Home / Fréttir / Toppfundur Ernu Solberg og Vladimirs Pútins

Toppfundur Ernu Solberg og Vladimirs Pútins

Erna Solberg og Vladimir Pútin í St. Pétursborg.
Erna Solberg og Vladimir Pútin í St. Pétursborg.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var meðal norrænna ráðamanna sem tóku þátt í norðurslóðaráðstefnu í St.Pétursborg þriðjudaginn 9. apríl. Þar var einnig Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, og hitti hún Vladimir Pútín Rússlandsforseta í fyrsta sinn á einkafundi frá því að Rússar hernámu Krímskaga fyrir fimm árum.

„Við áttum góðan fund sem var gott upphaf að frekara samstarfi. Við vildum ræða saman stjórnmál á æðsta stigi til að greina á hvaða svipum við getum unnið meira saman,“ sagði Solberg við norsku NTB-fréttastofuna að fundinum með Pútin loknum.

Hún minnti á að enn væri ágreiningur milli stjórnvalda í Rússlandi og Noregi vegna ástandsins í Úkraínu en sagði að þó ætti að efla samvinnu ríkjanna á sviði viðskipta, sjávarnytja og norðurslóðamála. Það skipti Norðmenn máli.

Hún telur að boð Pútin til sín um að sitja fundinn í St. Pétursborg sé til marks um áhuga hans á að efla tengslin milli landanna. Solberg lagði jafnframt áherslu á að stjórn sín ætlaði ekki að hverfa frá aðild að refsiaðgerðum gegn Rússum.

„Við stöndum einhuga með bandamönnum okkar um sameiginlega stefnu gagnvart Rússlandi til að andmæla brotinu gegn alþjóðalögum í Úkraínu,“ sagði Solberg.

Fyrir fundinn með Pútin lét norski forsætisráðherrann í ljós vandlætingu á tilburðum Rússa við að trufla GPS-merki yfir Finnmörku, nyrsta héraði Noregs. Norska leyniþjónustan segir að í þessum truflunum felist ekki aðeins ögranir við herflugvélar heldur einnig farþegavélar.

„Þessu fylgir álag. Þetta hefur áhrif á stöðugleika í merkjasendingum til flugvéla. Þess vegna höfum við vakið máls á þessu við Rússa og lagt fram gögn máli okkar til stuðnings,“ sagði Solberg við NTB. Þessum tuflunum verði að hætta.

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …