Heræfingin Trident Juncture sem efnt verður til hér á norðurslóðum í október er mesta heræfing NATO frá árinu 2002 með þátttöku 40.000 hermanna frá 30 löndum. Tilgangurinn er að æfa varnir Noregs með vísan til 5. gr. Atlantshafssáttmálans um að árás á eitt NATO-ríki sé árás á þau öll.
Azita Raji, sendiherra Bandaríkjanna í Svíþjóð 2016 til 2017 skrifar um æfinguna mánudaginn 20. ágúst á vefsíðu í tengslum við Texas-háskóla. Hún segir æfinguna taka mið af árás á Noreg og megi í því sambandi minna á að í mars 2017 hafi Rússar á ögrandi hátt æft slíka árás með því að miða vopnum í sprengjuvélum sínum á hlerunarstöð Norðmanna á Vardø.
Azita Raji segir að hvað sem líði samskiptum Donalds Trumps og Vladimírs Pútíns hafi Bandaríkjastjórn fylgt „harðri stefnu“ gagnvart Rússum og þessi æfing sé undir forystu bandarísks flotaforingja. Hún segir þó að Trump verði að fara fram með gát til að veikja ekki traust bandamanna í garð Bandaríkjastjórnar. Engin heræfing geti bætt upp trúnaðarbrest, hún sýni aðeins hver sé geta hersins en ekki hvort forsetinn muni beita heraflanum á hættustundu.
Hún bendir á að Norðmenn leggi sig á mörgum sviðum fram um góð samskipti við Rússa en engu að síður sé þeim kappsmál að til þessarar herfæfingar sé efnt.
Í mars hafi Morten Haga Lunde hershöfðingi, yfirmaður leyniþjónustu norska hersins, haft uppi varnaðarorð í ræðu þegar hann lýsti nýlegum atvikum þar sem rússneskar herflugvélar létu eins og þær ætluðu að ráðast á norskar her- og hlerunarstöðvar og auk þess á herskip frá NATO-löndum sem æfðu Noregshafi. Lunde nefndi einnig atvik úr Zapad-heræfingu Rússa árið 2017 þegar Rússar fluttu skotpalla fyrir skammdrægar Iskander-flaugar sem geta borið kjarnorkuvopn á svæði við norsku landamærin. Var nær allur Norður-Noregur innan skotmáls flauganna.
Sendiherrann fyrrverandi víkur að Svíum sem taki einnig þátt í Trident Juncture sem náin samstarfsþjóð NATO. Það sýni best að sænskum stjórnvöldum standi ekki á sama um umsvif Rússa á norðurslóðum að þau skuli taka þátt í 5.greinar-æfingu NATO. Með því hafi þau stigið lengra til samstarfs við NATO-ríkin í hermálum en áður.
Azita Raji minnir á að Svíar hafi áhyggjur af því að Rússar sæki að þeim á annan hátt en áður með tölvuárásum og upplýsingafölsunum fyrir utan gamalkunnar ögranir með flugvélum og kafbátum. Þess vegna hafi herskylda verið innleidd að nýju í Svíþjóð og herafli sendur að nýju til fastrar viðveru á Gotlandi auk þess sem útgjöld til varnarmála aukist jafnt og þétt til ársins 2020. Svíar ætli ekki að standa álengdar verði átök í nágrenni þeirra heldur láta að sér kveða með NATO-ríkjunum.
Hvað sem líði Trump og þótt hann kunni ekki að hafa miklar áhyggjur af hernaðarumsvifum Rússa verði ekki sagt það sama um bandaríska varnarmálaráðuneytið. Þar leggi menn sig fram um að efla fælingarmáttinn gegn Rússum í Evrópu. Til marks um það sé nýleg ákvörðun um að virkja að nýju 2. flota Bandaríkjanna í Norfolk í Virginíu-ríki til að styrkja varnir siglingaleiðanna milli Bandaríkjanna og Evrópu fyrir utan að leggja bandamönnum lið gegn vaxandi umsvifum Rússa á hafsvæðunum frá Grænlandi um Ísland til Bretlands, það er í GIUK-hliðinu. Ákveðið hafi verið á fundi ríkisoddvita NATO-ríkjanna í Brussel í júlí 2018 að stjórn 2. flotans yrði einnig NATO-herstjórn kæmi til átaka.
Undir lok greinar sinnar segir Azita Raji að Trident Juncture-æfingin sýni að þátttökuríkin og þar með Bandaríkin hafi augljósar áhyggjur af hernaðarlegum umsvifum Rússa í Evrópu. Sjónarmið þeirra stangist algjörlega á við það sem forseti Bandaríkjanna segi þegar hann líti ekki á Rússa sem ógnvalda heldur „góða keppinauta“. Von bandamanna Bandaríkjanna sé að Trump átti sig á hættunum sem þeir sjái og vilji svara með æfingunni.
Azita Raji útilokar ekki að Trump hafi rétt fyrir sér í mati sínu á Rússum, að af þeim stafi velviljuð ógn, Norðurlanda- og Eystrasaltsríkin virðist þó annarrar skoðunar. Tímabært sé að Bandaríkjaforseti hlusti á þá sem ættu að vita hvernig í pottinn er búið.