
Donald Trump Bandaríkjaforseti efndi til blaðamannafundar undir lok ríkisoddvitafundar NATO-ríkjanna að morgni fimmtudags 12. júlí og lýsti yfir að NATO væri öflugra og betur í stakk búið til að takast á við verkefni sín en áður. Á einu ári hefðu önnur aðildarríki en Bandaríkin aukið útgjöld sín til varnarmála um 33 milljarða dollara frá því árið 2017.
Trump sagði að hann liti á þetta sem mikinn árangur og vegna hans væri full ástæða til að stuðla áfram að þeim mikla samhug sem sett hefði svip á fundinn að þessu sinni. Hann hefði trú á NATO.
Trump bar mikið lof á Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO. Undir forystu hans hefði náðst mikill árangur og hann kynni vel að meta það sem Stoltenberg segði um hlut sinn [Trumps] við að styrkja stöðu NATO.
Undir lok blaðamannafundarins sagði Trump að þetta hefðu verið „frábærir tveir dagar“ NATO kæmi öflugra frá þeim en það hefði kannski verið nokkru sinni.
Trump sagði öll NATO-ríkin ætla að standa við 2% útgjalda-markmiðið og flýta sér að ná því. Þegar markinu yrði náð mætti ræða að fara í 4%.
Fyrr þennan sama fimmtudag sagði Trump á Twitter:
„Árum saman hafa forsetar reynt árangurslaust að fá Þjóðverja og aðrar ríkar NATO-þjóðar til að borga meira fyrir vernd þeirra gegn Rússum. Þeir borga aðeins brot af kostnaðinum. Bandaríkjamenn greiða tugi milljarða dollara of mikið til að niðurgreiða Evrópu. Óviðunandi! Öll NATO-ríkin verða að standa við 2% skuldbindinguna og verða að lokum að fara í 4%.“