Home / Fréttir / Trump boðar riftun samnings um meðaldrægar kjarnaflaugar

Trump boðar riftun samnings um meðaldrægar kjarnaflaugar

 

Mikhail Gorbatsjov og Ronald Reagan rita undir INF-samninginn árið 1987.
Mikhail Gorbatsjov og Ronald Reagan rita undir INF-samninginn árið 1987.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti laugardaginn 20. október að Bandaríkjastjórn mundi rifta samningnum um meðaldrægar kjarnorkuflaugar (Intermediate-Range Nuclear Forces Treaty (INF)) sem hún gerði við Rússa árið 1987. Sakar forsetinn Rússa um að hafa samninginn að engu.

„[Rússar] hafa árum saman brotið gegn samningnum. Ég veit ekki hvers vegna Obama forseti samdi ekki að nýju eða sagði sig frá honum,“ sagði forsetinn eftir að hafa tekið þátt í kosningafundi í Elko í Nevada-ríki. „Við ætlum ekki að láta þá brjóta gegn kjarnorkusamningi og smíða vopn en okkur sé bannað að gera það. Við ætlum að rifta samningnum og síðan ætlum við að þróa vopnin.“

Trump gaf til kynna að hann gæti skipt um skoðun ef Rússar og Kínverjar vildu skrifa undir nýjan samning. Kínverjar eiga ekki aðild að núgildandi samningi.

„Við verðum að þróa þessi vopn nema Rússar komi til móts við okkur og Kínverjar komi til móts við okkur, þeir komi til okkar og segi nú skulum vera sniðugir og enginn okkar þróa þessi vopn, séu Rússar að því, séu Kínverjar að því og við stöndum við samninginn er það óviðunandi.“

INF-samningurinn þótti marka þáttaskil árið 1987 þegar þáv. forsetar Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov rituðu undir hann í Washington. Í honum felst bann við að eiga, framleiða og gera tilraunir með stýrflaugar á skotpöllum á landi dragi þær 500 til 5.500 km.

Svar Rússa við yfirlýsingu Trumps um riftun samningsins var að Bandaríkjastjórn vildi tryggja sig í sessi sem stjórn eina risaveldis heimsins.

„Helsta markmiðið er að láta drauminn um einpóla heim rætast. Gerist það?“ spurði rússneska ríkisfréttastofan RIA Novosti og vitnaði í starfsmann utanríkisráðuneytisins. „Þessi ákvörðun er aðeins einn liður í stefnu Bandaríkjastjórnar um að segja sig frá þeim alþjóðasamningum sem setja hana í sömu stöðu og samstarfsaðila hennar og skapa sér eigin „sérstöðu“.“

Rússneski öldungadeildarþingmaðurinn Alexei Pushkov fór á Twitter og fordæmdi ákvörðunina „sem annað öfluga höggið gegn öllu kerfinu sem tryggir strategískan stöðugleika í heiminum“. Fyrra höggið var að hans mati þegar Bandaríkjastjórn sagði sig árið 2002 frá samningnum um bann við eldflaugavörnum.

Sergei Rjabkov vara-utanríkisráðherra sagði ríkisfréttastofunni TASS að fyrirhuguð aðgerð Trumps væri hættuleg.

„Þetta yrði mjög hættulegt skref sem ég er viss um að nýtur ekki skilnings í alþjóðasamfélaginu og kallar þar að auki fram alvarlega fordæmingu.“

Trump lét orð sín um riftun INF-samningsins falla skömmu áður en John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi hans, heldur í heimsókn til Rússlands, Azerbaijdsan, Armeníu og Georgíu.

Talið er að í Moskvu hefji Bolton að undirbúa annan fund Trumps og Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta. Engar dagsetningar hafa þó enn verið nefndar vegna þess fundar. Hann kynni að verða 11. nóvember þegar Trump og Pútín verða í París til að minnast þess að 100 ár eru frá lyktum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þá hefur einnig verið nefnt að þeir kunni að hittast í Buenos Aires í Argentínu í tengslum við G20 leiðtogafundinn þar 30. nóvember.

Nánar um samninginn

Bandaríkjastjórn fullyrðir að Rússar hafi brotið samninginn með nýju meðaldrægu flugskeyti sem þeir kalla Novator 9M729 en kallað er SSC-8 af NATO.

Með flauginni geta Rússar gert kjarnorkuárás á NATO-ríki með mjög skömmum fyrirvara.

BBCsegir að Rússar hafi lítið sagt um þetta nýja flugskeyti annað en að neita að þeir brjóti gegn INF-samningnum með því. Sérfræðingar segi hins vegar að Rússar telji flaugarnar ódýrari kost en hefðbundinn herafla.

Í The New York Timesvar sagt föstudaginn 19. október að Bandaríkjastjórn íhugaði að segja sig frá samningnum til að geta betur mætt hervæðingu Kínverja á vesturhluta Kyrrahafs. Kínverjar standa utan samningsins og geta því þróað meðaldrægar flaugar að eigin vild.

Eftir að George W. Bush sagði Bandaríkin frá samningnum um bann við eldflaugavörnum (ABM-samningnum) árið 2002 hófst stjórn hans handa við að koma á fót eldflaugavarnakerfi í Evrópu. Stjórn Obama féll frá gerð þessa kerfis árið 2009. Ný gerð af því kom til sögunnar árið 2016.

Áður en INF-samningurinn var gerður hafði spennan magnast í nokkur ár vegna þess að Sovétstjórnin setti upp skotpalla fyrir SS-20 flaugar sem náðu til skotmarka í Evrópu. Bandaríkjamenn svöruðu þessu með því að koma Pershing- og Cruise-stýriflaugum fyrir í Evrópu. Kom til mikilla mótmæla vegna þess og til urðu „friðarhreyfingar“ með stuðningi Sovétmanna.

Árið 1991 höfðu tæplega 2.700 flugskeyti verið eyðilögð. Stjórnum aðildarríkjanna var heimilt að senda eftirlitsmenn á vettvang til að sannreyna að við samninginn væri staðið.

Vladimir Pútín sagði árið 2007 að samningurinn þjónaði ekki lengur hagsmunum Rússa.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …