Home / Fréttir / Trump leitast við að skapa utanríkis- og öryggismálastefnu sinni mildara yfirbragð

Trump leitast við að skapa utanríkis- og öryggismálastefnu sinni mildara yfirbragð

Donald Trump
Donald Trump

Donald Trump, forsetaframbjóðandi repúblíkana í Bandaríkjunum, hefur mildað tón sín í garð NATO. Hann hefur sætt gagnrýni fyrir neikvæðar yfirlýsingar um samstarfið innan bandalagsins og um að bandalagið sé að minnsta kosti að nokkru tímaskekkja.

Trump flutti ræðu um utanríkis- og öryggismál í Youngstown State University í Ohio-ríki að kvöldi mánudags 15. ágúst. Höfðu málsvarar repúblíkana boðað að þar mætti vænta þess að frambjóðandi þeirra „rétti kúrsinn“ eftir að hafa sagt ýmislegt sem margir túlkuðu sem óvarlegt undanfarna mánuði.

Í ræðunni hét Trump að vinna með NATO að því að uppræta Daesh (Ríki íslams) og einnig að vörnum gegn tölvuárásum. Hann sagði ferska vinda blása um NATO. „Ég hef áður sagt að NATO væri úrelt vegna þess að það léti hjá líða að berjast nógu hart gegn hryðjuverkum. Frá því að þessi orð féllu hefur bandalagið breytt um stefnu og hefur komið á fót deild sem helgar sig hryðjuverkaógn,“ sagði Trump.

Meginþungi ræðu hans snerist um ógnina af hryðjuverkum og ástandinu í Mið-Austurlöndum. Hann sagði:

„Rétt eins og við unnum kalda stríðið að hluta með því að benda á grimmd kommúnismans og ágæti frjáls markaðar verðum við að vega að hugsjónum öfga-íslams.“

Hann hélt ekki lengur fast í þá skoðun sem hann kynnti árið 2015 að banna ætti múslimum að koma til Bandaríkjanna heldur sagði að bannið ætti að gilda gagnvart þeim sem kæmu frá svæðum þar sem alið væri á hryðjuverkastarfsemi. Hann nefndi engin sérstök lönd.

Hann sakaði Barack Obama Bandaríkjaforseta og Hillary Clinton, þáv. utanríkisráðherra hans, fyrir að hafa ýtt undir öfgastefnu íslamista og áhrif hennar. Þau hefðu gerst sek um „hörmuleg mistök“ þegar þau hefðu á „ábyrgðarlausan hátt“ kallað bandarískt herlið frá Írak. Þá hefði Hillary Clinton bætt gráu ofan á svart með því að reyna að „koma á lýðræði í Líbíu“.

Hann sagði að Hillary Clinton hefði barist ákaft fyrir að Bandaríkjamenn hlutuðust til um málefni Líbíu árið 2011. (Obama hefur margítrekað viðurkennt að það sé mest vanhugsaða aðgerð sín í utanríkismálum á átta ára forsetaferli hans.) Hann sagði einnig: „Hillary Clinton vill verða Angela Merkel Bandaríkjanna“ og vísaði þar til þess að Merkel Þýskalandskanslari hefði ákveðið að opna landamæri Þýskalands fyrir tugum þúsunda flóttamanna úr borgarastríðinu í Sýrlandi.

Trump vék ekki gagnrýnisorði að Bashar al-Assad Sýrlandsforseta en gagnrýndi Obama fyrir að krefjast afsagnar forsetans og Hosnis Mubaraks Egyptalandsforseta á sínum tíma. Með því hefði hann ýtt við öflugum leiðtoga sem hefði haldið aftur af obeldisöflum á þeim tíma.

Hann hét því að stofna til nýs samstarfs við Ísraela, Egypta og Jórdani í því skyni að halda aftur af hryðjuverkamönnum á borð við Hamas og Hezbollah. Þá gaf hann einnig til kynna að Bandaríkjamenn ættu að huga að samstarfi við Rússa gegn Daesh.

Trump hét því að innleiða „stranga bakgrunnsskoðun“ á innflytjendum til Bandaríkjanna, þeir yrðu meðal annars látnir gangast undir „hugmyndafræðilegt próf“. Hann lýsti ekki hvernig að þessu yrði staðið. Hann lagði áherslu á að gerðar yrðu nýjar kröfur vegna vegabréfsáritana en minntist ekki einu orði á gamla hugmynd sína um að reisa múr á landamærum Mexíkó á kostnað Mexíkana.

Hann sagði að horfið yrði frá stefnunni sem kennd er við nation building það er viðleitni Bandaríkjamanna til að leggja grunn að nýju þjóðskipulagi eins og reynt var án árangurs í Afganistan og Írak.

Heimild: Ritzau, NYT, Le Figaro

 

 

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …