Home / Fréttir / Torséðar B-2 sprengjuþotur í þriðja sinn á Keflavíkurflugvelli

Torséðar B-2 sprengjuþotur í þriðja sinn á Keflavíkurflugvelli

Bandaríski flugherinn birti þessa mynd af B-2 þotum á Keflavíkurflugvelli.

Sunnudaginn 13. ágúst tilkynnti utanríkisríkiráðuneytið að til Keflavíkurflugvallar kæmu þrjár bandarískar B-2 Spirit torséðar sprengjuþotur. Í blaði Bandaríkjahers, Stars and Stripes, segir 15. ágúst að vélarnar komi frá flugherstöð í Missiouri og þetta sé að sögn flughersins í fyrsta sinn sem vélum af þessari gerð sé falið verkefni utan Bandaríkjanna síðan fimm mánaða öryggishléi á flugi þeirra lauk í maí 2023.

Þoturnar og rúmlega 150 flughermenn sem koma til Íslands eru úr 509. sprengjuvélasveit í Whiteman-flugherstöðinni. Viðbragðssveitinni sé ætlað að æfa samskipti flughersins, bandamanna hans og samstarfsaðila við ókunnar aðstæður. Æfingar af þessu tagi hafi verið stundaðar síðan 2018 og standi í tvær til sex vikur.

Til Íslands komu B-2 Spirit þotur í fyrsta sinn 2019 til eldsneytistöku og síðan voru þrjár þotur með aðsetur á Keflavíkurflugvelli í tvær og hálfa viku í lok ágúst að 2021. Óljóst er hve lengi þoturnar verða með bækistöð á Keflavíkurflugvelli að þessu sinni.

Í desember 2022 kviknaði eldur í B-2 vél í Whiteman-flugherstöðinni eftir neyðarlendingu. Enginn slasaðist. Um ári fyrr lenti B-2 í vandræðum í lendingu á sama flugvelli.

Eftir þessi tvö atvik var gert hlé á flugi allra véla af þessari gerð til að grandskoða þær í öryggisskyni. Allar B-2 Spirit-vélar bandaríska flughersins eiga heimastöð í Whiteman, þær eru rúmlega 30 ára gamlar.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …