Home / Fréttir / Tölvuþrjótar ráðast á þýska forsetann, ráðherra og þingmenn

Tölvuþrjótar ráðast á þýska forsetann, ráðherra og þingmenn

Hér sést glerþak þýska þingsins við Brandenborgarhliðið í Berlín.
Hér sést glerþak þýska þingsins við Brandenborgarhliðið í Berlín.

Netöryggisstofnun Þýskalands (BSI) rannsakar nú „gaumgæfilega“ hvernig unnt var að brjótast inn í opinbert tölvukerfi og stela upplýsingum frá hundruðum þýskra stjórnmálamanna og birta þær á netinu, sagði talsmaður stofnunarinnar föstudaginn 4. janúar.

BSI segir að í fyrstu sé ekki að sjá að tekist hafi að brjótast inn í þau kerfi ríkisins þar sem gilda sérstakar reglur um trúnaðargögn og meðferð þeirra.

Katarina Barley dómsmálaráðherra sagði að um „alvarlega árás“ hefði verið að ræða. Það hefði verið markmið tölvuþrjótanna að veikja traust almennings til lýðræðisins og stofnana ríkisins.

Frank-Walter Steimeier, forseti Þýskalands, og Angela Merkel kanslari voru meðal þeirra sem urðu fyrir árás. Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði að fyrsta athugun sýndi að ekki hefðu verið birt nein viðkvæm gögn af kanslaraskrifstofunni.

Varnarmálaráðuneytið tilkynnti að allt væri með kyrrum kjörum í tölvukerfum þess.

Einkabréf til og frá Angelu Merkel Þýskalandskanslara, netföng og fax-númer hafa birst á vefsíðu þar sem miðlað er gögnum sem safnað hefur verið á ólögmætan hátt frá þýskum stjórnmálamönnum.

Útvarpsstöð í Berlín skýrði frá því að kvöldi fimmtudags 3. janúar að á Twitter hefðu birst trúnaðarskjöl stjórnmálaflokka og persónuupplýsingar um þýska þingmenn sem stolið hefði verið á netinu. Þingmenn allra flokka nema AfD-flokksins, sem er lengst til hægri, urðu fyrir árásinni.

Það var fyrst upplýst að kvöldi fimmtudagsins að tekist hefði að brjótast inn í tölvur þingmanna og setja efnið á netið. Nánari athugun leiddi í ljós að efnið hefði einhvern tíma í desember 2018 verið sett á Twitter-reikning sem skráður er í Hamborg. Voru skjölin birt eins og um jóladagatal væri að ræða. Eigandi reikningsins segir að hann sé notaður til öryggisrannsókna, gamans og í listrænum tilgangi.

Flest efnið snerist um heimilisföng, símanúmer og annað slíkt hjá þingmönnum. Einnig var þar að finna upplýsingar um fjármál og bankareikninga, persónuskilríki og einkasamskipti á netinu.

Í útvarpsstöðinni var sagt að ekkert af þessu efni bæri með sér að vera ofurviðkvæmt. Þar mátti sjá starfsumsóknir, innanhúss-minnisblöð stjórnmálaflokka og lista yfir flokksfélaga. Sum skjalanna eru meira en árs gömul.

Heimild: DW

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …