
Donald Trump Bandaríkjaforseti rak Reince Priebus, liðsstjóra sinn og fyrrv. formann stjórnar Repúblikanaflokksins, föstudaginn 28. júlí og réð John Kelly, fyrrverandi yfirhershöfðingja landgönguliðs Bandaríkjahers, í hans stað. Kelly sat í ríkisstjórninni sem Trump skipaði í janúar og gegndi embætti heimaöryggisráðherra (Secretary of Homeland Security)þ
Donald Trump og John Kelly hittust fyrst í nóvember nokkrum dögum eftir að Trump var kjörinn forseti og eftir liðsstjóraskiptin ber öllum fjölmiðlum og álitsgjöfum saman um að Trump líki vel við Kelly og treysti honum. Hitt sé svo annað mál hvort Trump hlusti á Kelly eftir að hann tekur til við að stjórna liðsmönnum forsetans
Kelly kemur til dyranna eins og hann er klæddur og segir skoðun sína vafningalaust. Hann er frá Boston og hafði verið í landgönguliði hersins í 45 ár. Ferli hans þar lauk með leiðindum í janúar 2016 eftir að Kelly hafði oftar einu sinni lent upp á kant við embættismenn Baracks Obama Bandaríkjaforseta.
Fjögurra stjörnu hershöfðinginn hikaði ekki við andmæla áætlun Obama um að loka Guantanamo-fangelsinu á Kúbu. Hann var einnig ósammála stefnu Obama í útlendingamálum og vildi herta landamæravörslu og jafnframt lýsti hann sérskoðun um eðli hryðjuverkaógnarinnar sem steðjaði að Bandaríkjunum.
Í The Washington Post er haft eftir ónafngreindum vini Kellys: „Hann veit hvernig á að taka á þessu: með heilbrigðri skynsemi og góðri forystu. Hann þolir hvorki asna né fífl.
Lokaverkefni Kellys innan hersins var að stjórna Suðurherstjórn Bandaríkjanna í Miami. Þar öðlaðist hann mikla þekkingu á glæpaklíkunum sem tröllríða Suður-Ameríku, Mið-Ameríku og á Karabískahafinu og smygleiðum þeirra á fíkniefnum, vopnum og fólki – sem liggja norður til Bandaríkjanna um Mexíkó. Hann hefur lengi sagt að alþjóðlegir glæpahringir séu ein helsta ógnin við þjóðaröryggi Bandaríkjanna.