Home / Fréttir / Trump leggur drög að fundi með Pútín

Trump leggur drög að fundi með Pútín

 

Donald Trump og John R. Bolton.
Donald Trump og John R. Bolton.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt drög að því að hitta Vladimír Pútin Rússlandsforseta á næstunni. Forsetinn sendir John R. Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa sinn, til Moskvu í næstu viku til að ræða hugsanlegan fund með Pútín. Trump situr ríkisoddvitafund NATO-ríkjanna 11. og 12. júlí í Brussel. Þaðan heldur hann til Bretlands en för hans þangað hefur dregist á langinn af ýmsum ástæðum. Hugsanlegt er talið að hann haldi síðan til Austurríkis til fundar við Pútín.

Bandarískir fjölmiðlar segja að Trump hafi mánuðum saman haft mikinn áhuga á að hitta Pútín þrátt fyrir spennu í samskiptum Rússa og ríkisstjórna í Evrópu. Trump hvatti á dögunum til þess að Rússar bættust í hóp G7-ríkjanna en hugmynd hans var hafnað á fundi í Kanada fyrr í mánuðinum.

Sérfræðingar segja að Trump hafi greinilega einsett sér að rífa upp varnargirðingar gegn Rússum sem settar voru eftir að þeir innlimuðu Krímskaga í trássi við alþjóðalög í mars 2014. Trump sakar forvera sinn Barack Obama um að hafa gert illt verra í samskiptunum við Rússa.

Í The New York Times segir að Trump hafi leitað eftir fundi með Pútín síðan í mars 2018 þegar hann hringdi í Rússlandsforseta og óskaði honum til hamingju með að verða endurkjörinn í forsetaembættið. Í samtalinu ámálgaði Trump hvort Pútín vildi ekki þiggja heimboð í Hvíta húsið í Washington en þangað hefur hann ekki komið síðan árið 2005.

Nú hefur hann falið þjóðaröryggisráðgjafa sínum að stíga næsta skref til fundar með Pútín. Rússar hafa áhuga á slíkum fundi því að þeir telja sig geta náð árangri í samskiptum sínum við Trump.

Sjálfur hefur Pútín sagt að hann geti hitt Trump „um leið og bandaríska hliðin er tilbúin“.

Á leið sinni til Moskvu millilendir John R. Bolton í Róm og London til að eiga samráð við bandamenn Bandaríkjanna.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …