
Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti jómfrúarræðu sína á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þriðjudaginn 19. september og kallaði Kim Jong-un leiðtoga Norður-Kóreu „rakettu-kall“ í sjálfseyðingarleiðangri. Hann varaði við því að héldu ráðamenn í N-Kóreu áfram á sömu braut kynni það að leiða til gjöreyðingar lands þeirra.
„Purkunarlaus sókn Norður-Kóreumanna eftir kjarnorkuvopnum og langdrægum eldflaugum ógnar öllum heiminum með ógnvænlegu mannfalli,“ sagði Trump í ræðunni.
„Engin þjóð á jarðarkringlunni hefur hag af því að þessi glæpahópur vígvæðist með kjarnorkuvopnum og eldflaugum. Bandaríkjamenn búa yfir miklum styrk og þolinmæði en neyðist þeir til að verja sjálfa sig eða bandamenn sína eigum við aðeins þann kost að leggja Norður-Kóreu algjörlega í rúst,“ sagði forsetinn.
„Rakettukallinn er í sjálfseyðingarleiðangri sínum og stjórnar sinnar,“ bætti hann við.
Sendiherra Norður-Kóreu yfirgaf fundarsalinn áður en Trump kom þangað og var stóll hans auður í 42 mínútur á meðan forsetinn flutti ræðu sína.
Forsetinn fór ekki síður hörðum orðum um ríkisstjórn Írans sem hann lýsti sem spilltri einræðisstjórn sem feldi sig á bakvið blekkingarhulu lýðræðis. „Hún hefur breytt auðugu landi með glæsilega sögu og menningu í stjórnlaust fátæktarríki sem flytur einkum út ofbeldi, blóðbað og upplausn,“ sagði Trump.
Hann sagði að Íransstjórn hefði notað mikla fjármuni sína til að fjármagna hryðjuverkahópa sem „drepa saklausa múslima og ráðast á friðsama nágranna sína, jafnt araba og Ísraela“. Forsetinn bætti við:
Við getum ekki látið morðóða stjórn halda áfram að grafa undan á þennan hátt og smíða á sama tíma hættulegar eldflaugar og við getum ekki farið að samningum sem eru í raun ekki annað en skjól fyrir væntanlega kjarnorkuáætlun.“
Bandaríkjaforseti vék einnig að átakastöðum í heiminum, þar á meðal Venezúela. Hann sagði: „Sósíalísk einræðisstjórn Nicolas Maduros hefur leitt mikinn sársauka og miklar þjáningar yfir ágæta íbúa lands síns. Vandinn í Venezúela er ekki að þar hafi verið staðið illa að framkvæmd sósíalismans heldur að sósíalisminn hefur verið framkvæmdur af kostgæfni.“
Forsetinn kom víða við í ræðu sinni. Hann minntist á skaðann sem nýlegir hitabeltisstormar hefðu valdið og fór einnig orðum um stefnu sína undir kjörorðinu: Bandaríkin fyrst. Þá lýsti hann einnig afstöðu sinni til fullveldis:
„Við verðum að standa vörð um þjóðir okkar, hagsmuni þeirra og framtíð. Við verðum að standa gegn öllum hótunum gegn fullveldi ríkja allt frá Úkraínu til Suður-Kínahafs. Við verðum að tryggja virðingu fyrir lögum, fyrir landamærum og fyrir menningu auk inntaksins sem í þessu öllu felst í þágu friðsamlegra aðgerða. Í anda þeirra sem stofnuðu þessi samtök eigum við að vinna saman og standa saman gegn þeim sem ógna okkur með ringulreið, upplausn og hryðjuverkum.“
Stjórnmálafræðingurinn Thomas Whalen við Boston-háskóla sagði við bandarísku VOA-fréttastofuna að ræðunni yrði vafalaust vel tekið meðal íhaldssamra stuðningsmanna Trumps en hún kynni að mælast illa fyrir á alþjóðavettvangi.
„Fyrir utan að skammast út í stjórnir Norður-Kóreu og Írans eins og við var að búast gerði Trump mikið úr sýn sinni á „þjóðlegt fullveldi“ sem er óhagstætt fyrir fjölþjóðleg viðskipti og hnattvæðinguna almennt,“ sagði Whalen. „Raunar fór Trump ekkert leynt með að hann setur Bandaríkin í fyrsta sæti. Það kemur í ljós hvort þetta stuðlar að betri og öruggari heimi.“
Zalmay Khalilzad, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ í forsetatíð George W. Bush, lét ræðuna ekki raska ró sinni. Hann sagði að ein forsetaræða hefði lítil ef nokkur áhrif á orðspor Bandaríkjanna gagnvart öðrum þar sem það væru stefnumálin sem réðu mestu um afstöðu flestra ríkisstjórna til Bandaríkjanna. Stefnumálin væru ekki bundin við eitt stjórnartímabil í Washington og því síður við orð eða athafnir eins forseta.