Home / Fréttir / Trump afturkallaði fyrirmæli sín um gagnárás á Íran

Trump afturkallaði fyrirmæli sín um gagnárás á Íran

Dróna af þessari gerð grönduðu Íranir.
Dróna af þessari gerð grönduðu Íranir.

Donald Trump gaf fyrirmæli um að ráðist yrði á Íran fimmtudaginn 20. júní til að hefna þess að Íranir skutu niður bandarískan dróna á eftirlitsflugi á Hormuz-sundi. Hann afturkallaði hins vegar fyrirmælin 10 mínútum fyrir árásina eftir að hershöfðingi sagði honum að 150 manns kynnu að týna lífi í henni.

Trump staðfesti afturköllun sína í færslu á Twitter að morgni föstudagsins 21. júní. Í færslunni segir forsetinn að allt hafi verið til reiðu til að hefja gagnárásina að kvöldi 20. júní og ráðist yrði á þrjú skotmörk. Þá hafi hann spurt hvað margir mundu deyja og hershöfðingi hefði sagt 150 manns. „Ég stöðvaði árásina 10 mínútum áður en til hennar kom…“ sagði hann.

Íranir sögðu föstudaginn 21. júní að Bandaríkjamenn gætu „ekki réttlætt“ gagnárás og hétu því að sýna „festu“ gegn öllum aðgerðum Bandaríkjahers.

Snemma dags 20. júní skaut íslamski byltingarher Írans niður RQ-4 Global Hawk dróna bandaríska flotans sem var á flugi undan suðurströnd Írans. Trump sagði þá að Íranir hefðu gert „mjög mikil mistök“.

Föstudaginn 21. júní sagði yfirmaður lofthernaðarsviðs byltingarhersins að Íranir hefðu sent „viðvaranir“ til drónans áður en honum var grandað, það hefði gerst 04.05 að morgni 20. júní eftir að dróninn hafi farið inn á yfirráðasvæði Írana.

Þá fullyrti að bandarísk P-8 eftirlitsflugvél með 35 menn um borð, hefði fylgt drónanum inn í lofthelgi Írans. Íranir hefðu getað grandað henni líka en ekki gert það. Bandarískir fjölmiðlar segja að þessi fullyrðing sé óstaðfest.

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …