki hér,“ sagði Kim.

Til að sanna að samband ríkjanna hefði ekki rofnað þrátt fyrir að ekki hefði tekist samkomulag hittust viðræðunefndir ríkjanna enn á vinnufundi fimmtudaginn 28. febrúar.

Nú eru átta mánuðir frá því að Trump og Kim hittust fyrst á fundi í Singapore og rituðu undir skjal sem átti að draga úr kjarnorkuvæðingu N-Kóreumanna. Deilt er um á hvern veg N-Kóreumenn hafa staðið að framkvæmd þess.

Stuðningsmenn Trumps benda á að frá fundinum hafi N-Kóreumenn ekki gert neinar tilraunir hvorki með kjarnorkuvopn né flugskeyti. Kim ógni ekki lengur Bandaríkjunum með stórkallalegum yfirlýsingum eða gorti sig af að geta grandað herstöð þeirra á Kyrrahafseyjunni Guam.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …