Home / Fréttir / Trump hvatti til rannsóknar á Biden í Úkraínu

Trump hvatti til rannsóknar á Biden í Úkraínu

 

Donald Trump
Donald Trump

Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa sett af stað rannsókn gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta sem kann að leiða til ákæru um embættismissi á hendur honum. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, tilkynnti þetta að kvöldi þriðjudags 24. september. Símtal Trumps við Úkraínuforseta í júlí 2019 hefði verið dropinn sem fyllti mælinn. Forsetinn sakar demókrata um „nornaveiðar“.

Fyrir liggur að Donald Trump Bandaríkjaforseti bað starfsbróður sinn í Úkraínu um að rannsaka Joe Biden, fyrrv. varaforseta Bandaríkjanna og prófkjörsþáttakanda meðal demókrata um forsetaembættið. Þetta kemur fram í útskrift á símtali forsetanna frá því í júlí 2019 sem birt var miðvikudaginn 25. september.

Ítrekað þrýsti Donald Trump á Volodímír Zelenskíj forseta að eiga samstarf við Rudy Guiliani, einka-lögfræðing Trumps, og dómsmálaráðherra Bandaríkjanna við rannsókn á Joe Biden. Útdráttur úr símtalinu liggur nú fyrir opinberlega.

Í textanum er þetta haft eftir Trump: „Mikið er talað um son Bidens, að Biden hafi stöðvað rannsóknina [á honum] og margir vilja vita meira um það svo að hvaðeina sem þú getur gert með dómsmálaráðherranum yrði mikils metið.“

Trump sagði að ekki hefðu verið sett skilyrði um gagnkvæman greiða í símtalinu og ekki brotið á neinum. Zelenskij sagði miðvikudaginn 25. september „enginn þrýsti á mig“, við áttum aðeins „gott símtal“.

Gagnrýnendur Trumps segja að hann hafi lagt bann við afgreiðslu á hernaðaraðstoð til Úkraínu nema þar yrði hafin rannsókn á Biden. Í samtalinu lét Zelenskíj í ljós áhuga á að kaupa meiri vopn frá Bandaríkjunum áður en Trump beindi talinu að réttarvörslu í Úkraínu.

Grunur um að Trump hafi beðið erlend stjórnvöld að aðstoða sig við að ná endurkjöri með rannsókn á hugsanlegum andstæðingi sínum varð til þess að þingmenn demókrata ákváðu að hefja sakamála rannsókn innan þingsins gegn forsetanum.

Demókratinn Adam Schiff, formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildarinnar, sagði miðvikudaginn 25. september að útskriftin sýndi símtalið „mun skaðvænlegra“ en hann vænti og mætti líkja því við að erlendur ráðamaður fengi „mafíu-meðferð“.

Í símtalinu bar Trump lof á stuðning Bandaríkjamanna við Úkraínu og bætti við að Evrópumenn, einkum Þjóðverjar ættu að „gera miklu meira“.

„Þjóðverjar gera næstum ekkert fyrir ykkur. Þeir tala bara og mér finnst þetta eitthvað sem þið ættuð að ræða við þá. Þegar ég hitti Angelu Merkel talar hún um Úkraínu en gerir ekkert.“

Zelenskíj tók undir með Trump og sagði gagnrýni hans„1000% rétta“. Hann hefði beðið bæði Angelu Merkel kanslara og Emmanuel Macron Frakklandsforseta að ganga harðar fram í refsiaðgerðum gegn Rússum.

„Þau framfylgja ekki refsingunum. Þau leggja sig ekki nóg fram fyrir Úkraínu,“ sagði Zelenskíj og bætti við að Bandaríkjamenn væru mun meiri samstarfsmenn Úkraínumanna en Evrópuþjóðirnar þótt það ætti í raun að vera öfugt.

Rétt áður en útskriftin birtist sagði Trump á Twitter að hann teldi víst að demókratar bæðu sig afsökunar. „Munu demókratar biðjast afsökunar eftir að þeir sjá það sem sagt var við forseta Úkraínu? Þeir ættu að gera það, fullkomið símtal – kom þeim í opna skjöldu.“

Trump fullyrti að demókratar hefðu dregið upp mynd að símtali sínu við Zelenskíj eins og það væri „frá helvíti“, útdrátturinn sýndi hins vegar „innantómt símtal“.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …