Home / Fréttir / Trump gortar sig af óvinsældum í Evrópu

Trump gortar sig af óvinsældum í Evrópu

Donald Trump við ríkisstjórnarborðið í Hvíta húsinu. 2. janúar 2019. Á borðinu liggur áróðursspjald vegna þingkosninganna í nóvember 2018. Hugmydninni er stolið úr Krúnuleikunum. Orðin á spjaldinu vísa til nýrra refsiaðgerða gegn Írönum.
Donald Trump við ríkisstjórnarborðið í Hvíta húsinu. 2. janúar 2019. Á borðinu liggur áróðursspjald vegna þingkosninganna í nóvember 2018. Hugmydninni er stolið úr Krúnuleikunum. Orðin á spjaldinu vísa til nýrra refsiaðgerða gegn Írönum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti notaði fyrsta ríkisstjórnarfund sinn á nýju ári, miðvikudaginn 2. janúar 2019, til að ræða óvinsældir sínar í Evrópu. Hann sagði blaðamönnum sem fengu aðgang að fundarherberginu að honum stæði á sama um lítið traust á sér í skoðanakönnunum í Evrópu. Það fælist í starfi sínu að krefjast þess að Evrópumenn sýndu Bandaríkjamönnum meiri sanngirni.

„Þess vegna var ég kjörinn,“ sagði Trump og ítrekaði að Evrópuríki yrðu að leggja meira af mörkum til varnarmála. „Ég á ekki að njóta vinsælda í Evrópu. Nyti ég vinsælda í Evrópu væri ég ekki að sinna starfi mínu,“ sagði forsetinn.

Hann sagði Evrópuríki koma illa fram við Bandaríkin bæði í viðskiptum og varnarmálum. Hann skammaði forvera sína í forsetaembættinu fyrir að láta Bandaríkjamenn greiða fyrir öryggi annarra þjóða.„Þjóðverjar borga 1%, þeir ættu að borga 4%,“ sagði Trump um útgjöld Þjóðverja til varnarmála.

Í október 2018 birti Pew-rannsóknamiðstöðin skýrslu sem sýndi að aðeins 10% Þjóðverja, 9% Frakka, 7% Spánverja og 28% Breta líta jákvæðum augum á meðferð Trumps á alþjóðamálum.

Pew birti síðar nákvæmari úttekt á afstöðu Þjóðverja til Bandaríkjanna undir stjórn Trumps og þar töldu 73% aðspurðra að tvíhliða samskipti stjórnvalda Þýskalands og Bandaríkjanna væru slæm. Viðhorf Bandaríkjamanna eru hins vegar á þann veg að 70% telja samskiptin við Þjóðverja góð.

Trump sagðist vita um þessa neikvæðu afstöðu Evrópumanna í sinn garð en sér stæði á sama um hana. „Evrópumenn kjósa mig ekki; Bandaríkjamenn kjósa mig, bandarískir skattgreiðendur, réttara sagt,“ sagði Trump.

Hann sagði blaðamönnum að hann ætti enn góð samskipti við evrópska ráðamenn og hann teldi þá til vina sinna. Tónninn var annar í garð evrópsks almennings: „Við leggjum þessum þjóðum gífurlega mikið lið og þær ættu að minnsta kosti að sýna okkur virðingu. Vandinn var sá að þær sýndu okkur ekki virðingu.“

Forsetinn gortaði einnig og sagðist geta orðið vinsælasti maður Evrópu: „Ég gæti boðið mig fram til hvaða embættis sem ég vildi, ég vil það hins vegar ekki,“ sagði hann.

Frásögnin hér að ofan er reist á frétt þýsku fréttastofunnar Deutsche Welle af þessum fyrsta ríkisstjórnarfundi ársins í Washington. Þar beinist athyglin að því sem forsetinn sagði um Evrópu. Áherslan er önnur í frásögn The Washington Post (WP) af fundinum. Í blaðinu beinist athyglin að bandarískum innanlandsmálum og þeirri staðreynd að vegna ágreinings um fjárlagagreiðslur til landamæraveggjarins sem Trump vill reisa gagnvart Mexíkó hefur alríkisstarfsemi lamast að hluta í Bandaríkjunum í 13 daga. Nýtt þing með meirihluta demókrata í fulltrúadeildinni var sett fimmtudaginn 3. janúar. Hingað til hafa repúblikanar haft meirihluta í báðum deildum í stjórnartíð Trumps.

WP segir að í tengslum við ríkisstjórnarfundinn 2. janúar hafi forsetinn sett á svið 95 mínútna sýningu til að upphefja sjálfan sig og verja embættisverk sín og skoðanir, þar hafi hann beitt fölsunum og umskrifað söguna.

Þrátt fyrir að hafa áður hrósað Jim Mattis, fráfarandi varnarmálaráðherra og fjögurra stjörnu hershöfðingja, sem stjörnu-ráðherra í stjórn sinni, talaði forsetinn nú niður til hans og spurði: „Hvað hefur hann gert fyrir mig?“

Hann sagðist „í raun“ hafa rekið Mattis sem kom forsetanum og starfsmönnum í Hvíta húsinu á óvart með því að segja af sér með gagnrýnu afsagnarbréfi eftir að forsetinn tilkynnti allt í einu nú í desember að hann ætlaði að kalla alla bandaríska hermenn frá Sýrlandi.

Segir blaðið að Trump, sem aldrei hefur verið í hernum og komst hjá því að verða skyldaður til þátttöku í Víetnamstríðinu, hafi gefið til kynna að hann hefði sjálfur orðið góður hershöfðingi: „Ég held að ég hefði orðið góður hershöfðingi, hver veit?“ spurði Trump.

Hann þakkaði sér að olíuverð hefði lækkað: „Ég hringdi í nokkra einstaklinga og sagði þeim að láta fjandans olíuna og bensínið – þið látið þetta flæða, olíuna,“ sagði forsetinn.

Hann varði kröfu sína um fé til að reisa landamæravegginn. Hann tók líkingu til að gera lítið úr þeim demókrötum sem lýstu veggnum sem ósiðlegum með því að segja: „Þá verðum við að gera eitthvað vegna Vatíkansins, í kringum Vatíkanið er stærri veggur en á nokkrum öðrum stað.“

WP segir að þetta hafi verið óvenjulegur ríkisstjórnarfundur. Hann virtist frekar hafa verið haldinn til að beina athygli að forsetanum en til að ræða brýn úrlausnarefni stjórnvalda.

Forsetinn minnti á að hann hefði verið aleinn í Hvíta húsinu á aðfangadag „fyrir utan verðina hér við húsið með vélbyssur,“ sagði hann. Sér hefði þótt ófært að yfirgefa húsið vegna ágreiningsins um landamæravegginn.

Trump gerði lítið úr gagnrýni sem birtist í grein eftir repúblikanann Mitt Romney, nýkjörinn öldungadeildarþingmann, í WP þriðjudaginn 1. janúar. Sagði Trump að Romney ætti að leggja sig fram um að verða meiri „liðsmaður“ og taldi ólíklegt að nokkur eigin flokksmaður biði sig fram gegn sér árið 2020. „Þeir segja að ég sé vinsælasti forsetinn í sögu Repúblikanaflokksins,“ sagði Trump.

„Ég skal segja ykkur að allt væri þetta miklu auðveldara ef ég gerði ekkert, sæti bara og nyti þess að vera forseti eins og margir aðrir hafa gert,“ sagði Donald Trump sem oft er gagnrýndur fyrir að sinna fáum opinberum skyldum. Þótti honum ómaklegt hve litlar þakkir hann fengi fyrir það sem hann telur mikinn árangur á tveggja ára forsetaferli sínum.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …