Home / Fréttir / Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Pútin mótmælt í Moldóvu.

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð rússneskra stjórnvalda vegna yfirgangs þeirra. Hafa þau misst íhlutunarvaldið sem þau höfðu í löndum sem eru sögulega á rússnesku áhrifasvæði.

Í nýlegri Gallup-könnun kemur fram að í mörgum ­– ekki öllum – ríkjunum sem áður voru hluti Sovétríkjanna minnkaði stuðningur við forystu Rússa á milli áranna 2021 og 2022.

Fyrir innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022 höfðu margir í Úkraínu, Georgíu og Eystrasaltslöndunum vara á sér gagnvart Moskvuvaldinu, þó voru þeir í nánd við 20% sem voru velviljaðir Rússlandi en nú eru þeir 0% eða nálægt því.

Vinsældir rússneskra ráðamanna hafa jafnvel minnkað á enn dramatískari hátt í hefðbundnum vinalöndum Rússa eins og Armeníu, Moldóvu, Kazakstan og Azerbaidjan.

Í þessum löndum er nú meiri andstaða við Rússa en stuðningur, öfugt við það sem áður var.

Í Kazakstan og Moldóvu þar sem íbúar eru að hluta af rússneskum uppruna ríkir ótti við að Rússar beiti vopnavaldi til að leggja hluta landanna undir sig.

Stuðningur er enn við rússneska ráðamenn í tveimur fyrrv. Sovétlýðveldum: Kyrgyzstan og Uzbekistan. Þar hefur stuðningurinn þó einnig minnkað.

Sé tekið meðaltal af viðhorfi fólks í löndunum öllum er andstaðan 57% í garð Rússa árið 2022 en 21% styðja forystu Rússlands.

Þá fækkar þeim í Kazakstan, Lettlandi og Eistlandi sem segjast vera af rússneskum uppruna úr 33% í 15% í Kazakstan, úr 30% í 19% í Lettlandi og 29% í 21% í Eistlandi.

Fyrir utan stríðið í Úkraínu eru aðrir þættir sem stuðla að óvinsældum Rússa. Þeir hafa til dæmis ekki mátt sín neins við að koma á friði milli Armena og Azerbaidja vegna átaka þjóðanna um ráð yfir Nagorno-Karabakh.

Þá hefur þeim vaxið fiskur um hrygg í þessum löndum sem telja Úkraínustríðið gefa færi á að minnka öll tengsl við Rússa og auka þannig eigið sjálfstæði.

Gallup líkir þessum niðurstöðum og minnkandi áhrifum og virðingu Rússa  við „gjörbreytingu“ sem kunni að boða „ragnarök síðasta stórveldis Evrópu“.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …