
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur boðað þátttöku sína í ríkisoddvitafundi NATO í Brussel 25. maí. Verður þetta fyrsta utanlandsferð Trumps eftir að hann tók við embætti forseta 20. janúar.
„Forsetinn fagnar því að fá tækifæri til að hitta forystumenn annarra NATO-ríkja í því skyni að staðfesta öfluga hollustu okkar við NATO og til að ræða málefni sem skipta bandalagið miklu, einkum sameiginlegt átak og hlutverk NATO í baráttunni við hryðjuverkamenn,“ sagði Sean Spicer, talsmaður forsetans þriðjudaginn 21. mars.
Fyrr þennan sama þriðjudag hafði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, skýrt frá dagsetningu ríkisoddvitafundarins. Stoltenberg fer til fundar við Trump í Hvíta húsinu 12. apríl.
Áður en hann varð forseti lýsti Trump NATO sem „úreltu“ en eftir að hann tók við embætti hefur hann lýst mikilvægi NATO á fundum með Theresu May, forsætisráðherra Breta, og Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Forsetinn vill að NATO-ríkin standi við fjárhagslegar skuldbindingar sínar um að auka útgjöld sín til varnarmála í 2% af vergri landsframleiðslu fyrir árslok 2024.
Bandaríska utanríkisráðuneytið tilkynnti þriðjudaginn 21. mars að Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, verði ekki á utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna 5. og 6. apríl í Brussel. Miðvikudaginn 22. mars hittir hann marga utanríkisráðherra NATO-ríkja á fundi í Washington þar sem þeir sitja fund ríkja sem hafa tekið höndum saman gegn Daesh (Ríki íslams).