
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt drög að því að hitta Vladimír Pútin Rússlandsforseta á næstunni. Forsetinn sendir John R. Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa sinn, til Moskvu í næstu viku til að ræða hugsanlegan fund með Pútín. Trump situr ríkisoddvitafund NATO-ríkjanna 11. og 12. júlí í Brussel. Þaðan heldur hann til Bretlands en för hans þangað hefur dregist á langinn af ýmsum ástæðum. Hugsanlegt er talið að hann haldi síðan til Austurríkis til fundar við Pútín.
Bandarískir fjölmiðlar segja að Trump hafi mánuðum saman haft mikinn áhuga á að hitta Pútín þrátt fyrir spennu í samskiptum Rússa og ríkisstjórna í Evrópu. Trump hvatti á dögunum til þess að Rússar bættust í hóp G7-ríkjanna en hugmynd hans var hafnað á fundi í Kanada fyrr í mánuðinum.
Sérfræðingar segja að Trump hafi greinilega einsett sér að rífa upp varnargirðingar gegn Rússum sem settar voru eftir að þeir innlimuðu Krímskaga í trássi við alþjóðalög í mars 2014. Trump sakar forvera sinn Barack Obama um að hafa gert illt verra í samskiptunum við Rússa.
Í The New York Times segir að Trump hafi leitað eftir fundi með Pútín síðan í mars 2018 þegar hann hringdi í Rússlandsforseta og óskaði honum til hamingju með að verða endurkjörinn í forsetaembættið. Í samtalinu ámálgaði Trump hvort Pútín vildi ekki þiggja heimboð í Hvíta húsið í Washington en þangað hefur hann ekki komið síðan árið 2005.
Nú hefur hann falið þjóðaröryggisráðgjafa sínum að stíga næsta skref til fundar með Pútín. Rússar hafa áhuga á slíkum fundi því að þeir telja sig geta náð árangri í samskiptum sínum við Trump.
Sjálfur hefur Pútín sagt að hann geti hitt Trump „um leið og bandaríska hliðin er tilbúin“.
Á leið sinni til Moskvu millilendir John R. Bolton í Róm og London til að eiga samráð við bandamenn Bandaríkjanna.