Home / Fréttir / Trump ítrekar í bréfi til NATO-ríkja kröfu um 2% útgjöld til varnarmála

Trump ítrekar í bréfi til NATO-ríkja kröfu um 2% útgjöld til varnarmála

 

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Donald Trump Bandaríkjaforseti í Brussel í maí 2017.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, og Donald Trump Bandaríkjaforseti í Brussel í maí 2017.

 

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hvað eftir annað látið í ljós óánægju vegna þess hve mörg aðildarríki NATO hafi ekki náð því marki að verja 2% af vergri landsframleiðslu sinni til varnarmála eins og að er stefnt fram til ársins 2024 samkvæmt niðurstöðu ríkisoddvitafundar bandalagsins í Wales í september árið 2014.

Forsetinn hefur nú fylgt sjónarmiði sínu eftir með persónulegu bréfi til leiðtoga ýmissa aðildarríkja NATO, þar á meðal Þýskalands, Noregs og Hollands. Birtir The New York Times (NYT) frétt um þetta.

Trump segir í bréfi til Angelu Merkel Þýskalandskanslara að það sé „vaxandi urgur í Bandaríkjamönnum vegna þess að nokkrir bandamenn þeirra standi ekki við loforð sín“.

Afstaða þýsku ríkisstjórnarinnar er að ekki dugi aðeins að meta framlag ríkja til varnarmála með þessari mælistiku heldur verði að leggja mat á framlag þeirra einnig frá öðrum sjónarhóli. Útgjöld til hermála verði aukin í Þýskalandi en einnig gripið til annarra aðgerða sem jafna megi til aukinna útgjalda þótt þau mælist ekki á þann veg.

NYT segir að í bréfi Trumps til Merkel standi:

„Það verður sífellt erfiðara að skýra fyrir Bandaríkjamönnum hvers vegna nokkur NATO-ríki taki ekki þátt í sameiginlegri byrði á sama tíma og bandarískir hermenn fórna lífi sínu enn sem fyrr í öðrum löndum.“

Segir NYT að orðalagið sé frá heimildarmanni sem hafi séð bréfið til Merkel. Blaðið segir einnig að Trump gefi til kynna að hann sé að missa þolinmæðina gagnvart þeim sem standi ekki við skyldur sínar.

Merkel fékk bréfið í júní. Í næstu viku, 11. júlí, situr Trump ríkisoddvitafund NATO-ríkjanna í Brussel. Þaðan fer hann til London og síðan 16. júlí til Helsinki þar sem hann hittir Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Stjórnvöld í Moskvu hafa sagt að eitt mál verði ekki á dagskrá fundar Trumps og Pútíns, það er staða Krímskaga sem Rússar innlimuðu ólöglega í mars árið 2014.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …