
Rússneska varnarmálaráðuneytið skýrði frá því fimmtudaginn 10. nóvember er að rússneskir hermenn hyrfu nú á brott frá borginni Kerson í suðurhluta Úkraínu. Fara einingar úr hernum yfir Dnípró-ána sem rennur á borgarmörkunum.
Yfirvöld í Úkraínu hafa tekið öllum yfirlýsingum Rússa um brottför úr borginni með fyrirvara. Hætta sé á að um blekkingarleik í stríðinu sé að ræða, lokka eigi her Úkraínu í gildru.
Mykhailo Podoljak, ráðgjafi Úkraínuforseta, segir að ekki sjáist nein merki um að Rússar hverfi úr allri borginni:
„Þess vegna er hér um upplýsingafalsanir að ræða. Hluti rússneska hersins er enn í borginni og liðsaukasveitir eru tilbúnar í nágrenninu. Úkraínuher frelsar landsvæði á grunni staðfestra leynilegra upplýsinga en ekki sviðsettra sjónvarpsyfirlýsinga.“
Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa, boðaði brottförina frá vestur bakka Dnípró-árinnar í Kerson miðvikudaginn 9. nóvember. Kerson er eina héraðshöfuðborgin í Úkraínu sem Rússar hafa á valdi sínu, hertóku þeir hana í upphafi innrásar sinnar í febrúar 2024.
Sé ekki um blekkingu rússneska varnarmálaráðherrans að ræða er brottkall hersins frá Kerson eitt skýrasta dæmið um máttleysi Rússa andspænis her Úkraínumanna og kann að valda þáttaskilum í stríðinu.
Í næturávarpi sínu aðfaranótt 10. nóvember vél Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti ekki beint að tilkynningu Rússa um brottförina en sagði aðeins:
„Við verðum að halda aftur af tilfinningum okkar – ætíð í stríði. Eitt er vist, ég mun ekki mata andstæðinginn á upplýsingum um allar aðgerðir okkar … allir munu sjá árangurinn þegar hann birtist.“
Her Úkraínumanna hefur einbeitt sér undanfarið að Kerson þar sem 280.000 manns bjuggu fyrir innrásina.
Á undanförnum vikum hafa Úkraínumenn rofið birgðaflutningaleiðir með stórri alhliða gagnsókn í austur og suður hlutum Úkraínu. Hafa Rússar verið hraktir frá stórum landsvæðum sem þeir höfðu hernumið.
Þá hafa andspyrnuhópar látið að sér kveða gegn Rússum handan víglínunnar í Kerson. Þeir hafa unnið skemmdarverk og myrt leppa Rússa.
Með því að ná Kerson nálgast Úkraínuher Krímskaga. Flýgur nú fyrir að ráðist verði til atlögu við Rússa þar, þeir innlimuðu skagann á ólögmætan hátt árið 2014.
Fréttir berast frá Moskvu um að öfgamenn í innsta hring Pútins beiti hann þrýstingi með kröfum um meiri hörku og grimmd gegn almennum borgurum og grunnvirkjum í Úkraínu.