Home / Fréttir / Trump dregur í land – sætir harðri gagnrýn njósnaforingja

Trump dregur í land – sætir harðri gagnrýn njósnaforingja

Forsetar Bandaríkjanna og Víetnam í Hanoi.
Forsetar Bandaríkjanna og Víetnam í Hanoi.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði laugardaginn 11. nóvember í flugvél á leiðinni frá Danang í Víetnam til höfuðborgarinnar Hanoi að hann tryði Vladimír Pútín Rússlandsforseta þegar hann segðist ekki hafa blandað sér í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á árinu 2016.

Sunnudaginn 12. nóvember var Trump í Hanoi á blaðamannafundi með Tran Dai Quang, forseta Víetnams. Þar virtist Trump reyna að milda ummæli sín frá deginum áður með því að segja. „Það sem ég sagði var að ég héldi að [Pútín] trúi þessu. Hvort ég trúi þessu eða ekki, þá stend ég með [njósna]stofnunum okkar, einkum eins og þær eru nú mannaðar. Ég vil geta unnið með Rússum. Ég vil ekki standa og deila við einhvern með blaðamenn allt um kring.“

Engir blaðamenn fengu aðgang að fundarsalnum þar sem leiðtogar APEC-ríkjanna hittust í Danang, segir í frásögn The Washington Post (WP) af ummælum Trumps í ferð hans um Asíulönd sunnudaginn 12. október en þann dag hélt hann frá Hanoi til Manilla á Filippseyjum.

Að morgni sunnudagsins lét Trump verulega að sér kveða á Twitter og gerði meðal annars lítið úr Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu. Kim Jong-un hafði endurtekið að hann liti á Trump sem dotard. Þetta orð er notað um þá sem eru gamlir og með vott að heilabilun. Trump er 71 árs. Hann svaraði á Twitter:

„Hvers vegna móðgar Kim Jong-un mig með því að kalla mig „gamlan“ þegar ég mundi ALDREI kalla hann „stuttan og feitan“? Jæja þá, ég legg mig fram um að verða vinur hans – og kannski verðum við það einhvern daginn!“

Trump lét ekki við þetta sitja heldur vék hörðum orðum að þeim sem gagnrýna samband hans við ráðamenn í Moskvu, sagði hann þá „hatursfulla og vitlausa“ sem skildu ekki mikilvægi þess að eiga góð samskipti við Rússa.

Laugardaginn 11. nóvember lýsti Trump fyrrverandi yfirmönnum bandarískra njósnastofnana sem komust að þeirri niðurstöðu í janúar 2017 að íhlutun hefði átt sér stað í kosningabaráttuna 2016 – þar á meðal James R. Clapper, æðsta yfirmann njósna í Bandaríkjunum og John Brennan, fyrrv. yfirmann CIA – sem „stjórnmálaþrjótum“. Hann kallaði fyrrverandi forstjóra FBI, James B. Comey, sem bar fyrir bandarískri þingnefnd að Trump hefði beðið sig að hætta rannsókn á tengslum stjórnenda kosningabaráttu hans við Rússa „lygara“ og „lekasmið“.

Clapper sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að forsetinn hefði fengið skýra og afdráttarlausa sönnun fyrir því að Rússar hefðu blandað sér í kosningarnar. Yfirmenn njósnastofnana sem hann hefði sjálfur skipað, þ. á m. CIA, hefðu staðfest niðurstöður starfsmanna stofnananna. „Sú staðreynd að hann trúir Pútin en ekki njósnastofnunum sínum er óforsvaranleg.“

CIA sendi frá sér yfirlýsingu þar sem segir að Mike Pompeo, forstjóri CIA sem Trump skipaði, sé „sammála og hafi alltaf verið sammála mati njósnastofnananna frá 2017 … varðandi afskipti Rússa að kosningunum“. Þessi afstaða hefði „ekki breyst“.

Michael V. Hayden, fyrrverandi forstjóri CIA, sagðist hafa brugðið svo við yfirlýsingu Trumps að hann hefði haft samband við CIA til að kanna hvort stofnunin stæði við mat sitt frá janúar 2017. Hann lýsti ummælum Trumps sem „svívirðingum í garð fólks sem gegnt hefði opinberum störfum … almenningur ætti að vita að þarna eru gegnheilir sérhæfðir starfsmenn á ferð, það sem forsetinn átti ósagt er þeir menn sem hann skipaði í þessi störf eru sammála þessum svokölluðu þrjótum“.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …