Home / Fréttir / Trump hvetur til samstarfs í því skyni að einangra Írana

Trump hvetur til samstarfs í því skyni að einangra Írana

Salman. konungur Sáda, sæmir Donald Trump æðsta heiðursmerki konungdæmisins.
Salman. konungur Sáda, sæmir Donald Trump æðsta heiðursmerki konungdæmisins.

Donald Trump Bandaríkjaforseti  hvatti til þess að þjóðir í Mið-Austurlöndum tækju höndum saman í þeim tilgangi að „þröngva út öfgahyggju“. Forsetinn sagði þetta í tímamótaræðu sunnudaginn 21. á öðrum degi heimsóknar sinnar til Sádi-arabíu.

Ræðuna flutti forsetinn á rúmlega 50 manna toppfundi leiðtoga Arabaríkja og Bandaríkjanna í Riyadh. Trump sakaði Írani um að kynda undir „eldum átaka trúarhópa og hryðjuverka“ og hvatti til einangrunar þeirra á alþjóðavettvangi.

Trump lagði áherslu að baráttuna gegn öfgahyggju á svæðinu og sagði leiðtogum múslimaþjóðanna að þeir yrðu að hrekja hryðjuverkamenn frá löndum sínum.

„Betri framtíð bíður aðeins ef þjóðir ykkar hrekja á brott hryðjuverkamenn og öfgamenn,“ sagði forsetinn. „Hrekið þá á brott. Hrekið þá á brott frá bænahúsum ykkar. Hrekið þá á brott frá heilaga landinu.“

Trump lofaði að Bandaríkjamenn mundu ekki reyna að „þröngva“ lífsháttum sínum á aðra, þeir mundu frekar „rétta fram hönd“ sína í “anda samvinnu og trausts“.

Trump sagði:

„Hér er ekki um að ræða orrustu milli manna með ólíka trú, trúflokka eða ólíkra menningarheima. Þetta er orrusta milli siðlausra glæpamanna sem reyna að uppræta líf manna og heiðarlegs fólks af öllum trúarbrögðum sem reyna að vernda það. Þetta er orrusta milli góðs og ills.

Við erum ekki hér til að segja fólki hvernig það á lifa, hvað það eigi að gera, hvað það eigi að vera eða á hvað það eigi að trúa. Þvert á móti erum við hér til að bjóða til samstarfs á grundvelli sameiginlegra hagsmuna og gilda.“

Leiðtogafundurinn snerist að verulegu leyti um hættuna sem Flóaríkin telja að sér steðja frá Íran. Sádar og Íranir takast á víða á svæðinu frá Sýrlandi til Jemens.

Salman, konungur Sáda, sat við hlið Trumps og sagði: „Íranska stjórnin hefur haft forystu um hnattræn hryðjuverk.“

Trump gagnrýndi ráðamenn í Teheran fyrir að styðja Bashar al-Assad Sýrlandsforseta og þeir hefðu með stuðningi sínum gert Assad kleift að fremja „ólýsanleg glæpaverk“ í sex ára borgarastríði í Sýrlandi.

Trump sagði:

„Frá Líbanon til Íraks og Jemens fjármagna Íranir, vopna og þjálfa hryðjuverkamenn, vopnaðar sveitir og aðra öfgahópa sem stuðla að eyðileggingu og upplausn á svæðinu.

Þar til íranska stjórnin vill eiga samstarf um frið verða allar þjóðir með samvisku að vinna saman til að einangra hana.“

Laugardaginn 20. maí rituðu Trump og Salman konungur undir vopnasölusamning sem er talinn um 110 milljarða dollara virði og er sagður sá viðamesti í sögu Bandaríkjanna. Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að með samningnum væri ætlunin að snúast gegn „illum áhrifum Írana“.

Trump var í tveggja daga heimsókn í Sádi-Arabíu í fyrstu utanlandsferð sinni sem forseti. Hann fer einnig til Ísraels, Páfagarðs, á fund G7-ríkjanna á Sikiley og ríkisoddvitafund NATO í Brussel.

Ræðu Trumps í Riyadh var beðið með eftirvæntingu vegna þess hve hörðum orðum hann fór um múslima í kosningabaráttu sinni og vegna tilrauna sinna eftir að hann varð forseti til að hindra komu ríkisborgara og flóttamanna frá nokkrum ríkjum múslima til Bandaríkjanna, þó ekki frá Sádi-arabíu

Trump verður í Ísrael mánudaginn 22. maí og hittir Benjamin Netanyahu forsætisráðherra auk þess að fara að Grátmúrnum í Jerúsalem og í Yad Vashem minningasafnið um útrýmingu nazista á gyðingum.

Það er ekki fastur liður í heimsóknum háttsettra vestrænna gesta að fara að Grátmúrnum. Hann er í Austur-Jerúsalem sem Ísraelar hertóku í sex-daga-stríðinu árið 1967 en hernámið hefur ekki verið viðurkennt á alþjóðavettvangi

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …