Home / Fréttir / Tölvuþrjótar ráðast á heilbrigðiskerfi af auknum þunga

Tölvuþrjótar ráðast á heilbrigðiskerfi af auknum þunga

2017-03-29-ransomware-attack

Ríkisstjórnir ýmissa landa hafa gripið til sérstakra ráðstafana til að verja heilbrigðisstofnanir gegn tölvuárásum nú á tímum heimsfaraldursins. Hörmulegar afleiðingar slíkra árása birtust meðal annars fyrir nokkru þegar kona andaðist eftir að henni var meinað að njóta lækninga á þýsku sjúkrahúsi sem glímdi við net-gíslatökumenn.

Um þessa hættu er fjallað í nýlegri grein í bandaríska blaðinu The Wall Street Journal (WSJ) þar sem vitnað er til orða sem Kubo Macak, lögfræðilegur ráðunautur Alþjóða Rauða krossins, lét falla um að almennt væri viðurkennt að efla þyrfti tölvuverndina. „Það verður að stöðva skimun vegna kórónuveirunnar vegna þess ef tölvur frjósa eða hafa verið teknar í gíslingu og virka ekki eðlilega í marga daga eða vikur getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga,“ sagði hann.

WSJ segir að án afláts sé reynt að brjótast inn í tölvukerfi heilbrigðisstofnana. Eftir að faraldurinn hófst í ár séu gerðar gíslatökuárásir á sjúkrahús og stundaðar tölvunjósnir gegn lyfjafyrirtækjum sem vinna að þróun bóluefnis. Netþjónar Háskólasjúkrahússins í Düsseldorf voru teknir í gíslingu nú í september og voru gjörgæslusjúklingar sendir til annarra sjúkrahúsa. Kona dó vegna tafa á aðgerð.

Nokkrar ríkisstjórnir þar á meðal Bandaríkjanna, Bretlands og Kanada saka rússneska og kínverska tölvuþrjóta um að hafa gert alvarlegar árásir. Macak segir að á fundum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna undanfarna mánuði hafi sífellt fleiri ríkisstjórnir lýst heilbrigðiskerfið sem eitt af lykilkerfum samfélagsins sem verja verði sérstaklega gegn árásum. „Við höfum aldrei áður kynnst sambærilegum áhuga hjá ríkisstjórnum,“ sagði Macak við WSJ.

Vitnað er í Kaja Ciglic, yfirmann á stafrænu friðarsviði hjá Microsoft, sem segir að markvisst sé þess nú gætt að tryggja vernd heilbrigðiskerfisins gegn netárásum sem gerðar eru fyrir tilstilli stjórnvalda einhverra ríkja.

Njósnir geta til dæmis spillt fyrir tilraunum með bóluefni ef tölvuþrjótar komast yfir trúnaðarupplýsingar, þótt ekki sé hróflað við neinum gögnum í því skyni að spilla þeim, segir Dapo Akande, prófessor í alþjóðalögum við Oxford-háskóla.

Víða hefur verið gripið til sérstakra varna fyrir heilbrigðisstofnanir eins og til dæmis í Kaupmannahöfn þar sem heilbrigðisklasinn sem heldur utan um gagnasöfn heilbrigðiskerfisins er allan sólarhringinn í beinu sambandi við netöryggismiðstöð ríkisins enda er litið á heilbrigðiskerfið sem eitt af lykilkerfum samfélagsins.

Søren Bank Greenfield er yfir öryggisdeild net- og upplýsingasviðs danska heilbrigðiskerfisins. Eftir að faraldurinn braust út jukust netafbrot gagnvart heilbrigðiskerfinu um 300% og var leitað aðstoðar netöryggissérfræðinga. Þeir lokuðu á vefsíður sem tölvuþrjótar notuðu til að verða sér úti um netföng sem tengdust baráttu gegn veirunni.

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …