Home / Fréttir / Trump fjölgar hermönnum í Afganistan

Trump fjölgar hermönnum í Afganistan

Donald Trump boðar framhald hernaðar í Afganistan.
Donald Trump boðar framhald hernaðar í Afganistan.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í ávarpi til þjóðarinnar mánudaginn 21. ágúst að Bandaríkjamenn væru orðnir þreyttir á að ekki hefði unnist sigur í lengsta stríði sem her þeirra hefur háð (16 ár) en boðaði þó framhald hernaðar í Afganistan og kynnti áform stjórnar sinnar í Suður-Asíu.

Trump sagði að Bandaríkjamenn yrðu að vinna að virðingarverðri og varanlegri niðurstöðu í Afganistan sem sæmdi fórnum sem þar hefðu verið færðar. Hann sagði að færi Bandaríkjaher á brott með hraði yrði til tómarúm sem vígamenn mundu fylla.

Forsetinn gagnrýndi Pakistani og sagði að í landi sínu hefðu þeir skapað öruggt skjól fyrir „útsendara upplausnar“.

Ríkisstjórn Afganistans fagnaði boðskap forsetans þriðjudaginn 22. ágúst en talsmenn Talíbana, öfga-múslima í Afgangistan, sögðu að landið yrði „grafreitur bandaríska heimsveldisins“.

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ræddi stöðuna í Afganistan sunnudaginn 20. ágúst. Hann sagðist hins vegar mjög sáttur við þá stefnu sem hefði verið mótuð. Mattis lagði áherslu á að forsetinn hefði ekki aðeins mótað stefnu varðandi Afganistan heldur alla Suður-Asíu.

Um þessar mundir eru um 8.400 bandarískir hermenn í Afganistan. Mánudaginn 21. ágúst staðfesti Trump áætlun Mattis um að senda 4.000 bandaríska hermenn sem liðsauka til Afganistan. Hermennirnir eru ekki beinir  þátttakendur í átökum við Talibana heldur leggja þeir afganska hernum lið með aðstoð og þjálfun.

Frá bandaríska utanríkisráðuneytinu bárust þær fréttir mánudaginn 21. ágúst að Rex Tillerson utanríkisráðherra hefði rætt í síma við Shahid Khaqan Abbasi, forsætisráðherra Pakistans, Sushma Swaraj, utanríkisráðherra Indlands, og Salahuddin Rabbani, utanríkisráðherra Afganistan, um hvernig Bandaríkjastjórn vildi haga samstarfi sínu við stjórnvöld þessara landa til að skapa stöðugleika í Suður-Asíu.

Í upphafi ávarps síns sagði Trump að hann treysti venjulega á eðlisávísun sína, og hún segði sér að Bandaríkjamenn ættu að hverfa frá Afganistan. Hann sagðist hins vegar hafa kynnt sér stöðuna nákvæmlega með hershöfðingjum sínum og afstaða sín hefði breyst.

Í kosningabaráttunni árið 2016 sagði Trump hvað eftir annað að Bandaríkjaher ætti að hverfa frá Afganistan og nýta ætti fjármuni sem spöruðust við það til fjárfestinga innan Bandaríkjanna.

Samhliða því sem Trump gagnrýndi Pakistani harðlega hvatti hann Indverja til að leggja fram fjármuni til að endurreisa Afganistan.

Trump tók fram að Bandaríkjamenn hefðu ekki gefið út „óútfyllta ávísun“ fyrir Afgana og þeir mundu ekki taka þátt í því sem á ensku er nefnt nation-building það er að endurreisa innviði og stjórnkerfi landsins. Trump hefur harðlega gagnrýnt forvera sína í Hvíta húsinu fyrir að sóluna skattfé Bandaríkjamanna á þennan hátt.

Stuðningur frá NATO

Eftir að Trump hafði kynnt stefnu sína sendi Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, frá sér yfirlýsingu og tók undir orð forsetans um að bandamenn Bandaríkjanna yrðu einnig að leggja sitt af mörkum. Stoltenberg sagði að NATO mundi vinna að því.

Hann benti á að bandalagsþjóðirnar og samstarfsþjóðir þeirra hefðu nú þegar skuldbundið sig til að fjölga hermönnum í Afganistan. Nú væru rúmlega 12.000 hermenn undir merkjum NATO í Afganistan. Undanfarið hefðu rúmlega 15 ríkisstjórnir skuldbundið sig til að auka framlag sitt. Sérstök áhersla yrði lögð á þjálfun sérsveita í afgangska hernum og afganska flughersins auk endurbóta á aðferðum við stjórn heraflans.

Stoltenberg minnti á að rekja mætti viðveru undir merkjum NATO í Afganistan til árásanna í New York og Washington 11. september 2001. Þá hefði 5. gr. NATO-sáttmálans um gagnkvæmar varnarskyldur aðildarríkjanna verið virkjuð í fyrsta sinn. Hundruð þúsundir hermanna frá Evrópu, Kanada og samstarfsþjóðum hefðu starfað við hlið bandarískra hermanna og rúmlega 1.000 hefðu týnt lífi í Afganistan.

Nú væri staðan sú í Afganistan að með aðstoð NATO væru um 350.000 manns undir vopnum í her og lögreglu landsins. Afganir hefðu árið 2014 sjálfir tekið ábyrgð á stjórn öryggismála í landi sínu. Nú á tímum nytu þeir aðstoðar við þjálfun, ráðgjafar störfuðu með þeim og veittu aðstoð auk þess nytu þeir fjárhagslegrar aðstoðar. Markmiðið væri að hindra að Afganistan yrði að nýju skjól fyrir hryðjuverkamenn sem réðust á NATO-ríkin.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …