
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði rússneskum embættismönnum í skrifstofu sinni miðvikudaginn 10. maí að brottrekstur James Comey, forstjóra FBI, hefði létt „miklum þrýstingi“ af sér, segir í frásögn af fundinum. Frá þessu var skýrt á vefsíðu The New York Times (NYT) föstudaginn 19. maí.
„Ég var rétt í þessu að reka forstjóra FBI. Hann var bilaður, sannkallaður bjálfi,“ sagði Trump ef marka má frásögnina sem bandarískur embættismaður las fyrir blaðamann NYT. „Á mér hvíldi mikill þrýstingur vegna Rússa. Hann er úr sögunni.“
Síðan bætti Trump við þessum orðum: „Ég er ekki undir rannsókn.“
Þriðjudaginn 9. maí hafði Trump rekið Comey, daginn fyrir fundinn með Rússunum. Efni frásagnarinnar af fundinum rennur enn stoðum undir þá skoðun að Trump hafi rekið Comey vegna rannsóknar á hugsanlegu leynimakki milli kosningastjórnenda sinna og útsendara Rússa. Trump gaf sama til kynna í sjónvarpsviðtali, misvísandi upplýsingar um brottreksturinn hafa borist frá skrifstofu forsetans í Hvíta húsinu.
Á vefsíðu NYT segir að skjalið úr Hvíta húsinu sem hafi geymt frásögnina um ummæli Trumps sé reist á punktum sem hafi verið settir á blað á fundinum í skrifstofu forsetans og síðan verið dreift sem opinberri frásögn af fundinum. Einn embættismaður las tilvitnun úr skjalinu fyrir blaðamann NYT og annar staðfesti umgjörð viðræðnanna.
Þegar NYT bar frásögnina undir Sean Spicer, talsmann forsetans, gerði hann ekki athugasemd við hana en sagði í yfirlýsingu að Comey hefði þrengt svigrúm forsetans til að eiga samskipti við Rússa um málefni Sýrlands, Úkraínu og Daesh.
„Með athyglissýki og stjórnmálavæðingu rannsóknarinnar á athöfnum Rússa þrengdi James Comey ónauðsynlega getu okkar til að stofna til viðræðna og semja við Rússa,“ sagði Spicer. „Rannsóknin hefði auðvitað haldið áfram og að sjálfsögðu hefði brottreksturs Comeys ekki bundið enda á hana. Enn einu sinni snýst málið í raun um að grafið hefur verið undan þjóðaröryggi okkar með að leka upplýsingum um einkaviðræður sem fóru fram í miklum trúnaði.“
NYT segir að þriðji embættismaðurinn í hópi viðmælanda blaðsins sem hafði upplýsingar um fundinn hafi varið forsetann og sagt að Trump hafi beitt samningatækni þegar hann sagði Lavrov frá „þrýstingnum“ sem hann væri beittur. Embættismaðurinn segir að fyrir Trump hafi vakað að kalla fram þá tilfinningu hjá Rússum að þeir skulduðu sér eitthvað og ýta þannig á eftirgjöf af hálfu Lavrovs – vegna Sýrlands, Úkraínu og annarra mála – enda hefðu afskipti Rússa af kosningunum í fyrra skapað Trump pólitísk stórvandræði.
Á vefsíðu tímaritsins Commentary segir föstudaginn 19. maí að þessi frétt í NYT sé það bitastæðasta sem birtist um vandræði Trumps vegna samskiptanna við Rússa þann daginn.
Um fundinn í Hvíta húsinu miðvikudaginn 10. maí segir The Commentary að hann hafi verið hörmulegur frá upphafi til enda. Strax fyrir hann hafi Trump reitt bandaríska blaðamenn til reiði með því að banna þeim að vera við upphaf hans. Síðan hafi það orðið vandræðalegt fyrir Trump og hans menn þegar kom í ljós að Rússar höfðu logið og laumað ljósmyndara inn á fundinn – hann var ekki aðstoðarmaður Lavrovs heldur starfsmaður ríkisfréttastofunnar TASS. Í Hvíta húsinu reiddust menn svo þegar TASS lak myndum frá fundinum. Þær birtust á forsíðum blaða um heim allan. Bandarísku embættismennirnir urðu miður sín þegar næst var lekið að Trump hefði skýrt fulltrúum ríkis utan bandamannahóps Bandaríkjanna frá trúnaðarupplýsingum um þjóðaröryggismál sem komu upphaflega frá Ísraelum. Nú komi loks í ljós að Trump hafi einnig montað sig af því að hafa rekið Comey og sagt að það hafi verið gert í þágu eigin hagsmuna og til að leggja stein í götu rannsóknar. „Þannig lýsir maður bombu,“ segir Commentary.
Hvað sem einhverjir álitsgjafar á hægri vængnum segja er Trump ekki fórnarlambið í þessu tilviki, segir Commentary sem almennt hallast að stuðningi við repúblíkana andstætt NYT. Trump sé sjálfum sér verstur og geti ekki hætt að gera sjálfum sér skráveifu. Þetta séu alvarlegar ásakanir og á þann veg ættu repubíkanar að fara með þær, í samræmi við alvöru þeirra. Geri þeir það ekki muni demókratar gera það. Virðist repúblíkanar fúsir til að veita Trump endalaust skjól gerist það fyrr en margir haldi að demókratar komi bylmingshöggi á boltann.
Heimild: NYT og Commentary,