Home / Fréttir / Trump: Engin sjálfkrafa ákvörðun um vörn í þágu NATO-bandamanna – spyrja ber hvort þeir hafi staðið við sitt gagnvart Bandaríkjunum

Trump: Engin sjálfkrafa ákvörðun um vörn í þágu NATO-bandamanna – spyrja ber hvort þeir hafi staðið við sitt gagnvart Bandaríkjunum

Donald Trump
Donald Trump

Donald Trump, forsetaefni repúblíkana, sagði í viðtali við The New York Times (NYT) sem birtist fimmtudaginn 21. júlí að hann mundi hugsa sig um tvisvar áður en hann gæfi bandaríska hernum fyrirmæli um að verja bandalagsríki Bandaríkjanna í NATO. Ekkert yrði gert sjálfkrafa í þeim efnum heldur mundi hann fyrst kanna hvert framlag viðkomanda ríkja til bandalagsins væri.

Í blaðinu segir að Trump hafi lagt áherslu á þá hörðu þjóðernisstefnu sem hafi einkennt baráttu hans fyrir tilnefningunni sem þótti ólíkleg í upphafi. Hann hafi lýst því hvernig hann mundi neyða bandamennina innan NATO til að taka á eigin herðar kostnað vegna varnarmála sem hafi um áratuga skeið hvílt á Bandaríkjamönnum. Hann mundi slíta gamalgrónum samningum sem hann teldi óhagstæða fyrir Bandaríkjamenn og endurskilgreina inntak þess að vera samstarfsaðili Bandaríkjamanna.

Hann sagði að önnur ríki heims mundu læra að laga sig að stefnu hans: „Ég mundi frekar vilja halda áfram“ á grundvelli gildandi samninga, sagði hann, en aðeins ef bandamennirnir hættu að færa sér í nyt örlæti sem væri nú Bandaríkjamönnum um megn.

Trump flutti flokksþingi repúblíkana stefnuræðu sína að kvöldi fimmtudags 21. júlí. Í samtalinu við NYT sagðist hann mundu leggja þar áherslu á slagorð sitt America First og hann væri til þess búinn að slíta NAFTA-samningnum um frjálsa verslun við Mexíkó og Kanada næðist ekki samkomulag um róttæka breytingu á honum Bandaríkjamönnum í hag.

Hann var spurður um stöðu Eystrasaltsríkjanna sem sættu yfirgangi af hálfu Rússa. Trump sagði að réðust Rússar á þau mundi hann ákveða hvort hann kæmi þeim til hjálpar eftir að hafa gengið úr skugga um hvort þau hefðu „staðið við skuldbindingar sínar gagnvart okkur“. Hann bætti við: „Hafi þau staðið við skuldbindingar sínar gagnvart okkur er svarið já.“

Trump viðurkenndi að afstaða sín til þess hvernig haga bæri samskiptum við bandamenn og andstæðinga Bandaríkjanna væri allt önnur en áður hefði verið af hálfu repúblíkana. Segir NYT að frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafi forsetaframbjóðendur þeirra nær undantekningarlaust lagt áherslu á opna utanríkisstefnu með Bandaríkin sem tryggingu fyrir friði, „ómissandi þjóðin“ hafi Bandaríkjamenn gjarnan verið kallaðir.

„Við erum ekki núna stödd fyrir 40 árum,“ sagði Trump og hafnaði samanburði á afstöðu sinni til gæslu laga og réttar og heimsmála og afstöðu Richards Nixons. Hann ítrekaði hótun sína um að kalla heim bandarískan herafla frá öðrum löndum og sagði: „Við verjum stórfé til hermála til að tapa 800 milljörðum dollara,“ og vitnaði þar til þess sem hann kallar tap Bandaríkjamanna á alþjóðaviðskiptum. „Mér finnst það ekki mjög sniðugt.“

Í samtalinu skilgreindi Trump alþjóðahagsmuni Bandaríkjamanna næstum alfarið frá fjárhagslegum sjónarhóli. Væri hann spurður um hlutverk þeirra við gæslu friðar, sem kjarnorkuveldis með fælingarmátt gagnvart ríkjum á borð við Norður-Kóreu. sem málsvara mannréttinda og ábyrgðaraðila vegna landamæra bandamanna sinna hóf hann fljótt vangaveltur um fjárhagslegan ávinning Bandaríkjamanna.

NYT segir að enginn forsetaframbjóðandi í samtímanum hafi forgangsraðað á þennan veg við stefnumótun Bandaríkjanna. Á flokksþinginu í Cleveland hafi margir ræðumenn hvatt til meiri íhlutunar af hálfu Bandaríkjanna í anda George W. Bush frekar en Trumps.

Blaðið segir að Trump hafi hvergi slegið af stefnu sinni, hvort sem rætt var um mótvægi við eldflaugar og kjarnorkuhótanir frá Norður-Kóreu eða samskipti við Kínverja á Suður-Kínahafi. Hann sagði vissulega æskilegt að bandarískur herafli væri á fjarlægum slóðum en það væri ekki nauðsynlegt.

„Ef við teljum nauðsynlegt að verja Bandaríkin getum við alltaf beitt heraflanum“ frá bandarísku landi, sagði Trump „og það verður miklu ódýrara.“

NYT segir að það sem Trump hafði að segja um ástandið í Tryklandi sé upplýsandi. Þar gerðust nú atburðir sem krefðust tafarlausrar afstöðu. Bandaríkjamenn eigi stóra flugherstöð í Incirlik í Tryklandi. Þaðan séu þotur sendar til loftárása á Daesh, Bandaríkjamenn eigi þar flota af drónum og um 50 kjarnorkuvopn.

Trump hrósaði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta og sagði:„ Ég ber lof á hann fyrir að geta kveðið þetta niður,“ sagði Trump um valdaránstilraunin að kvöldi föstudags 15. júlí. „Sumir segja að þetta hafi verið sviðsett, ég held að það sé ekki rétt.“

Þegar Trump var spurður hvort Erdogan nýtti sér atburðinn til að hreinsa pólistíska andstæðinga sína úr opinberum stöðum hvatti hann forsetanna ekki til að fara að lögum heldur sagði: „Þegar heimurinn sér hve ástandið er slæmt í Bandaríkjunum og við tökum til við að ræða um borgararleg réttindi finnst mér við ekki mjög góður boðberi.“

Trump sagðist sannfærður um að hann gæti fengið Erdogan til að leggja meira að sér í baráttunni gegn Daesh. Þegar hann var spurður hvernig hann ætlaði að gera það hugsaði hann sig um og svaraði síðan: „Fundir.“

Hann sagðist hafa rætt við tvo fyrrverandi utanríkisráðherra úr röðum repúblíkana: James A. Baker III og Henry Kissinger og fræðst mikið af þeim. Hann sagðist ætla að efla Bandaríkjaher og hefja fyrst endurbætur á kjarnorkuheraflanum. „Við eigum mikið af úreltum vopnum. Við eigum meira að segja kjarnorkuvopn sem enginn veit hvernig virka.“

NYT segir að ríkisstjórn Obama hafi ráðist í endurnýjun bandaríska heraflans og einbeitt sér í fyrstu að kjarnorkuheraflanum en það kosti mikið fé að uppfæra sprengjuflugvélar og kafbáta. Reikningurinn risavaxni, 500 milljarðar dollara eða meira, muni lenda á borði næsta forseta landsins.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …