Home / Fréttir / Trump berst til síðasta dags

Trump berst til síðasta dags

 

Donald Trump á kosningafundi,
Donald Trump á kosningafundi,

Kosið verður til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings þriðjudaginn 6. nóvember, þá verða einnig kjörnir 35 af 100 öldungadeildarþingmönnum auk fjölmargra ríkisstjóra og annarra embættismanna. Donald Trump forseti leggur hart að sér síðustu daga fyrir kjördag, hann notar sömu aðferð og fyrir forsetakosningarnar að draga athygli fjölmiðla að sér. Nú fyrir kosningarnar efnir hann til 11 funda á sex dögum í átta ríkjum Bandaríkjanna.

Forsetinn verður á tveimur fundum í Flórída, Missouri, Vestur-Virginíu, Georgíu, Montana, Tennessee, Ohio og Indiana. Hann efnir til þriggja funda mánudaginn 5. nóvember, daginn fyrir kjördag.

Hann leggur höfuðáherslu á að halda meirihluta repúblíkana í öldungadeild auk þess sem hann beitir sér af þunga til varnar ríkisstjórum í Georgíu og Flórída. Fulltrúadeildin er ekki eins hátt skrifuð á fundalista forsetans þótt hann segist alltaf vera „fullviss“ um hana. Minnt er á að barátta hans til síðustu stundar í forsetakosningunum fyrir tveimur árum skiluðu honum árangri í þremur Miðvestur-ríkjum þar sem innan við 1% skipti sköpum um sigur hans.

Forsetinn nýtur þess að enginn úr röðum demókrata nýtur jafnmikillar athygli allra fjölmiðla og þar með þjóðarinnar og hann. Fimmtudag og föstudag voru sjónvarpsstjarnan Oprah Winfrey og fyrrv. forsetinn Barack Obama kölluð á vettvang til að styðja Stacey Abrams, demókrata sem stefnir á embætti ríkisstjóra í Georgíu. Dregið er í efa að það nýtist honum í baráttu, gæti meira að segja veikt stöðu hans.

Þá nýtir Trump sér einnig „rödd Hvíta hússins“, það er hann lætur birta opinberar tilkynningar sem vekja mikla athygli. Ein slík var birt fimmtudaginn 1. nóvember um „krísuna vegna farandfólks“ við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó. Í tilkynningunni var ekki mikið nýtt en henni var ætlað að höfða til kjósenda.

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …