Home / Fréttir / Trump og Kim hittast á leiðtogafundi Í Singapúr

Trump og Kim hittast á leiðtogafundi Í Singapúr

 

Donald Trump og Kim Jong-un
Donald Trump og Kim Jong-un

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Fáar alþjóðlegar deilur eru eldri heldur en sú sem snýst um framtíð Kóreuskagans þ.e. hvernig eigi að fást við Norður-Kóreu.  Japanir bættu Kóreu við ríki sitt í upphafi 20. aldarinnar og svo fór að eftir uppgjöf þeirra í seinni heimsstyrjöldinni skiptu Bandaríkin og Sovétríkin skaganum í áhrifasvæði.  Í norðurhlutanum var komið á kommúnistastjórn en markmið Bandaríkjanna var að koma á lýðræðiskerfi í Suður-Kóreu.  Suttu eftir skiptingu skagans réðst Norður-Kórea á nágranna sína í suðri.  Sameinuðu þjóðirnar sendu hersveitir á vettvang og leit út fyrir að Norður-Kórea yrði gjörsigruð en þá skárust Kínverjar í leikinn og fór svo að víglínan festist við 38. breiddargráðu.  Samið var um vopnahlé árið 1953 en friðarsamningar hafa aldrei verið undirritaðir.

Nú hefur deilan enn á ný komist í hámæli.  Eftir hvöss orðaskipti Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og leiðtoga Norður-Kóreu í fyrra fóru mál að horfa til betri vegar í kjölfar vetrarólympíuleikanna í febrúar síðastliðnum en Kóreuríkin sendu sameiginlegt íþróttalið á þá.  Þetta leiddi síðan til þess að leiðtogar ríkjanna hittust en það var í fyrsta sinn síðan árið 2007 sem það gerðist.

Stuttu áður en sá fundur var haldinn þáði Trump Bandaríkjaforseti boð Kims Jong-uns leiðtoga Norður-Kóreu um að hittast.  Fundurinn verður haldinn í Singapúr nú í vikunni.  Þó slíkur fundur hafi legið í loftinu nokkur misseri þá kom tilkynning um hann á óvart.  Segja má að það eigi vel við því óvissa einkennir undirbúning fundarins og er þá verið að vísa til stefnu Bandaríkjanna enda er samningsaðili þeirra ekki þekktur fyrir mikla upplýsingagjöf.  Þannig virðist fundurinn hafa verið ákveðinn með stuttum fyrirvara án þess að skýr markmið hafi verið sett varðandi það hvers eigi að krefjast af Norður-Kóreu.  Ekki bætir úr skák að Trump hefur slegið í og úr í yfirlýsingum sínum varðandi fundinn.  Allt getur því gerst í Singapúr í vikunni.  Líklega verður fundurinn ekkert annað en leiksýning þar sem leiðtogarnir reyna að meta hvort forsendur séu fyrir frekari samskiptum á milli þeirra.  Þeir munu einnig reyna að sýna sínar bestu hliðar og þar kann einræðisherrann að hafa vinninginn sem er auðvitað ótrúlegt en þarf þó ekki að koma á óvart þegar hegðun Donalds Trumps er höfð í huga.  Einnig er hægt að sjá fyrir sér mun verri niðurstöðu líkt og þá að Trump í viðleitni sinni til þess að ná samkomulagi við Norður-Kóreu samþykki að draga herlið Bandaríkjamanna frá Suður-Kóreu.  Slíkt myndi líklega leiða til vopnakapphlaups í Suð-Austur Asíu og senda slæm skilaboð til bandamanna Bandaríkjanna víðsvegar um heiminn og þá sérstaklega í Japan.

Hvernig sem fer þá eru litlar líkur á að það þokist mikið í samkomulagsátt í helsta deilumáli Norður-Kóreu og alþjóðasamfélagsins sem snýst um þá kröfu að Norður-Kórea losi sig við kjarnorkuvopn sín.  Tvenns konar rök verða færð fyrir þessari staðhæfingu.  Í fyrsta lagi þá fylgja leiðtogar Norður-Kóreu ósveigjanlegri hugmyndafræði sem gerir þeim afar erfitt fyrir að losa sig við kjarnorkuvopn sín jafnvel þó þeir hefðu vilja til þess.  Hin rökin eru þau að sagan sýnir að Norður-Kóreumenn virða sjaldan þá samninga sem gerðir eru við þá.

Hugmyndafræðin sem vísað var í hér að framan kallast juche.  Rekja má sögu hennar aftur til 6. áratugarins.  Hún er samsuða úr kommúnisma, kóreskum og konfúískum gildum. Grundvallaratriði í stefnunni er sjálfsþurftarbúskapur þ.e. að ríkið sé umkringt óvinum og þurfi því að standa á eigin fótum á öllum sviðum.  Afsprengi juche kallast songun sem þýða má sem herinn fyrst en líkt og nafnið gefur til kynna þá gengur stefnan út á að herinn sé grunnstoð þjóðfélagsins.  Þeim sem hafa þessa heimssýn finnst sjálfsagt og eðlilegt að þeir ráði yfir vopnum sem búi yfir öflugum fælingarmætti og fá vopn gegna því hlutverki betur en kjarnorkuvopn.  Erfitt er fyrir okkur Íslendinga að skilja þau heljartök sem juche og songun hafa á norður-kóresku samfélagi.  Leiðtogar ríkisins hafa haft hugmyndafræðina að sinni leiðastjörnu í yfir 70 ár og þeir reisa vald sitt á henni.  Sveigi þeir af leið væru þeir því í raun að segja að þeir hefðu haft rangt fyrir sér allan þennan tíma og það myndi bara bjóða hættunni heim fyrir þá.

Kjarnorkuvopnasaga Norður-Kóreu er nánast jafngömul ríkinu sjálfu.  Í fyrstu beindist áhugi ráðamanna aðallega að því að skilja hvernig nýta mætti kjarnorku en þegar komið var fram á 8. áratuginn fóru þeir að huga að smíði kjarnavopna.  Það var einmitt um þetta leyti sem ríkið byggði kjarnorkuverið í Yongbyon sem oft hefur verið í fréttum.  Samhliða kjarnavopnarannsóknum sínum hefur Norður-Kórea verið að þróa eldflaugar sem m.a. geta borið þessi vopn.  Frá því á 9. áratugnum hefur alþjóðasamfélagið reynt að koma í veg fyrir að Norður-Kóreu tækist að koma sér upp kjarnorkuvopnum.  Nefna má að árið 1992 skrifuðu leiðtogar Kóreuríkjanna undir yfirlýsingu um að ríkin tvö myndu ekki framleiða kjarnavopn í framtíðinni.  Tveimur árum síðar sömdu Norður-Kórea og Bandaríkin um að fyrrnefnda ríkið myndi hætta kjarnavopnarannsóknum sínum gegn aðstoð frá Bandaríkjunum.  Fimm árum síðar settust ríkin tvö aftur að samningaborðinu og þá lofuðu Norður-Kóreumenn að hætta eldflaugatilraunum.  Árið 2005 lofaði Norður-Kórea síðan samaðilum sínum að sexvelda hópnum svokallaða (Bandaríkjunum, Suður-Kóreu, Japan, Kína og Rússlandi) að ríkið myndi hætta að eltast við kjarnavopn.   Öll þessi loforð og samningar hafa runnið út í sandinn vegna vanefnda leiðtoga Norður-Kóreu og árið 2006 sprengdi ríkið fyrstu kjarnorkusprengju sína.  Eftir að Barack Obama varð Bandaríkjaforseti reyndi hann að eiga við Norður-Kóreu en lítið kom út úr þeim viðræðum.

Hafi leiðtogar Norður-Kóreu ekki í hyggju að losa sig við kjarnorkuvopn má spyrja hvers vegna þeir vilji taka þátt í fundi þar sem áherslan verður á þau.  Svarið er að þeir græða svo mikið á fundinum að þeir eru tilbúnir til að ræða kjarnavopnaeign sína enda vita þeir sem er að líklega munu þeir komast upp með að gefa aðeins óljós loforð um framtíð kjarnorkuvopna­búrs síns.  Kim Jong-Un og föruneyti vonast eftir tvennu:  Virðingu alþjóðasamfélagsins og því að tvístra samstöðu þess gegn þeim.  Norður-Kórea er einangrað einræðisríki sem hefur ekkert að bjóða umheiminum.  Það er því mikill áróðurssigur fyrir stjórnvöld í landinu að geta tekið þátt í leiðtogafundi með forseta Bandaríkjanna þar sem að vissu leyti yrði komið fram við Kim Jong-un sem jafningja hans.  Stjórnvöld í landinu geta m.a. nýtt þessa upphefð til þess að færa rök fyrir því að stefna þeirra beri árangur og þarmeð framlengt ógnarstjórn sína.  Það kæmi sér einnig afar vel fyrir stjórnvöld í landinu ef þeim tækist að draga úr samvinnu þeirra ríkja sem mest hafa með málefni Norður-Kóreu að gera þ.e. sexvelda hópnum sem myndaður var árið 2003.  Ríkin sex hafa mismunandi hagsmuni á Kóreuskaganum og lítið þarf út af að bera til að þau hætti að vinna saman að lausn Kóreudeilunnar.  Teikn eru á lofti um að tvíhliða viðræður Norður-Kóreu og Bandaríkjanna leiði til þessarar niðurstöðu sem myndi meðal annars þýða það að slakað yrði á viðskiptaþvingunum gegn stjórn landsins sem voru farnar að bíta á þeim þar sem Kínverjar voru farnir að taka meiri þátt í þeim.

Verði þetta raunin þá er þetta afleit niðurstaða því þetta gefur til kynna að breytingar séu ekki í vændum í Norður-Kóreu.  Í landinu búa um 25 milljónir manna.  Frá því að hungursneyð geisaði þar á árunum 1994-1998 hafa stjórnvöld ekki getað brauðfætt landsmenn.  Ráðamönnum tekst að lifa góðu lífi með því að beita ýmsum brögðum og einnig fær herinn flest sem hann biður um.   Kjör hins almenna borgara eru hins vegar mjög rýr.   Nú er svo komið að meðal Norður-Kóreubúi er um 3-8 cm lægri heldur en Suður-Kóreubúi, barnadauði þar er um sex sinnum algengari heldur en sunnan landamæranna og Norður-Kóreubúar lifa um 10 árum skemur en frændur þeirra í suðri.  Þó landið sé ekki jafn einangrað og oft er gefið til kynna þá er landsmönnum haldið niðri með járnhnefa og því er óraunhæft að ætla að stjórnkerfi landsins hrynji líkt og gerðist í Austur-Evrópu á 10. áratug síðustu aldar.  Hernaðarlausn er heldur ekki raunhæf.  Þar kemur til að Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu er í skotfæri stórskotaliðs Norður-Kóreu og Kínverjar myndu ekki líða innrás.  Sameinað átak alþjóðasamfélagisns, og þá sérstaklega ríkjanna sex sem minnst hefur verið á, er því líklega besta leiðin til að takast á við Norður-Kóreu.  Rofni samstaðan lengir Norður-Kóreustjórn líftíma sinn og á meðan munu landsmenn halda áfram að þjást.  Ömurleg kjör þeirra er það sem fólk á að hugsa um en ekki láta blekkjast af fagurgala Donalds Trumps og Kims Jong-uns.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …