
Ríkisoddvitar NATO-ríkjanna 30 komu saman til fundar í Brussel fimmtudaginn 24. mars 2022. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat fundinn. Hér birtist ályktun fundarins:
Við, ríkisoddvitar 30 NATO-bandalagsþjóða, komum saman í dag til að ræða árás Rússa á Úkraínu, alvarlegustu ógn við öryggi á Evró-Atlantshafssvæðinu í áratugi. Stríð Rússa á hendur Úkraínumönnum hefur sundrað friði í Evrópu og valdið gífurlegum mannlegum hörmungum og eyðileggingu.
Við fordæmum innrás Rússa í Úkraínu af eins miklum þunga og verða má. Við hvetjum Pútin forseta til að stöðva þetta stríð tafarlaust og kalla herafla á brott frá Úkraínu og hvetjum Hvít-Rússa til að hverfa frá samaðild sinni í samræmi við ályktun um árás á Úkraínu (e. Aggression Against Ukraine Resolution) sem var samþykkt á allsherjarþingi SÞ 2. mars 2022. Rússar ættu að hlíta úrskurði Alþjóðadómstólsins frá 16. mars og hætta tafarlaust hernaðaraðgerðum. Árás Rússa á Úkraínu ógnar heimsöryggi. Hún brýtur gegn alþjóðlegum reglum og eykur öryggisleysi í heiminum. Stigmagnandi málflutningur Pútins forseta er ábyrgðarlaus og vegur gegn stöðugleika.
Úkraínumenn hafa vakið aðdáun heimsins með hetjulegri andspyrnu gegn grimmdarlegu landvinninga-stríði Rússa. Við fordæmum harðlega gjöreyðandi árásir Rússa á almenna borgara, þar á meðal konur, börn og fólk í viðkvæmri stöðu. Við munum vinna að því með öðrum í alþjóðasamfélaginu að þeir sæti ábyrgð sem gerast sekir um brot á mannúðar- og alþjóðalögum, þar á meðal stríðsglæpi. Við höfum miklar áhyggjur af vaxandi hættu á kynferðislegu ofbeldi og mansali. Við hvetjum Rússa til að leyfa að mannúðaraðstoð sé veitt á skjótan, öruggan og hindrunarlausan hátt, almennir borgarar komist öruggir leiðar sinnar auk þess sem leyft verði að veita mannúðaraðstoð í Mariupol og öðrum umsetnum borgum. Við fordæmum einnig árásir á borgaraleg mannvirki, þar á meðal þær sem skapa hættu fyrir kjarnorkuver. Við munum halda áfram að andmæla lygum Rússa um árás þeirra á Úkraínu og afhjúpa uppdiktaðar frásagnir eða tilbúnar gerviaðgerðir sem gripið er til í því skyni að búa í haginn fyrir frekari stigmögnun, þar á meðal gegn almennum íbúum Úkraínu. Hvers kyns beiting Rússa á efna- eða sýklavopnum er óþolandi og hefur alvarlegar afleiðingar.
Rússar verða að sýna að þeim sé alvara með samningaviðræðum og gera það með því að standa tafarlaust að vopnahléi. Við hvetjum Rússa til að taka á uppbyggilegan hátt þátt í trúverðugum samningaviðræðum við Úkraínumenn í því skyni að ná raunverulegum niðurstöðum sem leiði til sjálfbærs vopnahlés og þróist í áttina að algjörum brottflutningi herja þeirra frá landsvæði Úkraínu. Hörmulegt er að Rússar haldi árásum sínum áfram á meðan viðræður standa. Við styðjum átak Úkraínumanna til að ná friði og það sem bandalagsþjóðir gera diplómatískt til að leggja að Rússum að hætta stríðinu og létta á mannlegum þjáningum.
Við lýsum fullri samstöðu með Zelenskíj forseta, ríkisstjórn Úkraínu og hugrökkum íbúum Úkraínu sem verja ættjörð sína. Við vottum öllum virðingu sem hafa fallið, særst og misst heimili sín vegna árásar Rússar og einnig fjölskyldum þeirra. Við áréttum óbifanlegan stuðning okkar við sjálfstæði, fullveldi og óskertan landsyfirráðarétt Úkraínumanna innan landamæra þeirra sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar og innan lögsögu þeirra á hafi úti.
Úkraínumenn hafa grundvallarrétt til sjálfsvarnar samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Frá 2014 höfum veitt víðtækan stuðning til að styrkja Úkraínumenn til að njóta þessa réttar. Við höfum þjálfað hermenn Úkraínu, eflt hernaðarlegan mátt þeirra og getu og styrkt viðnámsþrótt þeirra. NATO-bandalagsþjóðirnar hafa aukið stuðning sinn og munu leggja sig fram um að veita Úkraínumönnum frekari stjórnmálalegan og raunhæfan stuðning þegar þeir verjast áfram. NATO-bandalagsþjóðirnar munu einnig halda áfram að veita aðstoð á sviðum eins og netöryggi og vörn gegn ógnum sem snerta efna- eða sýklavopn, geislavirkni og kjarnorku. NATO-bandalagsþjóðirnar veita einnig víðtækan mannúðarstuðning og taka á móti milljónum flóttamanna. Utanríkisráðherrarnir ræða nánar um stuðning okkar við Úkraínu þegar þeir hittast í apríl.
Við erum einhuga um þann ásetning okkar að standa gegn tilraunum Rússa til að eyðileggja grunninn undir alþjóðlegu öryggi og stöðugleika. Við köllum Rússa og Hvít-Rússa til ábyrgðar. Víðtækar refsiaðgerðir og þungbær stjórnmálalegur kostnaður hefur verið lagður á Rússa til að binda enda á þetta stríð. Við munum af staðfestu viðhalda samræmdum alþjóðlegum þrýstingi á Rússa. Við munum áfram eiga náið samráð við viðeigandi hagaðila og aðrar alþjóðastofnanir, þar á meðal Evrópusambandið. Samhæfing milli ríkja beggja vegna Atlantshafs skiptir höfuðmáli fyrir áhrifamikil viðbrögð vegna núverandi hættuástands.
Við hvetjum öll ríki, þar á meðal Kínverska alþýðulýðveldið (PRC), til að virða alþjóðlega skipan þar á meðal meginreglur fullveldis og landsyfirráðarétt eins og þær eru skráðar í sáttmála SÞ, til að láta hjá líða að styðja stríðsrekstur Rússa á nokkurn hátt og til að gera ekkert sem hjálpar Rússum að fara í kringum refsiaðgerðir. Við höfum áhyggjur af nýlegum opinberum ummælum PRC-embættismanna og hvetjum Kínverja til að hætta að magna falskar frásagnir Kremlverja, einkum um stríðið og NATO, og til að stuðla að friðsamlegri lausn átakanna.
Við virðum sem fyrr grundvallar sjónarmiðin að baki öryggi Evrópu og heimsins alls, þar á meðal að hver þjóð hafi rétt til að ákveða sjálf skipan eigin öryggismála án afskipta annarra. Við áréttum stuðning okkar við stefnu NATO sem kennd er við opnar dyr í samræmi við 10. gr. Atlantshafssáttmálans.
Við veitum samstarfsaðilum sérsniðinn stuðning verði þeir fyrir ógnunum Rússa eða afskiptum og munum auka aðstoð okkar í því skyni að hjálpa þeim að standast skaðvænleg áhrif Rússa og efla viðnámsþrótt þeirra með vísan til tilmæla samstarfsaðila okkar og langvarandi samstarfsáætlana. Utanríkisráðherrarnir munu í apríl skoða mótaðar tillögur um að efla stuðning okkar við þessa samstarfsaðila.
Við höldum áfram að stíga öll nauðsynleg skref til að vernda og verja öryggi íbúa bandalagslandanna og hvern þumlung af landsvæði bandalagsríkjanna. Hollusta okkar við 5. grein Atlantshafssáttmálans er óhagganleg.
Til að svara aðgerðum Rússa höfum við virkjað varnaráætlanir NATO, sent einingar úr viðbragðsherafla NATO á vettvang, og sett 40.000 hermenn á austur væng okkar ásamt umtalsverðum flugher og flota beint undir herstjórn NATO sem nýtur stuðnings liðsafla frá bandalagsþjóðum. Við erum einnig að koma á fót fjölþjóðlegum orrustufylkjum í Búlgaríu, Ungverjalandi, Rúmeníu og Slóvakíu. Við gerum allar þessar ráðstafanir og tökum þessar ákvarðanir til að tryggja öryggi og varnir allra bandalagsþjóðanna á öllum sviðum og með 360-gráðu nálgun. Aðgerðir okkar eru í þágu forvarna, reistar á meðalhófi og ekki stigmagnandi. Við munum nú hraða umbreytingu NATO með hliðsjón af hættulegri strategískum raunveruleika, þar á meðal með samþykkt næstu grunnstefnu (e. Strategic Concept) í Madrid. Í ljósi alvarlegustu ógnar við öryggi Evró-Atlantshafssvæðisins í áratugi munum við einnig umtalsvert styrkja langvarandi fælingarmátt okkar og varnarstöðu og munum þróa hvers kyns herafla í viðbragðsstöðu og nauðsynlega getu til að viðhalda trúverðugum fælingarmætti og vörnum. Til stuðnings þessum skrefum verður efnt til öflugri æfinga og aukin áhersla verður lögð á sameiginlegar varnir og samhæfingu.
Við erum að auka viðnámsþrótt samfélaga okkar og innviða til að svara skaðvænlegum rússneskum áhrifum. Við erum að efla netöryggi okkar og varnir, leggjum hver öðrum lið komi til netárásar. Við erum tilbúnir að láta þá sem valda okkur skaða í netheimum gjalda fyrir það og við erum að auka skipti á upplýsingum og ástandsvitund, efla almannaviðbúnað og styrkja getu okkar til að bregðast við upplýsingafölsunum. Við munum einnig efla viðbúnað og viðbrögð til að takast á við ógnir af efna- og sýklavopnum, geislavirkni og kjarnorku. Við tökum frekari ákvarðanir þegar við hittumst í Madrid.
Skrefin sem við tökum til að tryggja öryggi bandalags okkar og Evró-Atlantshafssvæðisins krefjast nauðsynlegs fjármagns. Bandalagsþjóðirnar auka útgjöld sín til varnarmála umtalsvert. Í dag höfum við ákveðið að hraða ferð okkar að heildarmarkmiðinu sem við settum með skuldbindingunni um varnarútgjöld (e. Defence Investment Pledge). Í samræmi við skyldur okkar samkvæmt 3. gr. Atlantshafssáttmálans munum við styrkja enn frekar einstakt og sameiginlegt framlag okkar til að veita viðnám gegn hvers kyns árás. Á fundi okkar í Madrid munum við kynna frekari áform um hvernig staðið verði við skuldbindinguna.
Tilefnislaust stríð Rússa gegn Úkraínu er grundvallar ögrun við gildi og viðmið sem hafa fært öllum í Evrópu öryggi og hagsæld. Ákvörðun Pútins um að ráðast á Úkraínu er strategísk mistök sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir Rússland og rússnesku þjóðina. Við erum einhuga að baki þeim ásetningi okkar að ætla að standa gegn árás Rússa, aðstoða ríkisstjórn og íbúa Úkraínu og verja öryggi allra bandalagsþjóðanna.