Home / Fréttir / Trump boðar komu sína á ríkisoddvitafund NATO í lok maí

Trump boðar komu sína á ríkisoddvitafund NATO í lok maí

Fundur í höfuðstöðvum NATO
Fundur í höfuðstöðvum NATO

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur boðað þátttöku sína í ríkisoddvitafundi NATO í Brussel 25. maí.  Verður þetta fyrsta utanlandsferð Trumps eftir að hann tók við embætti forseta 20. janúar.

„Forsetinn fagnar því að fá tækifæri til að hitta forystumenn annarra NATO-ríkja í því skyni að staðfesta öfluga hollustu okkar við NATO og til að ræða málefni sem skipta bandalagið miklu, einkum sameiginlegt átak og hlutverk NATO í baráttunni við hryðjuverkamenn,“ sagði Sean Spicer, talsmaður forsetans þriðjudaginn 21. mars.

Fyrr þennan sama þriðjudag hafði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, skýrt frá dagsetningu ríkisoddvitafundarins. Stoltenberg fer til fundar við Trump í Hvíta húsinu 12. apríl.

Áður en hann varð forseti lýsti Trump NATO sem „úreltu“ en eftir að hann tók við embætti hefur hann lýst mikilvægi NATO á fundum með Theresu May, forsætisráðherra Breta, og Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Forsetinn vill að NATO-ríkin standi við fjárhagslegar skuldbindingar sínar um að auka útgjöld sín til varnarmála í 2% af vergri landsframleiðslu fyrir árslok 2024.

Bandaríska utanríkisráðuneytið tilkynnti þriðjudaginn 21. mars að Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, verði ekki á utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna 5. og 6. apríl í Brussel. Miðvikudaginn 22. mars hittir hann marga utanríkisráðherra NATO-ríkja á fundi í Washington þar sem þeir sitja fund ríkja sem hafa tekið höndum saman gegn Daesh (Ríki íslams).

Skoða einnig

Sameinaður norrænn flugherafli að fæðast

Norrænu ríkin fjögur, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, hafa ákveðið að dýpka samstarf flugherja sinna. …