Home / Fréttir / Trump „fellst á“ að Rússar voru að verki segir liðsstjóri hans

Trump „fellst á“ að Rússar voru að verki segir liðsstjóri hans

Chris Wallace, þáttarstjórnandi Fox, og Reince Priebus, liðsstjóri Trumps.
Chris Wallace, þáttarstjórnandi Fox, og Reince Priebus, liðsstjóri Trumps.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, „fellst á“ niðurstöðu öryggis- og leyniþjónustustofnana um að Rússar hafi stundað tölvuárásir í forsetakosningabaráttunni árið 2016 segir, verðandi liðsstjóri forsetans.

Priebus lét þessi orð falla í þættinum Fox News on Sunday 8. janúar. Varð hann fyrstur nánustu samstarfsmanna forsetans verðandi til að viðurkenna að Rússar hefðu sérstaklega beitt sér vegna kosninganna 8. nóvember 2016.

„Hann fellst á þá niðurstöðu að aðilar innan Rússlands hafi átt hlut að máli í þessu sérstaka máli, þetta er ekki umdeilt,“ sagði Priebus.

Áður hafði Trump gengið lengst með því að segja Rússa og Kínverja í hópi þeirra sem réðust á Bandaríkin í netheimum.

„Rússar, Kínverjar og aðrar þjóðir, ýmsir hópar og einstaklingar reyna stöðugt að brjótast í gegnum tölvuvarnir ríkisstofnana okkar, fyrirtækja og stofnana á borð við stjórn Demókrataflokksins,“ sagði Trump eftir að hafa rætt við forstjóra öryggis- og leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna föstudaginn 6. janúar.

Liðsstjóri Trumps sagði að Rússar hefðu nýtt sér veikar varnir Demókrataflokksins gegn tölvuárásum. FBI hefði margsinnis hvatt flokkinn til að efla varnir sínar en hvatningar alríkislögreglunnar hefðu verið hafðar að engu. Demókratar gætu því sjálfum sér um kennt og fráleitt væri að Trump hefði sigrað Hillary Clinton vegna stuðnings Rússa.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …