
Donald Trump Bandaríkjaforseti aflýsti boðuðum fundi sínum með Vladimír Pútín Rússlandsforseta innan við klukkustund eftir að hann sagði að þeir ætluðu að hittast í tengslum við leiðtogafund 20 helstu iðnríkja heims í Buenos Aires í Argentínu, G20-ríkjanna.
Aflýsing fundarins var tilkynnt eftir að Michael Cohen, fyrrv. lögfræðingur Trumps, hafði sagt fyrir rétti að Trump hefði átt mánuðum lengur í viðskiptatengslum við Rússa en áður var upplýst.
Trump hafnaði ummælum lögfræðingsins á leið sinni til brottfarar á G20-fundinn. Skömmu eftir að hann var kominn um borð í forsetavélina sagðist Trump ekki ætla að hitta Pútín. Skýrði hann ákvörðun sína með því að vísa til þess að Rússar hefðu hertekið þrjú gæsluskip Úkraínumanna.
„Með vísan til þess að skipunum og áhöfnum þeirra hefur ekki verið skilað til Úkraínu af Rússum hef ég ákveðið að það sé best fyrir alla viðkomandi aðila að ég aflýsi áður boðuðum fundi mínum í Argentínu með Vladimir Pútín forseta. Ég vænti þess að við getum hist á árangursríkum fundi eftir að lausn hefur fundist á þessu máli,“ sagði Trump á Twitter.
Þessi orð komu á óvart því tæplega klukkustund áður hafði forsetinn sagt fjölmiðlamönnum að hann mundi líklega hitta Pútín í tengslum við G20-fundinn og þetta væri „mjög góður tími fyrir slíkan fund“.
Svo virðist sem þetta hafi komið Rússum í opna skjöldu. Dmitríj Peskov, talsmaður Pútíns, sagðist fyrst hafa frétt af ákvörðun Trumps á Twitter.
Peskov sagði að rússneska sendinefndin hefði þegar lagt af stað til Argentínu og hefði ekki fengið neina opinbera staðfestingu á breytingu á dagskránni. Hann bætti við að Pútin fengi nú „tvo aukatíma“ til „gagnlegra funda“ með leiðtogum á G20 fundunum.